Á sjötta tímanum að morgni 22. ágúst árið 2022 átti sér stað atvik á Blönduósi sem kom bæjarbúum í mikið uppnám. Atburðarásin fór þannig fram að maður vopnaður afsagaðari haglabyssu, sjö skotum auk veiðihnífs æddi inn í hús hjóna á sextugsaldri sem ráku framleiðslufyrirtæki í bænum. Maðurinn gekk svo rakleiðis til baka út eftir að hann sá að næturgestir voru hjá fólkinu í næsta herbergi. Húsráðandi veitti honum eftirför út úr húsinu og skaut þá árásarmaðurinn húsráðanda í kviðinn með tilheyrandi áverkum og gekk svo rakleiðist aftur inn í húsið og skaut eiginkonu hans til bana í höfuðið.[1]

Sonur húsráðenda hafði dvalist hjá foreldrum sínum þessa nótt auk sambýliskonu og ungbarns. Hann vaknaði við athoft og kom föður sínum til hjálpar en móðir hans lá látin á stofugólfinu. Hann náði byssunni af árásarmanninum og urðu á milli þeirra mikil átök sem enduðu með því að árásarmaðurinn hlaut bana af. Réttarkrufning leiddi í ljós að dánarorsök árásarmannsins væri mikill þrýstingur á háls og brjóst sem leiddi til köfnunar.[1] Um það bil tveimur vikum fyrir árásina höfðu húseigendur í tvígang tilkynnt manninn til lögreglu þar sem hann hafði verið umhverfis hús þeirra með haglabyssu og tekið myndbönd inn um glugga hjónanna. Hann hafði þá verið handtekinn en sleppt stuttu síðar. Til stóð að svipta manninn skotvopnaleyfi eftir þetta en það var þó ennþá í ferli þegar maðurinn lét til skara skríða. Einnig hafði stjórn skotfélagsins Markviss á Blönduósi tilkynnt manninn til lögreglu í nóvember árið áður vegna þess að það taldi andlega heilsu hans ekki nógu góða til að meðhöndla skotvopn. Maðurinn var fyrrum starfsmaður hjónanna í framleiðslufyrirtæki þeirra í bænum og svo virðist sem hann hafi átt óuppgerð mál við þau.[2]

Rannsókn málsins lauk 10. febrúar árið 2023 og kom þá meðal annars í ljós að það hafði tekið lögreglu um 26 mínútur að koma á staðinn. Lögreglan var harðlega gagnrýnd fyrir það en einnig var hún gagnrýnd fyrir skort á upplýsingagjöf á meðan á rannsókn málsins stóð. Vakti það einnig furðu almennings að byssan sem notuð hafði verið í verknaðinn hafði verið skráð á fyrirtæki sem úrskurðað hafði verið gjaldþrota fyrir fimmtán árum síðan. En það fyrirtæki seldi skotvopn og annan veiðibúnað. Maðurinn hafði þó sjálfur átt skotvopn en hann afhenti lögreglu þau þann 12. ágúst árið 2022 eða tíu dögum fyrir atvikið.[1]

Þegar atvik sem þessi koma upp og árásarmaður býður bana af hendi árásarþola þarf að skoða sérstaklega vel hvort vísa megi til 12. greinar almennra hegningarlaga m. 19/1940. Þar segir að verk sem er framið vegna neyðarvarnar sé refsilaust ef það hefur verið framið til að verjast eða afstýra ólögmætri árás. Varnirnar mega þó ekki vera hættulegri en árásin eða það tjón sem orðið hefði. Ella gæta þarf sérstaklega að því að fara ekki út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar en ef maður hefur orðið svo skelfdur eða forviða og gengið of langt í neyðarvörn af þeim ástæðum skal honum ekki refsað.[3]

Í upphafi fengu feðgarnir stöðu sakbornings í þessu máli. Niðurstaða héraðssaksóknara sem tilkynnt var þann 1. mars árið 2023 var þó að gefa ekki út ákæru í þessu máli og var vísað með til 12. greinar almennra hegningarlaga um neyðarvörn. Rannsóknaraðilar málsins töldu feðgana ekki hafa farið út fyrir takmörk til leyfilegrar neyðarvarnar og taldi héraðssaksóknari málið því ólíklegt til sakfellis. Sérstakir hagsmunaaðilar í málinu höfðu kost á að kæra niðurstöðu héraðssaksóknara til ríkissaksóknara og gerðu þeir það 14. apríl árið 2023 en ríkissaksóknari staðfesti ákvörðun héraðssaksóknara[4][5]

Þetta mál hefur rist rúnir í sögu Blönduósar sem algjör harmleikur. Málið sýndi þó hve sterk samúð og samstaða bæjarbúa getur verið á erfiðum tímum. Málið var einnig mikið fordæmi til að vinna að endurbótum í geðheilbrigðismálum og að skoða þurfi hvort löggjöf um meðhöndlun skotvopna sé nægilega hörð. Einnig sýndi það að skoða þurfi hvort ferli um sviptingu skotvopnaleyfa gangi nægilega hratt fyrir sig.

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 „Rann­sókn lög­reglu á Blöndu­ósi lokið: Tók lög­regluna 26 mínútur að mæta á staðinn - Vísir“. visir.is. 2. október 2023. Sótt 30. maí 2023.
  2. „Þetta hefur komið fram um skotárásina á Blönduósi - Vísir“. visir.is. 21. ágúst 2022. Sótt 30. maí 2023.
  3. Jónatan Þórmundsson (2004). Afbrot og refsiábyrgð III. Háskólaútgáfan. Háskóli Íslands. bls. 116.
  4. „Blönduósmálið fellt niður á grundvelli neyðarvarnar - Vísir“. visir.is. 3. janúar 2023. Sótt 30. maí 2023.
  5. „Á­kvörðun um að gefa ekki út kæru vegna dauða á­rásar­mannsins kærð - Vísir“. visir.is. 14. apríl 2023. Sótt 30. maí 2023.