Þó að Bók Orms Snorrasonar sé oft kölluð Ormsbók, má ekki rugla henni saman við Ormsbók Snorra-Eddu, AM 242 fol.

Ormsbók – (eða Bók Orms Snorrasonar) – var stórt íslenskt skinnhandrit frá árabilinu 1360–1400, sem á 17. öld var í Svíþjóð og notað af fræðimönnum þar. Handritið hlaut eflaust þetta nafn af því að Ormur Snorrason lögmaður skrifaði nafnið sitt í það og hefur líklega verið fyrsti eigandi þess. Ormsbók er talin hafa eyðilagst 7. maí 1697, þegar konungshöllin í Stokkhólmi brann.

Saga handritsins breyta

Árið 1602 var Ormsbók komin til Svíþjóðar, en þann 23. júní það ár fékk sænski fræðimaðurinn Johannes Bureus bókina að gjöf. Árið 1651 gaf Bureus sænsku krúnunni bókina og var hún afhent Ríkisskjalasafninu til varðveislu. Um og eftir miðja 17. öld notuðu nokkrir fræðimenn, t.d. Georg Stiernhielm og Olof Verelius, bókina við orðabókarvinnu, og eru orðasöfn þeirra mikilvæg heimild um efni handritsins, því að þar er oft vísað í blaðsíðu og línu. Eftir að Olof Verelius dó, 1682, tók Sænska fornfræðaráðið (Antikvitetskollegiet) við handritinu og lét á árunum 1690–1691 skrifa megnið af því upp, og var það Íslendingurinn Jón Vigfússon sem vann það verk. Seinast er getið um Ormsbók í eignaskrá Fornfræðaráðsins 1693, og er óvíst hvað varð um bókina. Flestir telja að hún hafi eyðilagst 7. maí 1697, þegar konungshöllin í Stokkhólmi brann, en einnig er hugsanlegt að hún hafi brunnið 16. maí 1702, í Uppsalabrunanum mikla, því að bókin var oft í láni í Uppsölum.

Útlit handritsins breyta

Ormsbók var skinnhandrit í stóru broti (folio.) eins og Skarðsbækurnar tvær, og tveggja dálka eins og þær. Hins vegar virðist skriftin hafa verið smærri, því að 49 línur voru í dálki á móti 38 í Skarðsbók postulasagna. Í handritinu voru á bilinu 90–100 blöð (180–200 síður), en eitthvað af blöðum vantaði, t.d. í Mírmanns sögu og einnig aftast. Greinilegt er að sænsku fræðimönnunum þótti mikið til handritsins koma og er líklegt að það hafi borið með sér eitthvað af þeim höfðingsbrag sem einkennir Skarðsbækurnar tvær, sem Ormur Snorrason lét rita.

Efni Ormsbókar breyta

Í handritinu voru eftirtaldar riddarasögur:

  1. Trójumanna saga — Uppskrift í Papp fol. nr. 58.
  2. Breta sögur — Uppskrift í Papp fol. nr. 58.
  3. Mágus saga — Uppskrift í Papp fol. nr. 58.
  4. Laes þáttur — Uppskrift í Papp fol. nr. 58.
  5. Geirarðs þáttur og Vilhjálms Geirarðssonar — Uppskrift í Papp fol. nr. 58.
  6. Flóvents saga — Uppskrift í Papp fol. nr. 47.
  7. Bærings saga — Uppskrift í Papp fol. nr. 47.
  8. Rémundar saga — Uppskrift í Papp fol. nr. 47.
  9. Ereks saga Artuskappa — Uppskrift í Papp fol. nr. 46.
  10. Bevers saga — Uppskrift í Papp fol. nr. 46.
  11. Ívens saga Artuskappa — Uppskrift í Papp fol. nr. 46.
  12. Mírmanns saga — Óheil, aðeins niðurlag sögunnar. Uppskrift í Papp fol. nr. 46.
  13. Partalopa saga — Uppskrift í Papp fol. nr. 46.
  14. Disciplina clericalis (eða „Enoks saga“) — Uppskrift í Papp fol. nr. 66.
  15. Parcevals saga — E.t.v. óheil. Engin uppskrift til.


Heimildir breyta