Friðrik Dór Jónsson (f. 7. október 1988) er hafnfirskur R&B og popp-söngvari og lagahöfundur. Hann er bróðir Jóns Jónssonar.

Friðrik Dór
Friðrik Dór á Iceland Airwaves 2011
Friðrik Dór á Iceland Airwaves 2011
Upplýsingar
FæddurFriðrik Dór Jónsson
7. október 1988 (1988-10-07) (34 ára)
UppruniHafnarfjörður, Ísland
Störf
 • Söngvari
 • lagahöfundur
Ár virkur2009–núverandi
ÆttingjarJón Jónsson (bróðir)
Stefnur
Hljóðfæri
 • Rödd
 • trommur
 • gítar
Samvinna

Að loknum grunnskóla fór Friðrik Dór í Verzlunarskóla Íslands þar sem hann tók þátt í söngleiknum Welcome to the Jungle. Þar söng Friðrik Dór titillagið auk þess sem hann söng fjölmörg önnur lög, aðeins á fyrsta ári sínu í skólanum. Friðrik Dór tók þátt í fleiri söngleikjum á vegum Verzlunarskólans, þar má nefna söngleikinn Á Tjá og Tundri. Í menntaskóla var Friðrik Dór nokkuð áberandi í félagslífinu, hann tók þátt í fjölmörgum Morfískeppnum fyrir ræðulið skólans en þar var hann frummælandi. Hann tók einnig þátt í ýmsum verkefnum á vegum skólans, svo sem annál og þá var hann meðlimur í 12:00 á síðasta ári sínu í Verslunarskólanum.

Tónlistarferill Breyta

Friðrik Dór hóf feril sinn með hafnfirsku hljómsveitinni Fendrix, sem hann stofnaði með félögum sínum þegar hann var í 8. bekk í grunnskóla. Hljómsveitin tók þátt í Músíktilraunum árið 2003 og komst í útslit, en sigraði ekki. Friðrik Dór spilaði þar á trommur, en hann hefur æft á hljóðfærið frá því hann var smástrákur. Eftir tapið í Músíktilraunum gekk Friðrik Dór úr hljómsveitinni og hóf síðan sólóferil að loknu námi í Verzlunarskólanum.

Hann sló fyrst í gegn haustið 2009 með laginu „Hlið við hlið“. Lagið naut mikilla vinsælda og náði öðru sæti á Íslenska listanum á útvarpsstöðinni FM 957. Lagið var einnig spilað í kvikmyndinni Bjarnfreðarson, sem var frumsýnd um jólin 2009. Keppendur í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Reykjavík komu fram í myndbandi við lagið. Því næst gaf hann út lagið „Á sama stað“ þar sem hann fékk rapparann Erp Eyvindarson í lið með sér. Hann gaf út lagið „Fyrir hana“ vorið 2010 og í kjölfarið gaf hann út myndband við það lag.

Vorið 2010 tók Friðrik Dór þátt í fimmta þætti af grínþættinum Steindinn okkar, sem sýndur var á Stöð 2. Í lokaatriði þáttarins var frumsýnt myndband við lagið „Geðveikt fínn gaur“ þar sem grínistarnir Steindi jr. eða Steinþór H. Steinþórsson og Ásgeir Orri Ásgeirsson komu fram ásamt Friðriki. Í lok myndbandsins ræna þeir og „myrða“ Friðrik Dór. Áður en banaskotið ríður af fara grínistarnir með fyrstu línuna úr laginu „Hlið við hlið“. Lagið naut talsverðra vinsælda á FM 957 og fluttu Steindi, Ásgeir Orri og Friðrik Dór lagið ásamt nokkrum útvarpsmönnum í Eldhúspartýi FM 957 í nóvember 2010.

Friðrik Dór var valinn nýliði ársins á Hlustendaverðlaunum FM 957 sem haldin voru í júní 2010. Í sama mánuði kom út lagið „Keyrum'ettígang“ með röppurunum Henrik Biering og Erpi Eyvindarsyni en Friðrik syngur viðlagið í laginu. Fyrir jólin 2010 gaf Sena út breiðskífuna Allt sem þú átt með Friðrik Dór en á henni eru tólf lög. Á plötunni eru meðal annars lögin „Hlið við hlið“, „Fyrir hana“, „Hún er alveg með'etta“ og lagið „Til í allt“ sem Friðrik flytur ásamt Steinda jr. og Ásgeiri Orra. Í nóvember 2010 náði Friðrik Dór þeim áfanga að lögin Hún er alveg með'etta, Til í allt og Keyrum'ettígang voru öll á topp 20 á síðunni tónlist.is, auk þess sem Allt sem þú átt var í 3. sæti yfir mest seldu plöturnar á síðunni.

Friðrik Dór var gestur Audda og Sveppa í vinsælum sjónvarpsþætti þeirra á Stöð 2 í febrúar 2011. Í þættinum var frumflutt nýtt lag þeirra félaga, Sjomleh, sem þeir syngja saman. Lagið sló í gegn og náði fyrsta sæti á Íslenska listanum á FM 957. Í apríl 2011 söng Friðrik Dór í endurgerð lags Valgeirs Guðjónssonar, Vopn og verjur, fyrir nýja smokkaherferð á vegum Ástráðs, félags læknanema, Félagasamtakanna Smokkur - sjálfsögð skynsemi, og Íslensku auglýsingastofunnar. Unnsteinn Manúel í hljómsveitinni Retro Stefson tók að sér að endurgera lagið fyrir herferðina og var það frumflutt 18. apríl 2011. Herferðin var endurtekning á sambærilegri herferð frá árinu 1986. Hann var einnig í þætti Jóns Ársæls, "Sjálfstætt fólk".

Útgefið efni Breyta

Breiðskífur Breyta

 • 2010: Allt sem þú átt
 • 2012: Vélrænn
 • 2018: Segir ekki neitt
 • 2022: Dætur

Heimildir Breyta

 • „Vísir/Friðrik Dór í rokkið á ný“.
 • „Samúel/Fyrsti íslenski R&B diskurinn“.
 • „Vísir/Friðrik Dór og Erpur keyra þetta í gang“.
 • „Vísir/Friðrik Dór frumsýnir nýtt myndband“.
 • „Vísir/Auddi og Sveppi - Friðrik Dór frumflytur nýtt lag“.
 • „Mbl.is/Smokkaherferð af stað“.
   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.