Beaufort-kvarðinn eða vindstigakvarðinn er mælikvarði á vindstyrk þar sem vindhraði er flokkaður í 12 vindstig. Kvarðinn var hannaður árið 1806 af Francis Beaufort, breskum sjóliðsforingja og vindstigin voru skilgreind út frá sjólagi. Upprunalegi kvarðinn miðaðist ekki við vindhraða heldur aðstæður á sjó miðað við seglskútur, allt frá „rétt nægilegt til að stýra“ að „ekkert segl getur staðist“.

Kvarðinn var aðlagaður aðstæðum á landi frá því á 6. áratug 19. aldar og vindstigin bundin við snúninga á vindmæli. Hlutfallið milli vindstiga og snúninga var þó ekki staðlað fyrr en 1923 og mælikvarðanum var breytt lítillega síðar til að hann hentaði veðurfræðingum betur. Í dag eru hvirfilvindar stundum mældir samkvæmt kvarðanum með vindstig 12-16.

Áður var algengast að nota vindstig í veðurspám, en Veðurstofa Íslands gefur nú vindhraða í metrum á sekúndu (m/s).

Vindstig Vindhraði (hnútar) Vindhraði (m/s) Vindhraði (mi/klst) Meðalvindhraði (m/s) Heiti Ölduhæð (m) Sjólag Aðstæður á landi Mynd
0 0 <0,2 0 0,2 Logn 0 Lygnt. Rólegt.
1 1-3 0,3-1,5 1-3 1,1 Andvari 0,1 Gárur. Vindur hreyfir reyk.
2 4-6 1,6-3,3 4-7 2,5 Kul 0,3 Litlar smáöldur. Vindur finnst á húð. Lauf skrjáfa.
3 7-10 3,4-5,4 8-12 4,7 Gola 0,6 Stórar smáöldur. Lauf og smágreinar slást til.
4 11-16 5,5-7,9 13-18 6,7 Stinningsgola 1,0 Litlar öldur. Ryk og laus pappír fýkur til. Litlar greinar hreyfast.
5 17-21 8,0-10,7 19-24 9,7 Kaldi 2,0 Miðlungsstórar, langar öldur. Dálítið löður og úði. Minni tré svigna.
6 22-27 10,8-13,8 25-31 12,2 Stinningskaldi 3,0 Stórar hvítfyssandi öldur og úði. Stórar greinar hreyfast. Erfitt að nota regnhlíf.
7 28-33 13,9-17,1 32-38 15,6 Allhvasst 4,0 Sjór hrannast upp og löðrið myndar rákir. Heil tré hreyfast. Erfitt að ganga móti vindi.
8 34-40 17,2-20,7 39-46 18,9 Hvassviðri 5,5 Nokkuð háar hvítfyssandi öldur og særok. Löðurrákir. Sprek brotna af trjám, Vindurinn tekur í bíla á ferð.
9 41-47 20,8-24,4 47-54 22,5 Stormur 7,0 Háar öldur með þéttu löðri. Ölduhryggir hvolfast. Mikið særok. Minni skemmdir á mannvirkjum.
10 48-55 24,5-28,4 55-63 26,7 Rok 9,0 Mjög háar öldur. Yfirborð sjávar er hvítt og haugasjór. Skyggni minnkar. Tré rifna upp. Töluverðar skemmdir á mannvirkjum.
11 56-63 28,5-32,6 64-72 30,8 Ofsaveður 11,5 Gríðarlega stórar öldur. Almennar skemmdir á mannvirkjum.
12 >63 >32,7 >72 Á ekki við Fárviðri 14+ Risaöldur. Loftið fyllist af löðri og úða. Hafið er alveg hvítt. Mjög lítið skyggni Miklar almennar skemmdir á mannvirkjum.

Tenglar

breyta