Göngustaðir er einn af innstu bæjunum í Svarfaðardal, 19 km frá Dalvík. Ofan bæjar gnæfir Gimbrarhnjúkur (1181 m) og innan túns fellur Sandá til Svarfaðardalsár. Göngustaðir eru gömul og góð bújörð og nafn bæjarins sést í fornbréfum frá 15. öld. Þá var hann nefndur Köngustaðir en sú nafnmynd hélst fram á 19. öld. Jörðin komst í eigu Urðakirkju á 15. öld en í byrjun 16. aldar sölsaði Gottskálk biskup grimmi hana undir sig eins og margar aðrar jarðir í dalnum. Það var leiðrétt eftir daga hins brögðótta biskups og þá féll hún aftur undir bændakirkjuna á Urðum. [1] Frá Göngustöðum er komin Göngustaðaætt sem lesa má um í bókinni Svarfdælasýsl. [2]

Í dag er rekið ágætt blandað bú á Göngustöðum.

Tilvísanir breyta

  1. Stefán Aðalsteinsson (1976). Svarfdælingar. Iðunn, Reykjavík. bls. 127.
  2. Óskar Þór Halldórsson og Atli Rúnar Halldórsson (2017). Svarfdælasýsl. Svarfdælasýsl forlag sf. Akureyri. bls. 554.