Afrískur gresjufíll (Fræðiheiti: Loxodonta africana africana) er legkökuspendýr sem er ein tveggja tegunda afrískra fíla. Alls eru til þrjár tegundir fíla í heiminum, asíufíllinn, gresjufíllinn og svo skógarfíllinn sem einnig lifir í Afríku. Lengi vel voru gresjufíllinn og skógarfíllinn talin ein og sama tegundin. Gresjufíllinn er stærsta landdýr á jörðinni og geta stærstu einstaklingarnir orðið meira en 6 tonn. Forfaðir fíla nútímans kom fram fyrir um 50-60 milljón árum.

Afrískur gresjufíll
Afrískur gresjufíll
Afrískur gresjufíll
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Fílar (Proboscidea)
Ætt: Fílaætt (Elephantidae)
Ættkvísl: Loxodonta
Tegund:
L. africana

Tvínefni
Loxodonta africana africana
(Blumenbach, 1797)
Útbreiðsla fíla í Afríku, bæði Gresju- og Skógarfíla
Útbreiðsla fíla í Afríku, bæði Gresju- og Skógarfíla
Samheiti

Elephas africanus


Líkamleg einkenni

breyta

Afríski gresjufílinn er stærsta landdýr sem lifir á jörðinni. Hann er auðþekktur á stórum eyrum sínum sem eru svipuð í laginu og heimsálfan Afríka. Stór eyrun gera þeim kleift að kæla sig niður í miklum hita. Fílarnir geta orðið allt að 7,5 metra langir, 3,3 metra háir á herðakamb og vegið meira en 6 tonn. Allir fílar eru með rana sem er framlenging af efri vör og nefi þeirra. Ranann nota þeir til að eiga samskipti hvor við annan og til þess meðhöndla hluti, t.d. mat. Rani gresjufíls getur verið allt að 2,5 metra langur.

 
Beinagrind Gresjufíls

Höggtennur fílanna, bæði kven- og karldýra, vaxa alla ævi þeirra. Fílarnir nota tennurnar t.d. í bardögum og til að grafa eftir mat og vatni. Menn hafa lengi talið höggtennur fíla (fílabein) mjög verðmætar og því hafa margir fílar verið drepnir vegna þess. Það er ólöglegt í dag, þó svo að veiðiþjófnaður vegna fílabeinsins tíðkist enn sums staðar í Afríku. Framfætur fílanna eru lengri en afturfæturnir. Gresjufílar eru með fjórar tær á hvorum framfæti og þrjár á hvorum afturfæti. Fílarnir endurnýja tennur í munni sínum 6 sinnum á ævina, en að því kemur að þeir fara að missa tennurnar, og eru þeir þá oft á milli 40 og 60 ára gamlir.

Félagshegðun

breyta

Gresjufíllinn er hópdýr sem lifir í nánum hópum og er samskiptakerfi þeirra mikið og flókið. Mæðraveldi einkennir félagskerfi þeirra. Í hverri hjörð eru ein eða fleiri gamlar kýr auk kvenkyns afkomenda þeirra í nokkra ættliði. Tarfarnir yfirgefa hópinn við kynþroskaaldur, 8-13 ára. Elsta kýrin í hópnum er yfirleitt leiðtoginn og hefur hún mikil völd. Þegar hún deyr tekur elsta dóttir hennar við. Tarfar mynda eigin hjörð, svokallaða piparsveinahjörð. Þegar ungir tarfar yfirgefa móðurhjörð sína leita þeir uppi aðra tarfa og mynda hjörð. Elsti tarfurinn er leiðtoginn, líkt og í mæðrahjörðunum. Sumir tarfar kjósa að halda sig einir og einnig er vitað um það sem er kallað "fylgisveinar", það eru ungir tarfar sem halda sig með eldri og sterkari törfum. Þegar tarfar verða gamlir halda þeir sig frá öðrum fílum þar til þeir deyja. Hins vegar halda kýrnar sig alltaf við hjörð sína. Oftast eru um tíu fílar í hverri hjörð. Þó er algengt að nokkrar hjarðir sameinist í skamman tíma og þá geta verið í kringum 70 fílar í heildarhjörðinni. Engin samskipti eiga sér stað á milli kynja nema þegar kýrnar eru yxna. Tignarstaða ræður því yfirleitt hvaða tarfur fær að hafa mök við yxna kú. Hins vegar geta orðið mikil slagsmál ef fleiri tarfahópar mæta á svæðið. Auk þess að vera miklar félagsverur virðast gresjufílar vera miklar tilfinningaverur. Fílarnir sýna afkvæmum sínum mikla ást og syrgja látna einstaklinga. Fílar syrgja með því að heimsækja lík einstaklingsins og meðhöndla leifarnar með því að þefa af þeim og taka þær upp.

