Hayat Tahrir al-Sham

Hayʼat Tahrir al-Sham (HTS; arabíska: هيئة تحرير الشام, umrit. Hayʼat Taḥrīr aš-Šām, ísl. Samtök til frelsunar Botnalanda eða Frelsunarnefnd Botnalanda), yfirleitt stytt í Tahrir al-Sham, eru súnní-íslamísk stjórnmála- og hernaðarsamtök sem berjast í sýrlensku borgarastyrjöldinni. Samtökin voru stofnuð þann 28. janúar 2017 með samruna hreyfinganna Jaysh al-Ahrar, Jabhat Fateh al-Sham (JFS), Ansar al-Din-fylkingarinnar, Jaysh al-Sunna, Liwa al-Haqq, og Nour al-Din al-Zenki-hreyfingarinnar.

Samtök til frelsunar Botnalanda
Hayat Tahrir al-Sham
هيئة تحرير الشام
Stofnun28. janúar 2017; fyrir 7 árum (2017-01-28)
MarkmiðKollvörpun stjórnar Bashars al-Assad og stofnun íslamsks ríkis með sjaríalögum í Sýrlandi
StaðsetningSýrland
ForstöðumaðurAbu Mohammad al-Julani
HugmyndafræðiÍslamismi, salafismi, hagsmunir súnnímúslima, sýrlensk þjóðernishyggja

Tahrir al-Sham voru meðal uppreisnarhópanna sem hröktu Bashar al-Assad forseta frá völdum í desember 2024. Áætlað er að samtökin komi að stofnun nýrrar ríkisstjórnar í Sýrlandi. Tahrir al-Sham eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök af Sameinuðu þjóðunum, Bandaríkjunum, Tyrklandi og fleiri ríkjum. Stjórn samtakanna hafnar þeim skilgreiningum og segist hafa fjarlægst uppruna sinn og barist gegn ítökum al-Kaída og Íslamska ríkisins í Sýrlandi.[1]

Söguágrip

breyta

Tahrir al-Sham rekur uppruna sinn til samtakanna Jabhat al-Nusra, sem voru stofnuð árið 2011 við upphaf sýrlensku borgarastyrjaldarinnar og áttu náin tengsl við hryðjuverkasamtökin al-Kaída. Talið er að Abu Bakr al-Baghdadi, sem síðar varð leiðtogi Íslamska ríkisins, hafi tekið þátt í stofnun Jabhat al-Nusra.[2] Stofnun samtakanna var liður í því að áherslur leiðtoganna voru að færast frá fjölþjóðlegu samstarfi íslamistahreyfinga að landlægri baráttu í Sýrlandi.[1]

Leiðtogi al-Nusra, Abu Mohammad al-Julani, sneri baki við al-Kaída árið 2013 og sagðist vilja berjast gegn ríkisstjórn Bashars al-Assad Sýrlandsforseta án þess að þurfa að lúta stjórn fyrrum samherja sinna.[1] Julani rauf opinberlega tengslin við al-Kaída árið 2016 og leysti upp Jabhat al-Nusra.[3] Ári síðar stofnaði hann formlega samtökin Tahrir al-Sham með samruna við fleiri svipaðar hreyfingar. Samtökin fengu það orð á sig að vera einn árangursríkasti hópurinn sem barðist gegn stjórn Assads í borgarastríðinu.[2]

Eftir að hafa slitið tengsl við al-Kaída hefur HTS lagt höfuðáherslu á að koma Sýrlandi undir íslamska stjórn, fremur en að stofna alþjóðlegt kalífadæmi eins og Íslamska ríkið vill gera. HTS kom upp valdastöðvum sínum í norðvesturhéraðinu Idlib. Þar starfaði hópurinn sem eins konar stjórnsýsla. Stjórn þeirra þar var þó ásökuð um mannréttindabrot.[2] Meðal annars hefur verið greint á því að andstæðingar HTS hafi verið látnir hverfa og að skotið hafi verið á fólk sem mótmælti því að byggðir þeirra væru undanskildar frá opinberri þjónustu. Einnig hefur hópurinn verið sakaður um brot gegn öðrum hópum stjórnarandstæðunga og vegna guðlasts eða hjúskaparbrota. Engu að síður hefur HTS í seinni tíð lofað minnihlutahópum á yfirráðasvæðum sínum meira umburðarlyndi en samtökin boðuðu í upphafi.[1]

HTS barðist lítið gegn stjórn Assads fyrstu árin eftir yfirtöku Idlib en í lok nóvember 2024 hófu þau skyndisókn gegn stjórnarhernum við Aleppó og tóku yfir borgina.[4] Á aðeins um einni viku hafði Tahrir al-Sham tekið yfir margar af stærstu borgir Sýrlands og þann 8. desember féll Damaskus, höfuðborg Sýrlands, í þeirra hendur með hjálp uppreisnarhópa úr suðurhluta landsins. Bashar al-Assad flúði úr landi og stjórn hans bauðst til að færa völd sín í hendur uppreisnarmannanna.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Brynjólfur Þór Guðmundsson (8. desember 2024). „Hverjir eru uppreisnarmennirnir sem hröktu Assad frá völdum í Sýrlandi?“. Sótt 8. desember 2024.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Hver er sýrlenski uppreisnarhópurinn HTS?“. mbl.is. 8. desember 2024. Sótt 8. desember 2024.
  3. „Kljúfa sig frá al-Kaída“. mbl.is. 28. júlí 2016. Sótt 11. desember 2024.
  4. Hugrún Hannesdóttir Diego (4. desember 2024). „Uppreisnarsveitir fikra sig sunnar og safna liðsstyrk“. RÚV. Sótt 6. desember 2024.
  5. Eiður Þór Árnason (8. desember 2024). „Skyndi­sókn batt enda á 24 ára valda­tíð Bashar Assad í Sýr­landi“. Vísir. Sótt 8. desember 2024.