Hildarhellir (Stórhöfða)

Hildarhellir í Stórhöfða fannst sumarið 1965, finnandinn Valgeir Einarsson sýndi hellinn almenningi 1968. Nafnið Hildarhellir kemur til af því að fyrsta stúlkan sem kom inn í hellinn var Hildur Pálsdóttir, dóttir Páls Steingrímssonar.

Þær mælingar á hellinum sem kortið sýnir gerðu þeir Páll Steingrímsson og Ernst Kettler, en kortið er teiknað á tæknideild Vestmannaeyjabæjar 1968.

Hellirinn er samkvæmt mælingum þeirra Páls Steingrímssonar og Ernst Kettlers um 117 metra langur. Samkvæmt mælingum Hellarannsóknafélagsins frá árinu 1992 reyndist hann vera 213 metrar og er þeirra uppdráttur nokkuð öðruvísi. Þann uppdrátt er að finna í bókinni Íslenskir hellar eftir Björn Hróarsson.

Hellirinn er þröngur víðast hvar, opið aðeins 50-60 sentimetrar. Á nokkrum stöðum er þó nægilegt rými fyrir nokkra fullorðna og sumstaðar geta meðalstórir menn staðið uppréttir.

Þegar hellirinn fannst var örþunn skel neðst í honum sem brotnaði þegar skriðið var inn. Einnig var mikið af dropasteinum í þakinu sem eru að mestu horfnir. Innst inni fannst svo ein beinagrind af frekar litlum fugli.

Stórhöfði myndaðist í miklu eldgosi fyrir tæpum 6000 árum. Gosið var mjög svipað og í Surtsey. Meðan sjórinn náði til gosrásarinnar splundraðist kvikan og myndaði gjóskuhrúgald sem síðan varð að móbergi á nokkrum árum vegna hitans. Líkt og í Surtsey fór svo að sjór hætti að ná til gosrásarinnar og þá tók hraun að renna ofan á móberginu.

Tengt efni breyta

Heimildir breyta

  • Björn Hróarsson (2006). Íslenskir hellar. Vaka-Helgafell.

Tenglar breyta