 

Búsvæði og fjöldi

breyta

Gresjufílarnir lifa aðallega á graslendi og votlendi í austur- og suðurhluta Afríku. Flest eru dýrin í Botsvana, Tansaníuzania, Zimbabwe, Kenýa, Zambíu og Suður- Afríku. Hjarðir fílanna ráfa um sléttur og graslendi Afríku í leit að fæðu og vatni. Nú er talið að gresjufílarnir séu alls í kringum 300.000 og helsta ógn sem steðjar að stofni þeirra eru ólöglegar veiðar og búsvæðaeyðing.

Æxlun og æviferli

breyta

Æxlun fílanna er svipuð og hjá öðrum spendýrum og fóstrið þroskast í legi móður sinnar þar sem það tengist henni með fylgju. Fengitími gresjufílsins er yfirleitt ekki bundinn árstíðum en algengast er þó að kýrnar beri í upphafi regntímans þegar nóg er af safaríkri og næringarríkri fæðu. Rannsóknir sýna að kálfar sem fæðast á þurrkatíma eru lengur að þroskast. Þeir þurfa að vera á sífelldu ferðalagi með hjörðinni í leit að fæðu og vatni og kýrnar hafa því minni tíma til þess að sinna kálfunum. Meðgöngutími fíla er lengri en hjá nokkru öðru spendýri eða næstum 22 mánuðir. Afkvæmi nærast á mjólk úr spenum móður sinnar eftir fæðingu. Mislangur tími líður milli burða hjá kúm, getur verið frá 2,5 ári upp í allt að 9 ár. Undantekning er þó þegar kýr missir kálf, þá verður hún yxna fljótlega aftur. Eftir 6 til 18 mánuði hætta kálfarnir á spena, en geta haldið áfram að fylgja móður sinni í meira en 6 ár. Fílar geta lifað í allt að 70 ár. Kýrnar verða kynþroska 10 til 11 ára en eru frjóastar á aldrinum 25 til 45 ára aldurs. Til þess að tarfar geti keppt um mökun þurfa þeir að ná 20 ára aldri.

 
Móðir og afkvæmi

Fæðunám og melting

breyta

Talið er að afríski fíllinn þurfi að éta u.þ.b. 1/20 af líkamsþyngd sinni á hverjum degi. Þetta þýðir því að hver einstaklingur étur um 100 til 300 kg af gróðri á dag. Einnig þurfa þeir að drekka um 150 til 200 lítra af vatni á dag. Fílar eru með hlutfallslega minni maga en aðrir grasbítar, en hins vegar er meltingin afar hröð. Meltingarvegurinn er um 30 metrar á lengd og fæðan í kringum 11-12 klst. að ganga í gegn. Fílarnir éta börk af trjám og mjúk laufblöð og gras á regntímanum, einnig eru þeir sólgnir í aldin nokkurra trjátegunda. Þeir rífa upp heilu runnana og stanga jafnvel niður tré. Þeir éta þó aðeins nokkur blöð af hverju tré áður en þeir snúa sér að því næsta. Því getur gróðureyðing af þeirra völdum orðið mikil.

Heimildir

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Gobush, K.S.; Edwards, C.T.T.; Balfour, D.; Wittemeyer, G.; Maisels, F. & Taylor, R.D. (2021) [amended version of 2021 assessment]. Loxodonta africana. Rauði listi IUCN yfir tegundir í hættu. 2021: e.T181008073A204401095. doi:10.2305/IUCN.UK.2021-2.RLTS.T181008073A204401095.en. Sótt 15. janúar 2022.
   Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.