Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins

(Endurbeint frá Framkvæmdastjórn ESB)

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er ein helsta stofnun Evrópusambandsins (ESB) og telst fara með framkvæmdavald innan þess. Störf framkvæmdastjórnarinnar felast aðallega í því að semja frumvörp og setja nýja löggjöf, fylgja settri stefnu í einstökum málaflokkum, að sjá til þess að markmiðum stofnsamninganna sé framfylgt og sjá um rekstur ESB. Í framkvæmdastjórninni sitja 27 fulltrúar ásamt forsetanum, einn frá hverju aðildarríki sambandsins. Framkvæmdastjórnin gegnir einnig því hlutverki á stundum að vera í fyrirsvari fyrir Evrópusambandið á alþjóðavettvangi, t.d. í samskiptum við önnur ríki og alþjóðastofnanir. Framkvæmdastjórnir eru gjarnan kenndar við forseta framkvæmdastjórnarinnar, núverandi forseti (síðan í desember 2019) er Ursula von der Leyen og leiðir hún Von der Leyen-framkvæmdastjórnina. Fjöldi starfsmanna starfa undir framkvæmdastjórnina, telja þeir um 25.000 manns og eru með aðstöðu í Berlaymontbyggingunnni í Brussel. Þau tungumál sem notuð eru eru enska, franska og þýska.

Merki framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins

Áður hafa 13 framkvæmdastjórnir setið frá setningu Rómarsáttmálans árið 1957. Það eru Hallstein (1958-67), Rey (1967-70), Malfatti (1970-72), Mansholt (1972-73), Ortoli (1973-77), Jenkins (1977-81), Thorn (1981-85), Delors (1985-94), Santer (1995-99), Marín (1999), Prodi (1999-2004), Barroso (2004-2014) og loks Juncker (2014-2019). Framkvæmdastjórn Jacques Delors er talin ein sú farsælasta en á því tímabili voru Einingarlögin sett og Maastrichtsáttmálinn samþykktur eftir mikið þóf. Framkvæmdastjórn Jacques Santer þurfti hins vegar að segja af sér vegna hneykslismáls árið 1999.

Hlutverk

breyta

Sérstök áhersla er á hagsmuni Evrópu sem einnar heildar í starfi framkvæmdastjórnarinnar.[1] Ráðherraráðið endurspeglar ríkisstjórnir aðildarríkjanna og hagsmuni þeirra, öðru fremur, og Evrópuþingið er skipað fulltrúum borgara Evrópu. Framkvæmdastjórnin hefur á hinn bóginn hvað mest sjálfstæði og hvað minnst lýðræðislegt lögmæti. Í 211 grein Rómarsáttmálans segir að hlutverk Framkvæmdastjórnarinnar sé að sjá um stefnumótun, undirbúa lagafrumvörp, undirbúa fjárlög ESB, annast viðskiptasamninga við erlend ríki og veita framkvæmd stofnsamninga og samþykkta eftirfylgni.[2]

Ráðherraráðið felur Framkvæmdastjórninni framkvæmdavaldið á öllum sviðum nema utanríkisstefnu þar sem sameiginleg utanríkis- og öryggisstefna á við sem fellur undir Ráðherraráðið.[2] Framkvæmdastjórnin hefur frumkvæði að lagasetningu á þeim málaflokkum sem falla undir ESB með samningu frumvarpa (nema á sviði utanríkismála). Bæði Ráðherraráðið og Evrópuþingið geta farið fram á að tiltekið frumvarp verði samið en slíkt er þó ekki algengt og í öllu falli getur Framkvæmdastjórnin neitað. Samkvæmt Lissabonsáttmálanum geta almennir borgarar Evrópu beðið um tiltekna lagasetningu með því að safna einni milljón undirskrifta, slík undirskriftasöfnun er þó ekki heldur bindandi fyrir Framkvæmdastjórnina.

Eftir að frumvarp verða að lögum með lagasetningu Ráðherraráðsins sem og Evrópuþingsins fellur það í skaut Framkvæmdastjórnarinnar að sjá til þess að þeim lögum sé framfylgt með eftirliti. Þetta er gert eftir flóknu kerfi nefnda (á ensku comitology).

Framkvæmdastjórnin ber einnig ábyrgð á fjárreiðum Evrópusambandsins í samvinnu við Endurskoðunarréttinn. Á vegum Framkvæmdastjórnarinnar koma ótal skýrslur á hverju ári. Mikið samráð er haft við ríkis- og sveitarstjórnir aðildarríkja auk ýmissa hagsmunahópa og félagasamtaka við samningu lagafrumvarpa.

Uppbygging

breyta

Hver framkvæmdastjóri tekur að sér umsjón með ákveðnu sviði í starfsemi ESB (líkt og ráðherrar í ríkisstjórn). Forseti framkvæmdastjórnarinnar er valinn af Evrópska ráðinu en Evrópuþingið verður að staðfesta það val. Síðan tilnefna aðildarríkin hvert einn fulltrúa í stjórnina í samráði við forsetann. Fjöldi varaforseta er fimm í núverandi framkvæmdastjórn en hann er breytilegur. Þegar stjórnin er fullskipuð og verkaskiptingin innan hennar er komin á hreint verður Evrópuþingið að samþykkja framkvæmdastjórnina í heild sinni. Kjörtímabil framkvæmdastjórnarinnar er fimm ár og henni verður ekki vikið frá nema ⅔ hlutar Evrópuþingsins samþykki tillögu þess efnis, einstökum stjórnarmönnum verður þó eingöngu vikið frá störfum samkvæmt úrskurði Evrópudómstólsins ef þeir hafa gerst sekir um alvarleg afglöp í starfi eða fullnægja ekki lengur skilyrðunum sem þeir ættu að gera.

Framkvæmdastjórnin á að vera óháð ríkisstjórnum aðildarríkjanna í störfum sínum og ekki beygja sig undir þrýsting frá þeim. Hún á að berjast fyrir hagsmunum sambandsins í heild en ekki einstakra aðildarríkja. Eins og fram kom fyrr er töluvert erfitt að víkja framkvæmdastjórninni frá og er það liður í því að tryggja sjálfstæði hennar.

Tilvísanir

breyta

Tengill

breyta