Einar Þorgeirsson

Einar Þorgeirsson var landnámsmaður í Öxarfirði í Norður-Þingeyjarsýslu. Landnámabók segir að hann hafi verið sonur Þorgeirs klaufa og Þórdísar dóttur Torf-Einars Orkneyjajarls en hún var alin upp af Rögnvaldi Mærajarli.

Þegar Einar Þorgeirsson var fullvaxinn fór hann til Orkneyja að hitta frændur sína en þeir vildu ekkert við hann kannast. Hann keypti þá skip í félagi við tvo bræður, Vémund og Vestmann. Þeir sigldu svo til Íslands, fóru norður fyrir landið og sigldu fyrir Melrakkasléttu. Þar settu þeir „öxi í Reistargnúp og kölluðu því Öxarfjörð; þeir settu örn upp fyrir vestan og kölluðu þar Arnarþúfu; en í þriðja stað settu þeir kross; þar nefndu þeir Krossás.“ Þannig helguðu þeir sér allan Öxarfjörð en ekkert er sagt um hvernig þeir skiptu landnáminu á milli sín eða hvar þeir bjuggu.

Sonur Einars var Eyjólfur, sem veginn var af Galta Gríssyni í Ási í Kelduhverfi, sonarsyni Ljóts óþvegins landnámsmanns, en dóttir hans var Ljót, móðir Hróa hins skarpa, sem hefndi móðurbróður síns og vó Galta.

HeimildirBreyta

  • „Landnámabók; af snerpu.is“.