Bærinn undir sandinum
Bærinn undir sandinum (sem þekktari er meðal fornleifafræðinga undir danska nafninu Gården under Sandet - GUS) er eitt merkasta uppgraftrarsvæði og mesti fornleifafundur á Grænlandi. Svæðið er á sléttu sem liggur hátt fáeina kílómetra frá jaðri skriðjökulsins innst í Ameralikfirðinum, sem norrænir Grænlendingar nefndu Lýsufjörð í Vestribyggð. Árið 1990 fundu tveir hreindýraveiðimenn allmikla tilhöggna timburstokka sem stungust þar út úr árbakka. Það leiddi til mikillar starfsemi fornleifafræðinga næstu árin og var grafið þar á hverju sumri á árunum 1991 til 1996. Kom í ljós að timburstokkarnir höfðu verið uppistöður í húsabyggingu af norrænni gerð. Höfðu húsin horfið undir margra metra þykkt lag af sandi og var nafnið dregið af því.
Uppgröfturinn sýndi fram á að þar hafði verið búið frá því um miðja elleftu öld og langt fram á þá fjórtándu. Elsta húsið hafði verið langhús sem snemma hafði brunnið. Síðan tók við húsabygging með stöðugum viðbótum og endurbyggingum þar til bærinn var yfirgefinn. Fljótlega eftir það fylltist hann af sandi sem barst fram í jökulhlaupi.
Þann tíma sem bærinn var í byggð var hann endurbyggður að minnsta kosti átta sinnum, stækkaður og minnkaður, vistarverum bætt við eða þær teknar burt. Höfðu verið í bænum samanlagt 63 herbergi og aðrar vistarverur á þessu tímaskeiði. Byggingarefnið var torf og grjót og auk þess timbur. Hægt var að sjá á maðkaholum að megnið af timbrinu hafði verið rekaviður. Voru íveruhús íbúa, skemmur, vinnustofur og gripahús sambyggð og húsagerðin því öll áþekk torfhúsum á Íslandi.
Húsdýr voru allmörg á bænum en gripahúsin voru af ýmsum stærðum á búsetutímanum og þau stærstu sennilega elst. Þar voru kindur, geitur, kýr, hestar og hundar. Beinafundir sýna hins vegar að megnið af kjötmetinu kom af veiðidýrum, selum og hreindýrum en húsdýr voru höfð til mjalta og ullar. Stórar trétunnur sýndu greinilega að gerðar voru ýmsar tegundir af sýrðum mjólkurafurðum. Húsamýs voru fjölmargar og að auki mátti finna leifar af höfuðlús og sníkjudýrum sem einkum leggjast á skepnur, enda fundust margar greiður og lúsakambar.
Ullarnýting var mikilvæg og mátti sjá það um bæinn allan. Ýmsar gerðir af spunasnældum, halasnældur, snældusnúðar og tvinningarsnældur og vaðmálsbútar fundust hér og þar. Þar að auki fannst heil vefstofa með leifum af uppréttum vefstól 140 cm breiðum og yfir 90 kljásteinar.
Íbúar virðast hafa verið trúræknir, víða má sjá krossmörk rist í tré og einnig nokkra minni krossa. Rúnakunnátta virðist einnig hafa verið nokkur á öllum ábúðartímanum, má sjá rúnaristur á mörgum áhöldum og öðrum hlutum. Þar á meðal má sjá að á bænum hefur búið einn Bárður, tveir með nafnið Þór og ein Björk. Talsvert hefur fundist af leikföngum, sérstaklega útskornir fuglar og dýr. Einnig haganlega útskornar hirslur og fjalir og nokkrar teikningar ristar á fjalir. Sú merkilegasta er af beisluðu hreindýri sem þykir benda til þess að íbúar hafi tamið hreindýr.
Uppgröfturinn á Bænum undir sandinum hefur gefið einstaka innsýn í líf norrænna manna á Grænlandi á miðöldum og sýnt að það var í flestum atriðum nauðalíkt lífi annarra norrænna manna við strendur Norður-Atlantshafs.
Heimildir
breyta- Tidsskriftet Grønland 2001. Nr. 7. Berglund, Joel. Omkring dagliglivet på Gården under Sandet.
- Grønlands forhistorie, red. Hans Christian Gulløv, Gyldendal 2005, ISBN 87-02-01724-5
- Á hjara veraldar, Guðmundur J. Guðmundsson, Sögufélagið 2005, ISBN 9979-9636-8-9