Fons ehf. er íslenskt fjárfestingarfélag í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar. Fyrirtækið sérhæfði sig í fjárfestingum í fyrirtækjum sem það taldi hafa mikla framtíðarmöguleika til vaxtar og hagræðingar.[1] Meðal eigna Fons má nefna Securitas á Íslandi, Plastprent, sænsku ferðaskrifstofuna Ticket og hlut í bresku leikfangakeðjunni Hamleys.[2]

Saga félagsins breyta

Í desember 2006 keypti Fons allan hlut Straums Burðaráss í 365 hf. og átti eftir kaupin 9,23% hlut í 365 hf.[3] Í nóvember 2007 keypti Fons á ný 7,5% hlut í 365 hf. en kaupverðið var rúmlega 600 milljónir kr.[4] Eftir kaupin átti Fons 23,5% hlut í 365 hf.[5]

Í desember 2007 keypti Fons tæplega 6,9% hlut í FL Group fyrir 10 milljarða.[6]

Í ágúst árið 2008 seldi Fons hlut sinn í bresku verslunarkeðjunni Iceland.[7] Að sögn Pálma Haraldssonar ætlaði Fons að einbeita sér að rekstri Northern Travel Holding, sem er annað félag í eigu Fons. Fons eignaðist Northern Travel Holding að fullu í september 2008 eftir að það keypti 34,8% hlut Stoða í Northern Travel Holding.[8]

Í desember 2008 kom í ljós að Fons ehf. var eigandi félagsins Stím ehf., sem áður hét FS37 ehf.[9] Í nóvember 2007 lánaði Glitnir FS37 ehf., sem var stofnað þann 23. október 2007, 19,6 milljarða króna fyrir kaupum á hlutabréfum í Glitni sem bankinn sjálfur seldi. Þann 14. nóvember 2007 keypti FS37 ehf. hlutabréf í Glitni og FL Group fyrir 24,8 milljarða en tveimur dögum síðar breytti FS37 ehf. heiti félagsins í Stím ehf. FL Group var stærsti eigandinn í Glitni og átti tæpan þriðjun í bankanum en Fons var einn af stærstu eigendum FL Group.[10]

Gjaldþrot breyta

Þann 30. apríl 2009 var Fons tekið til gjaldþrotaskipta.[11][12] Kröfur í félagið voru í fyrstu sagðar nema 20 milljörðum króna[13][14] en síðar var greint frá því að kröfur í félagið næmu 40 milljörðum króna.[15] Stærstu kröfuhafarnir voru þrotabú stóru íslensku viðskiptabankanna þriggja, Kaupþings, Landsbanka og Glitnis.[16]

Áður en Fons var lýst gjaldþrota var félagið Astraeus fært frá Fons til annarra félaga í eigu Pálma Haraldssonar.[17] Astraeus er breskt flugfélag sem leigir flugvélar til Iceland Express. Fons hafði einnig átt 92% hlut í Iceland Express en seldi hlutinn til Fengs, sem einnig er í eigu Pálma Haraldssonar, í nóvember 2008, áður en Fons var lýst gjaldþrota.[18] Nokkur umræða skapaðist í íslenskum miðlum um þessar eignafærslur á milli félaga í eigu Pálma Haraldssonar rétt fyrir gjaldþrot Fons en skiptastjóri Fons hefur upplýst að verið sé að skoða hvort hægt sé að rifta samningi þess efnis.[19] Undir lok árs 2005 er Iceland Express var í sölumeðferð hjá Kaupþingi var söluverð þess metið á 3-4 milljarða króna.[20]

Í maí 2009 seldi þrotabú Fons hlut sinn í sænsku ferðaskrifstofunni Ticket Travel Group.[21] Fons átti 29,26% hlut í Ticket en seldi hann til Braganza AS á um 620 milljónir íslenskra króna á þáverandi gengi.

Tilvísanir breyta

  1. „Heimasíða Fons“.
  2. „Fons tekið til gjaldþrotaskipta“ á Vísi.is 30. apríl 2009 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  3. „Fons kaupir hlut Straums Burðaráss í 365 hf.“ á Vísi.is 6. desember 2006 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  4. „Pálmi kaupir 7,5% í 365“ á Vísi.is 2. nóvember 2009 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  5. „Fons með fjórðung í 365“ Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine í Fréttablaðinu 3. nóvember 2007, bls. 13.
  6. „Pálmi Haraldsson í Fons eignast tæp sjö prósent í FL Group: Keypti fyrir tíu milljarða króna“[óvirkur tengill] í Fréttablaðinu 7. desember 2007, bls. 6.
  7. „Fons selur hlutinn í Iceland“ á Mbl.is 15. ágúst 2008 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  8. „Fons eignast Northern Travel að fullu“ á Mbl.is 16. september 2008 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  9. „Fons átti FS37 sem varð Stím“ á Mbl.is 6. desember 2008 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  10. „Fons átti FS37 sem varð Stím“ á Mbl.is 6. desember 2008 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  11. „Fons tekið til gjaldþrotaskipta“ á Vísi.is 30. apríl 2009 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  12. „Fons gjaldþrota“ á Mbl.is 30. apríl 2009 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  13. „Fons tekið til gjaldþrotaskipta“ á Vísi.is, 30. apríl 2009 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  14. „Þrotabú Fons 20 milljarðar“ á Mbl.is 24. júlí 2009 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  15. „Kröfur í þrotabú Fons nema 40 milljörðum“ á Vísi.is 13. ágúst 2009 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  16. „Fons gjaldþrota“ á Mbl.is 30. apríl 2009 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  17. „Astraeus líka fært undan Fons“ á Mbl.is 5. júní 2009 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  18. „Astraeus líka fært undan Fons“ á Mbl.is 5. júní 2009 (Skoðað 28. ágúst 2009).
  19. [http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/09/01/naer_engin_ved_fyrir_krofum_glitnis/
  20. "Pálmi leitar að tækifærum í Svíþjóð" á vb.is 14. nóvember 2005 (Skoðað 1. september 2009).
  21. „Fons selur Ticket“ á Mbl.is 18. maí 2009 (Skoðað 28. ágúst 2009).