Ching Shih

Kínverskur sjóræningi

Ching Shih (skrifað með hefðbundnum kínverskum táknum: 鄭氏, með einfölduðum táknum: 郑氏) (1775–1844), einnig kölluð Cheng I Sao eða Maddama Ching, var kínverskur sjóræningi sem rændi skip á Kínahafi á fyrri hluta 19. aldar. Ching hafði á sínum snærum um 300 djúnkur og áhöfn um 20.000 til 40.000 sjóræningja, þar á meðal karla, konur og jafnvel börn. Sjóræningjar hennar réðust á skip voldugra ríkja eins og Bretlands, Portúgals og kínverska Tjingveldisins.[1] Ching er gjarnan talin farsælasti sjóræningi allra tíma þar sem hún stjórnaði stærstu sjóræningjaáhöfn sögunnar og var aldrei handsömuð af yfirvöldum.

Mynd af Ching Shih í bardaga úr bókinni History of Pirates of all Nations (1836).

Æviágrip breyta

Lítið er vitað um uppruna Ching Shih. Samkvæmt elstu heimildum um líf hennar var hún kantónsk vændiskona eða hórmangari frá Guangzhou sem fæddist árið 1775 og var þekkt undir nafninu Shih Heang Koo.[2] Líf hennar gerbreyttist þegar hún lenti í haldi sjóræningjans Zheng Yi og giftist honum árið 1801. Á þeim tíma leiddi hann sjóræningjaflota sem barðist ásamt uppreisnarmönnum gegn Tây Sơn-veldinu í Víetnam.[2] Hjónin ættleiddu soninn Cheung Po Tsai og gerðu hann að lögmætum erfingja sínum. Ching Shih átti auk hans tvo syni: Cheng Ying Shih og Cheng Heung Shih.

Á hátindi ferils síns réð Zheng Yi yfir um 7.000 manna áhöfn og 400 skipum sem kallaðist „floti hins rauða fána“. Zheng Yi fórst í fárviðri í Víetnam árið 1807 og Ching Shih hófst handa við að leysa hann af hólmi sem foringi sjóræningjanna.[3]

Ching Shih, sem þá var einnig kölluð Cheng I Sao (bókstaflega „kona Zheng Yi“), var þekkt fyrir kænsku sína. Hún flýtti sér að vinna stuðning Cheung Po Tsai og annarra ættingja eiginmanns síns heitins til þess að tryggja sér yfirráð yfir sjóræningjaflotanum.[4] Hún útnefndi Cheung næstráðanda sinn og giftist honum til að innsigla bandalag þeirra. Hún ræktaði síðan sambönd sín við skipstjórana í flotanum og gerði sjálfa sig ómissandi í augum þeirra.

Leiðtogi flotans breyta

Sem foringi sjóræningjaflotans setti Ching Shih skipverjum sínum strangan lagabálk sem varð að fara eftir.[2][5] Ströngum aga var beitt til að láta skipverjana fylgja eftirfarandi reglum:

  1. Aðeins leiðtogar flotans máttu gefa skipanir og dauðarefsing lá gegn því að óhlýðnast þeim eða gefa skipanir sem komu ekki frá Ching Shih sjálfri.
  2. Ef þorpsbúar hjálpuðu sjóræningjunum reglulega lá einnig dauðarefsing gegn því að ræna þorp þeirra.[2]
  3. Eftir ránsferð varð að safna þýfinu saman, skrá það og síðan færa leiðtogum flotans. Sá sem náði þýfinu fyrst fékk 20% hlut en afgangurinn fór í sjóð alls flotans.
  4. Reiðufé úr þýfinu bar að afhenda undirforingja. Fénu var varið í vopn og birgðir fyrir skip úr flotanum sem hafði ekki gengið eins vel í ránsferðum.[6]

Ching Shih setti einnig strangar reglur um meðferð kvenkyns fanga. Ef meðlimur úr áhöfninni gerðist uppvís um að nauðga fanga var hann líflátinn.[2] Ef áhafnarmeðlimur svaf með fanga með hennar samþykki var hann hálshöggvinn og henni hent í sjóinn með lóð um fæturna.

Floti Ching Shih framdi sjórán víðs vegar á Kínahafi. Flotinn réðst bæði á kaupskip og á hafnarþorp við fljótsbakka.[2] Kínverska Tjingstjórnin gerði margar tilraunir til að ráða niðurlögum sjóræningjaflotans frá janúar 1808 en herskip stjórnvalda báðu ósigur gegn sjóræningjunum í nokkrum sjóorrustum það ár og sjóræningjunum tókst að auka enn við styrk sinn með því að bæta sigruðum skipum þeirra í flotann. Keisaraflotinn var svo illa farinn eftir viðureignina við sjóræningjana að stjórnin varð að kaupa fiskibáta til að fylla í skarðið.

Meiri ógn steðjaði að Ching Shih af völdum annarra sjóræningja. Hún bað ósigur í viðureign gegn sjóræningjanum O-po-tae, sem gekk í kjölfarið til liðs við Tjingveldið í skiptum fyrir náðun. Með hans hjálp gat ríkisstjórnin beitt öllum sínum ráðum til að sigra Ching Shih og hún ákvað loks árið 1810 að þiggja boð um náðun í skiptum fyrir að hætta sjóránum sínum.

Cheung Po Tsai hlaut í kjölfarið þægilega stöðu í keisaraflotanum og Ching Shih sneri aftur til Guangzhou til að stýra vændishúsi. Hún lést þar árið 1844.

Tilvísanir breyta

  1. Lily Xiao Hong Lee, A. D. Stefanowska, Clara Wing-chung Ho - 2003 - 387 pages
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 „Ching Shih, la Terreur des mers du Sud“. Radio Nova. Sótt 7. júní 2019.
  3. Yuan Yung-lun. Ching hai-fen chi (Record of the Pacification of the Pirates).
  4. Lu K'un, Ch'eng, Kwang-tung hai-fang hui-lan (An Examination of Kwangtung's Sea Defense)
  5. Dian Murray (2001). In Pennell, C.R. Bandits at Sea: A Pirates Reader. NYU Press. bls. 260-261. ISBN 978-0-8147-6679-8.
  6. Philip Maughan (1812). Further Statement of the Ladrones on the Coast of China. Lane, Darling.