Botnsdalur (Hvalfirði)
Botnsdalur er stuttur dalur fyrir botni Hvalfjarðar.
Staðhættir
breytaDalurinn er rúmir 4 km að lengd frá mynni í vestri til róta Hvalfells í austri, og um 1 km að breidd á láglendi. Með dalnum norðanverðum rís Botnsheiði, með honum sunnanverðum liggur Múlafjall. Handan Múlafjalls liggur Brynjudalur. Til suðausturs gnæfa Botnssúlur.
Botnsá rennur úr Hvalvatni, einu dýpsta vatni landsins,[1] handan Hvalfells. Í ánni fellur Glymur, hæsti foss landsins, tæpa 200 m niður djúpt gljúfur og þröngt gil, um 1,5 km að lengd. Í árgljúfrinu utanverðu má finna Þvottahelli, en um hann liggur fjölfarin gönguleið upp að Glymi og Hvalvatni. Um ána lágu sýslu- og fjórðungsmörk allt frá fyrstu tíð, en dalurinn tilheyrir nú allur Hvalfjarðarsveit. Botnsá rennur í Botnsvog í Hvalfirði.
Í Botnsdal voru tveir bæir en nú er aðeins einn í byggð, það eru Stóri-Botn (í byggð) innst í dalnum og Litli-Botn (í eyði) um dalinn miðjan. Þessir bæir hétu áður Neðri-Botn og Efri-Botn.
Hvalfjarðarvegur þverar mynni dalsins. Hann tilheyrði Hringveginum fyrir opnun Hvalfjarðarganga árið 1998. Hinn víðkunni Botnsskáli er við þjóðveginn yst í dalnum, en honum var lokað skömmu fyrir opnun Hvalfjarðarganga.
Landnám
breytaÍ Landnámabók segir að Ávangur, sem var írskur að kyni, hafi fyrst byggt í Botni. Þar hafi verið skógur svo stór að hann hafi gert sér hafskip þar af og hlaðið þar sem nú heitir Hlaðhamar.[2]
Maðr hét Ávangr, írskur at kyni. Hann byggði fyrst í Botni.
Þar var þá svá stórr skógr, at hann gerði þar af hafskip ok hlóð þar, sem nú heitir Hlaðhamarr.“
— Landnámabók.
Heimildir
breyta- „Kortasjá Landmælinga Íslands“. Landmælingar Íslands. Sótt 11. maí 2016.
- Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Borgarfjörður og Mýrar. Mál og menning. ISBN 9979-3-0657-2.
- Kristján Jóhannsson (1989). Innsveitir Hvalfjarðar. Víðerni.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Hver eru dýpstu stöðuvötn á Íslandi?“. Vísindavefurinn. Sótt 13. maí 2016.
- ↑ „Landnámabók, 14. kapituli“. sótt af Heimskringla.no.