Bræðratunga er stórbýli og kirkjustaður í Biskupstungum. Bærinn stendur framarlega í tungunni sem verður milli Hvítár og Tungufljóts. Mikil beitilönd og engjar tilheyra Bræðratungu og á jörðin land í Pollengi við Tungufljót og Tunguey í Hvítá, en bæði eru grösugar starengjar. Í Bræðratungu var kirkja helguð Andrési postula í kaþólskum sið. Þar var fyrrum útkirkja frá Torfastöðum en árið 1952 var sóknin lögð undir Skálholt. Núverandi kirkja þar var vígð 1911.

Höfðingjasetur breyta

Eyfröður hinn gamli bjó í Bræðratungu en að sögn Landnámabókar nam hann land milli Tungufljóts og Hvítár, og var þar lengi höfuðból og höfðingjasetur. Þar komu við sögu margir helstu höfðingjar þjóðveldistímabilsins og ýmsir aðrir langt frameftir öldum. Meðal þeirra höfðingja sem þar bjuggu voru Ásgrímur Elliða-Grímsson sem meðal annars kemur fyrir í Njáls sögu. Traðir sem liggja frá gömlu vaði frá Hvítá heim að Bræðratungu heita enn Flosatraðir, þær eiga nafn sitt að rekja til heimsóknar Flosa Þórðarsonar á Svínafelli til Ásgríms. Gissur Þorvaldsson bjó um hríð í Bræðratungu.

Á 16. öld bjó Gísli Hákonarson lögmaður á Bræðratungu, sem var talinn einn vinsælastur veraldlegra höfðingja á Íslandi. Hann var tengdarfaðir Þorláks Skúlasonar biskups í Skálholti. Tengdardóttir hans Helga Magnúsdóttir (kölluð Matrónan í Bræðratungu) bjó lengi í Bræðratungu, sem ekkja eftir Hákon mann sinn. Hún var þekkt höfðingjakona og kemur mikið við sögu Brynjólfs Sveinssonar biskups.

Á 17. öld bjuggu hjónin Einar Þormóðsson og Jóhanna Einarsdóttir í Bræðratungu.

Frá aldamótum 1900 gekk Bræðratunga kaupum og sölum og átti Einar Benediktsson jörðina um tíma. Sven Paulsen eignaðist Bræðratungu ásamt hjáleigum 1915 og átti jörðina til 1936 en seldi hana þá íslenska ríkinu.

Heimildir breyta

* Gísli Sigurðsson, Bræðratunga - Höfuðból og sögustaður, Lesbók Morgunblaðsins - 24. október (24.10.1998)