Grunnvatn á höfuðborgarsvæðinu

Það ræðst af tegund berggrunns hvar grunnvatn á höfuðborgarsvæðinu er að finna og hvert það streymir. Höfuðborgarsvæðið er á jaðri mikils hrauna- og grágrýtisflæmis. Berggrunnurinn er allur mjög lekur, hraunasvæðin gleypa í sig nær alla úrkomu sem á þau fellur og grágrýtissvæðið er einnig mjög lekt, þó það sé öllu þéttara en hraunið. Mestöll úrkoma sem fellur á höfuðborgarsvæðið rennur því með grunnvatnsstraumum til sjávar.

Flokkun eftir lekt berggrunns

breyta

Flokka má höfuðborgarsvæðið í nokkur vatnafarsleg svæði eftir lekt berggrunnsins:

Suðurfjöllin
Fjallabálkurinn utan af Reykjanesskaga austur í Bláfjöll. Úrkoma og snjóbráð síga þar að mestu leyti niður til grunnvatns en grunnvatnið rennur yfirleitt norður eða norðvestur úr fjöllunum. Vatnið í suðurfjöllunum er yfirleitt kalt þegar það sígur niður og helst þannig á leið sinni sem grunnvatn og þar til það sprettur fram í lindum, eða um 3°C.
Hrauna- og sprungusvæðin
Ná til sjávar í Hraununum og í Straumsvík og liggja svo milli Ofanbyggðaholtanna og suðurfjallanna upp í Svínahraun. Grunnvatnsstreymi á þessu svæði er yfirleitt vestlægt og suðvestlægt þar til Elliðavatnsdældin og Straumsvík sveigja straumana til sín í norðlæga átt. Vatnið kemur upp í lindum við Elliðavatn, Straumsvík og Hraunavík og hefur það hlýnað nokkuð á leið sinni, er um 4°C. Á þessu svæði eru vatnsból Reykjavíkur, en vatnsból Kópavogs eru í Heiðmörk og Hafnarfjarðar í Kaldárbotnum.
Austurfjöllin
Hengill og Henglafjöll. Svæðið leggur hlutfallslega lítið til grunnvatns. Eitthvað vatn rennur þó niður í Elliðaárhraun og austanverða Heiðmörk.
Grágrýtis- og fellasvæðin
Teygja sig frá Hvaleyrarholti og höfðunum sunnan Hafnarfjarðar um byggðirnar og heiðarnar og fellin baki hennar, allt upp á Mosfellsheiði. Lindarvatn er lítið á þessu svæði nema þar sem sprunguskarar skera sig inn á það.
Norðurfjöllin
Esja og Skálafell. Bergið er þétt á þessum svæðum og bratti mikill. Nokkuð þar um smálindir úr skriðum og framhlaupum, einna mest við Mógilsá.

Það má því sjá að mikið grunnvatnsflæði er á svæðinu. Af þekktum grunnvatnsstraumum má nefna svokallaðan Leitarstraum er rennur frá norðanverðum Bláfjöllum og vestanverðum Henglinum í vesturátt til Elliðavatns. Einnig rennur mikið grunnvatn eftir Hjallamisgenginu til suðvesturs í Heiðmörk. Mikið grunnvatn rennur til sjávar í Hraunavík og Straumsvík sunnan Hafnarfjarðar.

Vatnstaka

breyta

Við upphaf byggðar í Reykjavík var aðalvatnsbólið í Aðalstræti. Um aldarmótin 1900 er áætlað að um 34 vatnspóstar og vatnsból hafi verið víðsvegar um Reykjavík. Á þessum tíma var hreinlæti afar ábótavant en árið 1907 samþykkti Alþingi vatnsveitulög þar sem ákveðið var að ráðast í gerð vatnsveitu. Árið 1909 var Vatnsveita Reykjavíkur stofnuð og sama ár var vatni hleypt á lagnir frá Elliðaám og Gvendarbrunnum.

Mikill grunnvatnsstraumur er undir Heiðmörk þar sem gljúpt hraun þekur yfirborðið og regnvatn á greiða leið niður. Meginhluti grunnvatnsstraumsins kemur undan Húsafellsbruna og Bláfjöllum. Vatnstökusvæði í Heiðmörk eru Gvendarbrunnar, Jaðarsvæði, Myllulækjarsvæði og Vatnsendakriki. Þar eru 21 borhola í notkun, 7 í Gvendarbrunnum, 9 á Jaðarsvæði, 3 á Myllulæk og 2 í Vatnsendakrika. Þær eru á bilinu 10-140 metra djúpar.

