Dæli í Skíðadal

Dæli er ysti bær í Skíðadal vestan Skíðadalsár. Upp af bænum rís hið mikla fjall Stóllinn með klettabelti um sig miðjan. Utan við Dæli eru Dælishólar, jökulruðningshólar frá ísaldarlokum og berghlaupshólar tengdir stóru berghlaupi sem gengur þvert fyrir mynnu Skíðadals og nefnist Hvarfið. Dælis er ekki getið í fornum sögum og bæjarnafnið sést ekki í rituðum heimildum fyrr en árið 1505. Vafalaust hefur þó verið búið þar frá fyrstu tíð því þar er gott undir bú og fagurt um að litast. Ásgrímur Jónsson málari gerði allmargar stórar olíumyndir í Skíðadal á efri árum sínum og dvaldi þá í Dæli.