Guðrún Pétursdóttir

íslenskur lífeðlissfræðingur

Guðrún Pétursdóttir (f. 14. desember 1950) er íslenskur lífeðlisfræðingur, dósent í fósturfræði og lífeðlisfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og þverfaglegar rannsóknir við Háskóla Íslands.[1]

Guðrún fæddist í Frakklandi og voru foreldrar hennar hjónin Marta Ólafsdóttir Thors (1918-1998) fulltrúi á tónlistardeild RÚV og Pétur Benediktsson (1906-1969) bankastjóri, sendiherra og alþingismaður. Maki Guðrúnar var Ólafur Hannibalsson (1935-2015) blaðamaður og eiga þau tvær dætur.[2]

Nám breyta

Guðrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1970, BA-prófi í sálarfræði frá Háskóla Íslands árið 1975, MS-prófi í lífeðlisfræði frá Oxfordháskóla árið 1977 og doktorsprófi í taugalíffræði frá Óslóarháskóla árið 1992. Veturinn 1970-1971 stundaði Guðrún tónlistar- og leiklistarnám við Konservatotium für Musik und Dramatische Kunst í Vínarborg.[2]

Starfsferill breyta

Guðrún var kennari og rannsóknarmaður á Rannsóknarstofu HÍ í lífeðlisfræði árið 1977-1982, rannsóknarmaður í taugalíffræði á Lífeðlisfræðideild Óslóarháskóla árið 1982-1987, lektor við hjúkrunarfræðideild HÍ 1987-1988 og dósent í frumulíffræði og fósturfræði frá 1988. Guðrún hefur verið forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða við HÍ frá 1995 (stofnunin hét upphaflega Sjávarútvegsstofnun HÍ).

Guðrún hefur gegnt ýmsum öðrum störfum í gegnum tíðina, t.d. var hún stjórnarformaður Íslensku óperunnar frá 1999-2000, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá 1998-2002 og í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna frá 1996-1997.[2] Hún var formaður stjórnlaganefndar, sem undirbjó endurskoðun stjórnarskrár Íslands 2010-2011 og hefur verið stjórnarformaður Styrktarsjóðs hjartveikra barna, Hollvina Grensásdeildar, og Vinafélags Gljúfrasteins.[1] Guðrún var framarlega í flokki þeirra sem mótmæltu byggingu Ráðhússins í Reykjavík á sínum tíma.

Forsetaframboð breyta

Í byrjun febrúar árið 1996 tilkynnti Guðrún framboð sitt til embættis forseta Íslands í forsetakosningunum í júní sama ár.[3] Guðrún náði fljótt ágætu flugi í skoðanakönnunum og í könnun sem birtist í DV í byrjun mars mæltist hún með mest fylgi þeirra sem nefnd voru.[4] Eftir því sem frambjóðendum fjölgaði þyngdist róðurinn hjá framboði Guðrúnar og svo fór að hún dró framboð sitt til baka þegar aðeins tíu dagar voru til kosninga.

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 Visindavefur.is, „Hvað hefur vísindamaðurinn Guðrún Pétursdóttir rannsakað?“ (skoðað 20. febrúar 2020)
  2. 2,0 2,1 2,2 Pétur Ástvaldsson, Samtíðarmenn A-Í bls. 277-278, (Reykjavík, 2003)
  3. „Guðrún Pétursdóttir í kjöri til forsetaembættis“, Morgunblaðið, 4. febrúar 1996 (skoðað 20. febrúar 2020)
  4. „Langflestir vilja Guðrúnu Pétursdóttur til Bessastaða“, Dagblaðið Vísir, 4. mars 1996 (skoðað 20. febrúar 2020)