Árið 1984 var síðasta opna vatnsbólið á Höfuðborgarsvæðinu tekið úr notkun og í dag kemur því allt vatn úr lokuðum borholum, sem tryggir enn frekar öryggi vatnsins gegn mengun.

Vatnsverndarsvæði

breyta

Til að koma í veg fyrir mengun grunnvatns og tryggja þar með íbúum höfuðborgarsvæðisins öruggt neysluvatn er mikilvægt að hafa vel skilgreind vatnsverndarsvæði. Meginvatnsverndarsvæðið teygir sig frá Bláfjöllum í norðvestur að þéttbýlismörkum svæðisins. Í suðvestri nær svæðið að landamörkum við Vatnsleysustrandarhrepp, í suðri að mörkum Grindavíkur en í austurátt að mörkum sveitafélagsins Ölfuss.

Vatnsverndarsvæðum er skipt í 3 flokka eftir þeim kröfum sem gerðar eru til verndunar svæðisins. Brunnsvæði eru afgirt næst núverandi og fyrirhuguðum vatnstökustöðum, en þar er öll óviðkomandi umferð óheimil. Grannsvæði eru svæði þar sem öll starfsemi og umferð er háð leyfi Heilbrigðisnefndar. Óheimilt er að hefja nýjan atvinnurekstur eða byggja ný mannvirki á þessum svæðum. Fjarsvæði skiptast í 2 svæði, A og B. Á fjarsvæði A er krafist meiri verndar en á svæði B, en fjarsvæði A er aðalákomusvæði fyrir þá grunnvatnsstrauma sem liggja að núverandi og framtíðar vatnsbólum. Óheimilt er að flytja úrgang inn á svæðið til geymslu eða förgunar.

Vatnsforðinn á vatnsverndarsvæðinu er áætlaður um 15m3/s. Ef það mat er rétt er nú tæplega 10% forðans nýtt.

Gæði neysluvatns

breyta

Gæði neysluvatns á höfuðborgarsvæðinu eru afar mikil og hafa 99% sýna reynst í góðu lagi. Styrkur umhverfisgerla er mjög lítill og nánast er óþekkt að óæskilegir gerlar mælist í vatninu. Ástæða þess er mikil úrkoma á svæðinu og hratt gegnumstreymi vatnsins í grunnvatnsstraumunum. 120 sýni eru tekin árlega til að fylgjast með gæðum vatnsins.

Heitt vatn

breyta

Nokkur fyrirtæki sjá höfuðborgarsvæðinu fyrir heitu vatni. Vatnið er ýmist heitt grunnvatn sem dælt er uppúr borholum eða þá að jarðvarmi er nýttur til að hita upp kalt vatn. Stærst þessara fyrirtækja er Orkuveita Reykjavíkur. Heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið er unnið að Nesjavöllum, Laugarnesi, Reykjum, Laxeldisstöðinni Mógilsá, Ráðagerði, Krýsuvík og Seljabrekku/Selholti.

Heimildir

breyta
  • Árni Hjartarson (2007). Höfuðborgarjarðfræði. Vötn og vatnasvið á höfuðborgarsvæðinu – ástand og horfur. Málþing haldið í Reykjavík 30.mars 2007.
  • Óðinn Þórarinsson, Árni Snorrason og Gunnar Sigurðsson (2007). Vatnamælingar á vatnasviðum Höfuðborgarsvæðisins. Vötn og vatnasvið á höfuðborgarsvæðinu – ástand og horfur. Málþing haldið í Reykjavík 30.mars 2007.
  • Freysteinn Sigurðsson (2007). Vatnafar á Höfuðborgarsvæðinu. Vötn og vatnasvið á höfuðborgarsvæðinu – ástand og horfur. Málþing haldið í Reykjavík 30.mars 2007.
  • Páll Stefánsson (2007). Verndun vatnsgæða – vatnsverndarflokkun. Vötn og vatnasvið á höfuðborgarsvæðinu – ástand og horfur. Málþing haldið í Reykjavík 30.mars 2007.
  • Steinunn Hauksdóttir (2001). Vinnslueftirlit fyrir hitaveitur og orkufyrirtæki. Orkuþing 2001. Svæðisskipulag Höfuðborgarsvæðisins 2001-2024.