Gísli Einarsson (skólameistari)
Gísli Einarsson (um 1621 – 1688) var skólameistari í Skálholti og fyrstur til að vera skipaður kennari í stærðfræði og stjörnufræði við íslenskan skóla.
Gísli lærði stærðfræði og stjörnufræði við Kaupmannahafnarháskóla 1644-1649. Rétt áður en hann hélt til Íslands að námi loknu var hann fenginn til að reikna út hið árlega stjörnualmanak fyrir Danmörku, verk sem venjulega var aðeins falið kennurum háskólans og þeirra bestu nemendum. Stjörnualmanakið er það eina sem enn er til af verkum Gísla en lýsingar hans á halastjörnu 1652 voru teknar upp í lýsingu Peder Hansen Resens.
Gísli varð heyrari í Skálholti eftir heimkomuna og rektor 1651-1661. Hann fór illa með áfengi og lenti í hneykslismálum vegna ryskinga. Brynjólfur Sveinsson biskup hjálpaði honum á ýmsa lund og hélt verndarhendi yfir honum. 1661 gerðist hann prestur að Helgafelli sem hann hélt til dauðadags.