Hverhóll er eyðijörð í Skíðadal og tilheyrir sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð. Bærinn stóð á háum hól vestan Skíðadalsár. Nú sjást þar aðeins gróin tóftarbrot. Enginn jarðhiti er í grennd við Hverhól og ekki er vitað hvernig stendur á nafni bæjarins. Búskapur á Hverhóli hefur verið stopull í aldanna rás. Bæjarins er fyrst getið á 15. öld og síðan af og til á næstu öldum og var hann þá ýmist í byggð eða í eyði. Jörðin virðist hafa verið byggð út úr Kóngsstöðum og var lengi Vallakirkjueign eins og sú jörð. Hverhóll fór endanlega i eyði 1947. Síðustu ábúendur á Hverhóli voru Friðrik Jónsson og Svanfríður Gunnlaugsdóttir sem seinna bjuggu í Gröf í Svarfaðardal.

Hverhóll, tóftir bæjarins, Almenningsfjall í baksýn