Bjarni Jónsson (rektor)
Bjarni Jónsson (Bjarni Johnsen) (12. ágúst 1809 - 21. september 1868) var rektor við Menntaskólann í Reykjavík, konungskjörinn þingmaður (í nokkra daga) og prófessor að nafnbót. Hann var rektor MR frá 15. júlí árið 1851 og gegndi því embætti til æviloka. Hann varð prófessor að nafnbót árið 1857.
Uppruni og ætt
breytaFaðir Bjarna var Jón skólakennari Jónsson frá Flekkudal í Kjós, sonur Jóns bónda þar, Jónssonar prests á Reynivöllum (f. 1707, d. 1789), en Jón prestur var af ætt Ólafs prests hins ríka í Saurbæ, Kolbeinssonar. Jón skólakennari drukknaði af póstskipinu 1817, undir Svörtuloftum. Móðir Bjarna var Ragnheiður, dóttir Bjarna í Sviðholti, Halldórssonar í Skildinganesi, Bjarnasonar í Skildinganesi, Bergsteinssonar. Eiginkona Bjarna var frá Danmörku og hét Anna Petrea Lund. Hún var dóttur Lunds kaupmánns í Álaborg. Áttu þau eina dóttur, Maríu, sem gekk að eiga son P. C. Knudtzons stórkaupmanns.
Ævi
breytaBjarni var tekinn í Bessastaðaskóla árið 1823 og varð stúdent þaðan árið 1828 með mjög góðum vitnisburði (efstur). Hann fór til Kaupmannahafnarháskóla 1829 og tók þar fyrsta og annað lærdómspróf 1829-1830 með fyrstu einkunn. Bjarni lagði hann stund á gríska og latneska málfræði og lauk hinn 11. júlí 1835 kandídatsprófi (examen philologicum) með 2. einkunn. Hann tók prófið upp aftur 10. desember 1836, en með sama árangri; dró stærðfræði hann niður. Hinn 20. desember 1836 var Bjarni settur kennari við lærða skólann í Álaborg, og fékk veitingu fvrir því embætti 1839. Hinn 12. júlí 1846 varð hann yfirkennari í Horsens og var þar um skeið séttur rektor. Þann 15. júlí 1851 var honum veitt rektorsembættið við MR og gegndi því embætti til æviloka 1868. Hann var talinn mjög vel að sér í grísku, latínu, frönsku og ensku. Hafði hann og dvalið um hríð í Frakklandi og Englandi. Bjarni rektor andaðist í Kaupmannahöfn 21. sept. 1868. Banamein hans var lungnabólga. Eftir Bjarna liggja fá ritverk, aðallega- nokkrar ritgerðir í skólaskýrslum lærða skólans frá rektorsárum hans. Bjarni var konungkjörinn þingmaður 1857, en sat einungis nokkra daga á alþingi, sagði þá af sér þingmennsku.
Umdeildur
breytaBjarni var umdeildur rektor. Að honum látnum urðu að minnsta kosti tvívegis snarpar ritdeilur um það hvort hann hafi verið „hrottalegur", „ferlegur“, „harðstjóri“, „hrossabrestur“, „grettinn og illilegur", og hafi haft ill áhrif á skólapilta“ eða „mildur og föðurlegur“, „hinn blíðasti vinur og mesta tryggðatröll", „ágætur kennari og dugandi skólameistari“, „búinn flestum þeim kostum, er skólamaður þarf að hafa“.
Bjarni hafði fengið aðra einkunn við kandítspróf vegna slakrar stærðfræðikunnáttu. Þegar hann kom fyrst að Menntaskólanum í Reykjavík, gerði hann það kunnugt, að hann ætlaði að vera í tímum til að hlýða á yfirheyrslu kennara, en það var áður óþekkt, og svo var það, að Bjarni rektor hafði verið ónýtur reikningsmaður. Björn Gunnlaugsson sagði piltunum þessa fyrirætlan rektors með þessum orðum: ,Ég trúi að Bjarni rektor ætli að sitja yfir í tímum, en ég kalla það óþarfa hnýsni, þið skuluð samt ekkert vera hræddir, ég þekki hann Bjarna minn.“ Svo kom að því að rektor kom, og Gunnlaugsson tók að reyna piltana, sem svöruðu hiklaust öllu eftir því sem þeir héldu að væri hið rétta, en Gunnlaugsson sagði alltaf: „Já, rétt, aldeilis rétt.“ Þegar yfirheyrslunni var lokið, sagði Bjarni rektor: „No, hér er gleðilegt að koma, hér fá allir ágætlega." [1]