Grameen-banki

(Endurbeint frá Grameen Bank)

Grameen-banki er örlánabanki frá Bangladess sem var stofnaður 1983 en rekja má upphaf hans allt aftur til ársins 1976. Bankinn lánar þeim allra fátækustu án þess að fara fram á veðtryggingu og einblínir á að styðja við og styrkja konur með því að lána þeim skammtíma lausafjármögnun eða örlán[1] svo þær geti hafið arðbæra atvinnufjárfestingu. Hann stendur fremstur meðal jafningja sem smálánafyrirtæki á heimsvísu og er nokkurs konar Hrói Höttur fátæka fólksins, í stað þess að ræna þá ríku og gefa fátæku gefur hann þeim fátæku möguleika á því að vinna sig upp sjálf[2]. Í feðraveldinu Bangladess búa rúmlega 162 milljónir manna, þar af helmingur konur. Meirihluti þjóðarinnar býr við fátækt en talið er að 67% landsmanna búi við eða undir fátæktarmörkum. Karlar eru meira í hávegum hafðir takmarka hlutverk kvenna í samfélaginu til muna, sem fyrir vikið skortir oft aðgangur að mannréttindum; mat, menntun, fötum, heilsu og öðrum félagslegum nauðsynjum. Staða karla verður þar af leiðandi ráðandi og njóta þeir töluverðra fríðinda á kostnað kvenna [3].

Bygging Grameen bankans í Dakka, höfuðborg Bangladess

Ríkismál Bangladesh er bengalska og mætti þýða Grameen yfir á íslensku sem „þorp“ en það á að endurspegla innviði bankans - bankinn er fólkið og fólkið er bankinn[4].

Ástæða þess að bankinn er viljugri að láta konur fá örlán er sú að þær eru líklegri en karlar að borga lánið til baka. Karlmenn eru mun líklegri í að eyða upphæðinni í sjálfa sig frekar en að fjárfesta peningnum og með þessa sýn að leiðarljósi þarf það ekki að koma neinum á óvart að af þeim tæpum 8,4 milljón manns sem fengu lán hjá banknum árið 2012 voru konur í miklum meirihluta, eða um 96%. Þeir sem fá smálán þakka traustið sem bankinn sýnir þeim pent og er tíðni þeirra sem borga smálán sín til baka á bilinu 96-100% sem verður að teljast hreint út sagt magnaður árangur[5]. Grameen-bankinn er þannig valdeflandi fyrir konur því hann gefur þeim tækifæri til að vaxa og dafna í jarðvegi feðraveldis þar sem sólin sjaldan skín og regndropar fátíðir.

Muhammad Yunus

breyta
 
Nóbelsverðlaunahafinn Muhammad Yunus stofnandi Grameen-bankans.

Grameen-bankinn er hugarfóstur hagfræðingins og fyrrum prófessorsins Muhammad Yunus sem vann baki brotnu við að gera hugmynd sína, að koma litla manninum til aðstoðar, að veruleika og uppskar Friðarverðlaun Nóbels fyrir vikið ásamt bankanum sjálfum árið 2006. Árið 1976 var Grameen-bankinn einungis verkefni í bænum Jobra þar sem Yunus sat í bílstjórasætinu. Hann hafði óbilandi trú á fátæka manninum sem hann taldi einungis skorta fjármagn til að gera drauma sína að veruleika og stefndi að því að hanna banka sem myndi sníða stakk sinn að þörfum þeirra fátæku. Hann tók af skarið og fyrstu peningarnir sem bankinn lánaði voru af hans eigin reikningi, upphæð sem nam 27 dollurum. Þetta vatt upp á sig og sjö árum seinna, eða árið 1983, varð verkefnið að veruleika og Grameen-bankinn var stofnaður í þeirri mynd sem við þekkjum hann. Í dag er bankinn í eigu þeirra sem hann á að þjónusta — þeirra fátæku. Bankinn er að lang stærstum hluta eign þeirra sem eitt sinn hafa fengið lán, eða um 95%, en einungis 5% er í eigu ríkisins [6]. Það hitnaði allverulega í kolunum árið 2011 þegar ríkisstjórn Bangladess gerði heiðarlega tilraun til að neyða Yunus til að segja sig frá bankanum vegna aldurs en hann var þá orðinn 72 ára gamall. Vildi ríkisstjórnin meina að hann væri orðinn of gamall og mætti ekki sinna formannsstöðunni sem féll ekki í kramið hjá manninum sem kom þessu öllu af stað. [7]

Tilvísanir

breyta
  1. Grameen Bank: What is microcredit http://www.grameen-info.org/index.php?option=com_content&task=view&id=28&Itemid=108
  2. Rahman,R., Qiang, N. „The Synthesis of Grameen Bank Microfinance Approaches in Bangladesh“. Sótt 9 nóvember 2014.
  3. Rouf, K. A. „A feminist interpretation of Grameen Bank Sixteen Decisions campaign“. Sótt 9. nóvember 2014.
  4. Baylis, J., Smith, S., Owens, P (2013). The globalization of world politics: An introduction to international relations. Oxford: Oxford University Press. bls. 268.
  5. Baylis, J., Smith, S., Owens, P (2013). The globalization of world politics: An introduction to international relations. Oxford: Oxford University Press. bls. 268.
  6. Rahman,R., Qiang, N. „The Synthesis of Grameen Bank Microfinance Approaches in Bangladesh“. Sótt 9 nóvember 2014.
  7. Polgreen, L., Bajaj, V. "Microcredit Pioneer Ousted, Head of Bangladeshi Bank Says". Sótt 9 nóvember 14.

Tenglar

breyta