Bókfræði er fræðigrein sem fjallar um bækur sem safngripi eða menningarsögulegt fyrirbrigði.

Á erlendum málum er notað orðið bibliographia, sem er úr grísku (βιβλιογραφία), sem merkir eiginlega bókaskrif eða bókagerð, og er dregið af bókagerð eins og hún var í fornöld, þegar bækur voru skrifaðar. Einnig er til orðið bibliologia = bókfræði.

Bókfræði snýst yfirleitt ekki mikið um efni eða innihald bóka, heldur um það hvernig þær eru hannaðar, prentaðar, bundnar inn, hvernig þeim er dreift og safnað. Bókfræðin tengist þannig prentlist og varðveislu bókanna, hversu fágætar þær eru eða vel varðveittar, hvert var hlutverk þeirra í samfélaginu o.s.frv.

Önnur grein bókfræði er samantekt bókaskráa um ákveðin efni. Þar kemur margt til greina, til dæmis:

  • Bækur ákveðins höfundar og/eða rit um hann.
  • Bækur prentaðar á ákveðnum stað, svo sem Hólaprent, Hrappseyjarprent, Eskifjarðarprent, Eyrarbakkaprent o.s.frv.
  • Bækur prentaðar á ákveðnu árabili, svo sem vögguprent, eða öll íslensk rit frá ákveðnu tímabili, til dæmis skrá um 17. aldar bækur íslenskar.
  • Rit um ákveðið efni, svo sem þjóðsögur, Íslendingasögur, fornaldarsögur, ferðabækur um Ísland, rit um Bjólfskviðu eða um Bayeux-refilinn.

Þessar bókaskrár geta leitast við að vera tæmandi, eða bundnar við valin rit, þar sem einungis eru tilgreind mikilvægustu ritin. Stundum er bætt við stuttri umsögn, þar sem reynt er að meta hversu gagnleg ritin eru.

Bókfræðin getur verið lýsandi, söguleg eða textafræðileg, eftir því hvernig fjallað er um efnið.

Skrár opinberra bókasafna eru frábrugðnar að því leyti að þar eru tilgreind öll rit í viðkomandi safni.

Tengt efni breyta