Gísli Hákonarson (lögmaður)
Gísli Hákonarson (1583 – 10. febrúar 1631) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 17. öld. Hann bjó í Laugarnesi, Klofa og loks í Bræðratungu og er yfirleitt kenndur við þann bæ.
Gísli var sonur Hákonar Árnasonar sýslumanns á Hóli í Bolungarvík, Dyrhólum í Mýrdal, Klofa á Landi og síðast á Reyni í Mýrdal, sonar Árna Gíslasonar sýslumanns á Hlíðarenda, og konu Hákonar Þorbjargar Vigfúsdótur Þorsteinssonar sýslumanns á Skútustöðum og í Ási í Kelduhverfi, Finnbogasonar lögmanns.
Gísli fór í Skálholtsskóla og mun hafa numið eitthvað erlendis. Hann var mikilsmetinn höfðingi og þegar Gísli Þórðarson lögmaður sunnan og austan sagði af sér 1613 var Gísli Hákonarson kosinn í embættið. Hann bjó þá í Laugarnesi en flutti skömmu síðar í Klofa á Landi og árið 1617 í Bræðratungu og byggði þar upp. Rígur var á milli hans og nágranna hans, Odds biskups Einarssonar, en þó ekki beinar deilur. Skammt varð á milli þeirra. Oddur dó 28. desember 1630 og við útför hans veiktist Gísli og dó skömmu síðar í Bræðratungu.
Gísli var sagður höfðingi mikill og er honum svo lýst að hann hafi verið „með hæstu mönnum að vexti og karlmenni að burðum, allra manna kurteisastur og prúðastur í framgaungu, lítillátur og glaður í viðmóti, trölltryggur og raungóður vinum sínum“. Sérstaklega er tekið fram að hann hafi aldrei verið drukkinn á þingum og mun það hafa verið sjaldgæft á þeim árum þegar embættismenn áttu í hlut. Hann kom sér vel við danska ráðamenn og gegndi stundum hlutverki höfuðsmanns þegar enginn slíkur var á landinu, en vildi þó halda íslensk lög. Lögbók hans er enn til, skrautleg og með miklum gyllingum.
Kona Gísla var Margrét Jónsdóttir (um 1573 – september 1658), dóttir Jóns Krákssonar prófasts í Görðum á Álftanesi, hálfbróður Guðbrands biskups Þorlákssonar, og Jarþrúðar Þórólfsdóttur konu hans, dótturdóttur Erlendar Þorvarðarsonar lögmanns. Á meðal barna þeirra voru Vigfús sýslumaður á Hlíðarenda, faðir Bauka-Jóns Hólabiskups, Kristín kona Þorláks Skúlasonar biskups og móðir biskupanna Þórðar og Gísla Þorlákssona, Valgerður kona Eggerts Björnssonar ríka á Skarði og Hákon sýslumaður í Bræðratungu, afi Odds lögmanns Sigurðssonar.
Til er mynd af Gísla, gerð af Sigurði Guðmundssyni málara eftir málverki sem var í Hóladómkirkju en er nú glatað.
Heimildir
breyta- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
- „Gísli lögmaður Hákonarson. Sunnanfari, 1. október 1895“.
Fyrirrennari: Gísli Þórðarson |
|
Eftirmaður: Árni Oddsson |