Holtsetaland

(Endurbeint frá Holsetaland)

Holtsetaland er nyrsta landsvæði Þýskalands, milli Saxelfar og Egðu sunnan við landamæri Danmerkur eins og þau lágu áður. Það er hluti af þýska fylkinu Slésvík-Holtsetaland. Höfuðstaður Holtsetalands var hafnarborgin Kiel. Karlamagnús lagði svæðið undir sig um 800 í herför sinni gegn Söxum. Holtsetaland varð greifadæmi undir hertogadæminu Saxlandi árið 1111. Greifadæmið var í höndum Schauenburg-ættarinnar sem fékk líka danska greifadæmið Slésvík á 14. öld. 1459 dó ættin út og lénin tvö gengu til Danakonungs. 1474 var Holtsetaland gert að sjálfstæðu hertogadæmi innan hins Heilaga rómverska ríkis. 1490 var hertogadæminu skipt í tvo hluta Holtsetaland-Lukkuborg sem heyrði undir Danakonunga, og Holtsetaland-Gottorp sem önnur grein af ætt Aldinborgara fékk í sinn hlut. Þeir hertogar voru oft í bandalagi með Svíum, Prússum eða Rússum gegn Dönum. 1773 ákvað Danakonungur að skipta á greifadæminu Aldinborg fyrir Gottorp-hluta Holtsetalands. Holtsetaland var hluti af Þýska bandalagsríkinu frá 1815 til 1864 þótt það væri enn í konungssambandi við Danmörku. Eftir lát Friðriks 7. kom upp deila um ríkiserfðir þar sem Kristján 9. erfði krúnuna í gegnum móður sína. Þetta leiddi til stríðs, Annars Slésvíkurstríðsins, milli Þýska bandalagsríkisins og Danmerkur sem Danmörk tapaði. Slésvík og Holtsetaland voru brátt sameinuð í eitt hérað, Slésvík-Holtsetaland, sem heyrði Prússlandi til. Eftir Seinni heimsstyrjöld var búið til sjálfstjórnarfylkið Slésvík-Holtsetaland með höfuðstað í Kiel.

Kort af Jótlandi sem sýnir Slésvík og Holtsetaland (gult).
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.