Fyrsta orrustan um Middlewich

Fyrsta orrustan um Middlewich var orrusta í Ensku borgarastyrjöldinni sem átti sér stað við bæinn Middlewich í Cheshire á Englandi 13. mars 1643. Átökin urðu milli fulltrúa þingsins, William Brereton, og fulltrúa konungs Thomas Aston. Brereton hafði fengið menn til að ganga í þingherinn gegn vilja aðalsmanna, en stuðningsmenn konungs höfðu meirihluta í Cheshire. Cheshire var hernaðarlega mikilvægt bæði vegna vegarins norður eftir landinu og vegna hafnarinnar í Chester þar sem konungur gæti flutt her sinn á Írlandi til Englands. Fulltrúi konungs, Aston, fyrirskipaði upptöku vopna og verja hjá þeim mönnum sem gengið höfðu í þingherinn árið 1642. Í janúar 1643 sendi þingið liðsauka til Cheshire en konungur sendi Aston þangað með herdeildir til að verja sýsluna. Til átaka kom við bæinn Nantwich 28. janúar. Konungssinnar flúðu þá af hólmi og þingherinn náði Nantwich. Vandamál Astons var meðal annars að aðrir foringjar konungssinna í Cheshire vildu ekki gangast undir hans stjórn. Konungsherinn var því margklofinn.

Kirkjan í Middlewich þar sem bardaginn var háður.

Þann 10. mars setti Aston upp búðir í Middlewich. Morguninn 13. mars réðist Brereton á konungsherinn. Orrustan fór fram umhverfis Kirkju heilags Mikaels og allra engla í Middlewich þar sem þingherinn sótti að konungssinnum frá þremur hliðum. Þinghernum barst síðan liðsauki frá Nantwich um morguninn. Aston gekk illa að skipa her sínum sem óttaðist átök við þingherinn. Í bardaganum varð hann viðskila við riddaraliðið. Þingherinn náði kirkjunni og tók þar til fanga marga foringja konungssinna, 400 fótgönguliða, vopn fyrir 500 menn, tvær tunnur af eldspýtum, fjórar tunnur af byssupúðri og tvær fallbyssur.

Aston barðist áfram í konungshernum en var handtekinn þegar hann sneri aftur til Cheshire 1645 og lést árið eftir í fangelsi. Brereton hélt áfram að leggja Cheshire undir sig. Hann náði Chester á sitt vald eftir margra mánaða umsátur í febrúar 1646.

Puzzle stub.svg  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.