Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna

(Endurbeint frá Heimsmarkmiðin)

Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna eða Heimsmarkmiðin eru 17 markmið sem öll aðildarríki Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykktu þann 25. september 2015. Markmiðin, sem gilda á tímabilinu 2016-2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs á gildistímanum. Markmiðin taka við af Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir árin 2000-2015. Árangur verður metinn miðað við tilteknar mælistikur, líkt og fyrir Þúsaldarmarkmiðin.[1]

Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna

Aðalsmerki heimsmarkmiðanna er að þau eru algild. Aðildarríkin hafa skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu þeirra bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra. Markmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þau fela einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Aðalinntak þeirra er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.[2]

Þátttaka ólíkra aðila

breyta

Sjálfbærnimarkmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast skipulagðrar vinnu af hálfu stjórnvalda auk þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila. Heimsmarkmiðin eru því þróuð í samstarfi milli ríkja og forstjóra og leiðtoga í atvinnulífinu, á milli frjálsra félaga samtaka og fjölmiðla og á milli skóla og menntastofnana víða um heim.

Íslensk þátttaka

breyta

Á Íslandi hefur ríkisvaldið undir forystu forsætisráðuneytisins, leitt vinnu að Heimsmarkmiðunum. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa einhver af markmiðunum á sinni könnu. Ríkisvaldið hefur unnið með sveitarfélögum og atvinnulífinu í gegnum félagasamtökin Festu og Almannaheill varðandi fræðslu fyrir félagasamtök.[3]

Sveitarfélög á Íslandi hafa sýnt metnað til að stíga stór skref í að vinna að Heimsmarkmiðunum og uppfylla Parísarsamninginn um takmörkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Aðlaga þurfi íslenskt samfélag að þeim breytingum sem þegar hafa átt sér stað og fyrirséðar eru vegna loftslagsbreytinga.[4] Þann 19. júní 2019 var stofnaður nýr samstarfsvettvangur um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og loftslagsmál á vegum Samtaka íslenskra sveitarfélaga.[5]

Ýmis einkaðilar og félagasamtök á Íslandi hafa skuldbundið sig að vinna að Heimsmarkmiðunum sem leiðarvísi að betra samfélagi.[6]

Markmiðin 17

breyta
  1. Fátækt: Að binda enda á fátækt í öllum myndum alls staðar.
  2. Hungur og fæðuöryggi: Að binda enda á hungur, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði.
  3. Góð heilsa og vellíðan: Að tryggja góða heilsu og vellíðan allra aldurshópa.
  4. Menntun: Að tryggja gæðamenntun án aðgreiningar með jafnræði að leiðarljósi og skapa tækifæri til símenntunar fyrir alla.
  5. Jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna: Tryggja jafnrétti kynjanna og valdeflingu allra kvenna og stúlkna.
  6. Vatn og hreinlætisaðstaða: Tryggja aðgengi að vatni og sjálfbæra nýtingu þess, og hreinlætisaðstöðu fyrir alla.
  7. Orka: Tryggja aðgengi að áreiðanlegri, sjálfbærri og hreinni orku á viðráðanlegu verði fyrir alla.
  8. Hagvöxtur: Stuðla að varanlegum sjálfbærum hagvexti án aðgreiningar, fullri, arðbærri og mannsæmandi atvinnu fyrir alla.
  9. Innviðir, iðnvæðing: Byggja upp trygga innviði, styðja við sjálfbæra iðnþróun án aðgreiningar og næra nýsköpun.
  10. Ójöfnuður: Draga úr ójöfnuði innan ríkja og milli þeirra.
  11. Borgir: Gera borgir og aðrar mannabyggðir öruggar, tryggar og sjálfbærar án aðgreiningar.
  12. Sjálfbær neysla og framleiðsla: Tryggja sjálfbær framleiðslu- og neyslumynstur.
  13. Loftslagsbreytingar: Grípa til bráðaaðgerða til að berjast gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra.
  14. Úthöfin: Vernda og nýta úthöfin, sjó og sjávarauðlindir á sjálfbæran hátt.
  15. Líffjölbreytni, skógar, skógaeyðing: Vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu vistkerfa á landi, stýra skógum á sjálfbæran hátt, berjast gegn gróðureyðingu, og stöðva eða tefja landeyðingu og eyðingu líffjölbreytni.
  16. Friður og réttlæti: Stuðla að friðsælum samfélögum án aðgreiningar fyrir sjálfbæra þróun, gefa öllum aðgang að réttlæti og koma á fót skilvirkum, ábyrgum stofnunum án aðgreiningar á öllum stigum.
  17. Samvinna: Styrkja tækifæri til að útfæra og efla alþjóðasamstarf um sjálfbæra þróun.

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Félag Sameinuðu þjóðanna. „Heimsmarkmiðin“. Sótt 5. mars 2021.
  2. Forsætisráðuneytið. „Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun“. Forsætisráðuneytið. Sótt 5. mars 2021.
  3. Kynningarblað Fréttablaðsins (30. október 2020). „Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Leiðarvísir að betra samfélagi“. Torg. bls. 1-2. Sótt 6. mars 2021.
  4. Samband íslenskra sveitarfélaga. „Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna“. Samband íslenskra sveitarfélaga. Sótt 6. mars 2021.
  5. Samband íslenskra sveitarfélaga. „Loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Samstarfsvettvangur sveitarfélaganna um loftslagsmál og heimsmarkmiðin“. Samband íslenskra sveitarfélaga. Sótt 6. mars 2021.
  6. Kynningarblað Fréttablaðsins (30. október 2020). „Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Leiðarvísir að betra samfélagi“. Torg. Sótt 6. mars 2021.