Deccan-flæðibasaltið
Deccan-flæðibasaltið (eða Deccan-tröppurnar) er stórt flæðibasaltsvæði sem staðsett er á Deccan-sléttunni við mitt-vestanvert Indland (á milli 17°-24°N, 73°-74°A) og er eitt af stærstu eldvirknisvæðum jarðar. Svæðið er samsett úr fjölda hraunlaga sem eru samanlagt yfir 2000 m þykk og ná yfir 500.000 km2 svæði. Rúmmál hraunanna er um 512.000 km3. Tröppunafnið Í Deccan-tröppurnar (Deccan traps) er komið úr sænsku og vísar til þess að hraunlögin mynda klettabelti sem eru eins og þrep eða tröppur í fjallahlíðum og landslagi svæðisins.
Saga
breytaDeccan-basaltið myndaðist á tímabili mikillar eldvirkni fyrir 60 – 68 milljónum ára í lok Krítartímabilsins. Mesta eldvirknin var fyrir 65 milljónum ára nálægt því svæði þar sem borgin Mumbai er í dag. Ákafasta eldvirknitímabilið hefur hugsanlega varað í tæplega 30 þúsund ár.
Upprunalega svæðið sem hraunlögin þöktu er áætlað hafa verið um 1,5 milljónir km2 eða um helmingur Indlands. Deccan-basaltsvæðið hefur minnkað að umfangi vegna rofs og flekahreyfinga. Núverandi kannað svæði er um 512.000 km2.
Áhrifa eldgosa á loftslag og lífríki
breytaLosun gosgufa út í andrúmsloftið, þá sérstaklega brennisteinsdíoxíðs á meðan á eldgosunum stóð olli loftlagsbreytingum og líklegt að hitastig hafi fallið um 2°C.
Vegna stærðar og umfangs eldvirkninnar á svæðinu töldu vísindamenn að gastegundirnar sem mynduðust í gosunum höfðu haft áhrif á fjöldaútdauðann á mörkum Krítar og Tertíer sem meðal annars þurrkaði út risaeðlur af yfirborði jarðar. Skyndileg kólnun af völdum brennisteinsgastegunda sem losnuðu við eldgosin gæti hafa átt talsverðan þátt í fjöldaútdauðanum. Hins vegar er samstaða um það í vísindasamfélaginu að fjöldaútdauðinn hafi orðið af völdum árekstar loftsteins eða halastjörnu við jörðina og er Chicxulub-gígurinn í Mið-Ameríku talin vera gígurinn sem myndaðist við áreksturinn.
Sambærileg flæðibasaltsvæði og Deccan svæðið eru til víðar um hnöttin, t.d Síberíuflæðibasaltið (Siberian Traps).