Francis Galton (16. febrúar 1822 í Birmingham á Englandi17. janúar 1911), breskur mannfræðingur, landkönnuður, uppfinningamaður, tölfræðingur, frumkvöðull í arfbótum og upphafsmaður þeirra vísinda er rannsaka greind. Móðir hans var hálfsystir föður Charles Darwin en faðir hans auðugur bankamaður. Strax í barnæsku sýndi Galton einstaka hæfni, t.d. orðinn læs og skrifandi fyrir þriggja ára aldur og gat vitnað í kviður Hómers sex ára. Þrátt fyrir þetta veganesti út í lífið varð hann uppreisnarseggur á unglingsárum. Að lokum hóf hann nám í læknisfræði. Hluti námsins var að fást við lyfjagerð og hann ákvað að prófa öll lyf á sjálfum sér. Við 18 ára aldurinn urðu kaflaskipti í lífi Galtons því þá ákvað hann að reyna fyrir sér í stærðfræði við Cambridge háskólann í Englandi. Honum gekk ekki eins vel og hann hafði vonast til. En meðan á dvöl hans stóð fékk hann hugmyndina að svokallaðri normalkúrfu. Hún útskýrist þannig að meðalmennskan er algengust á öllum sviðum, t.d. í hæð og greind, en algengið minnkar síðan í báðar áttir frá meðaltali. Það eru t.d. fáir afburðagreindir.

Francis Galton

Galton var sá fyrsti til að hefja rannsóknir á mismuni einstaklinga, með tilliti til greindar. Hann beitti þróunarkenningu Darwins, frænda síns, óspart við rannsóknir sínar. Galton hafði mikla trú á erfðaþáttum og hélt því fram að umhverfi og uppeldi einstaklingsins skipti engu máli, allt erfðist. Ein af rannsóknum Galtons fólst í því að kanna hvort að frægir menn myndu eignast fræga syni. Hann komst að því að 48 af hverjum 100 frægum feðrum eignuðust fræga syni.

Það sem Galton er einna frægastur fyrir í dag eru greindarvísitölu próf sem hann fann upp. Einnig er hann þekktur fyrir að vera frumkvöðull í ýmis konar rannsóknum og má þar nefna tvíburaðaferðina sem er könnun á tvíburum sem eru aldir upp á sitthvorum staðnum. Þannig má sjá hvort vegi meiri, erfðir eða umhverfi.