Hvalsauki (hvalambur eða höfuðlýsi) er vaxkennd olía eða lýsi sem er í tunnulaga fitubólstri í höfði búrhvala og í minna mæli annarra hvala, svo sem andarnefju. Olían er fljótandi við líkamshita en storknar þegar hitinn fer niður fyrir 29°C og er talið að hvalirnir noti olíuna til að stýra flothæfni sinni með því að breyta hitastigi hennar og þar með eðlisþyngd.

Hvalsauki tekinn úr höfði búrhvals. Teikning frá 1864.

Áður var álitið að olían í höfði hvalanna væri sæði þar sem hún þótti minna á sæði karla. Þessari kenningu er nú algjörlega hafnað en fitubólstrið er nefnt spermaceti á latínu (sperma = sæði, ceti = hvalir). Hvalsauki er lyktarlaus og skjannahvítur og var áður mikið notaður í snyrtivörur og sem leðuráburður, svo og í kerti, smyrsli og ýmsar aðrar vörur. Hann var verðmætastur af öllu hvalalýsi en úr einum búrhval gátu fengist 3000 –5000 kíló af honum.

Heimildir breyta

  • „Úr sögu hvalveiða“. Lesbók Morgunblaðsins, 13. júlí 1991.