Kapítalismi

(Endurbeint frá Auðvaldsskipulag)

Kapítalismi eða auðvaldsskipulag er hagkerfi þar sem framleiðslutæki eru almennt í einkaeign og vinnandi fólk fær laun fyrir að selja vinnuafl sitt og vinna við þau. Verð á vörum og þjónustu, sparnaður, laun, fjárfestingar og framleiðsla ákvarðast oftast af markaðslögmálum. Þeir sem telja kapítalisma vera æskilegt hagkerfi eru oft kallaðir auðvaldssinnar eða auðhyggjumenn. Stundum eru þeir kallaðir kapítalistar, þótt það orð eigi strangt til tekið við fólk sem lifir á arðinum af eignum sínum, atvinnutækjum, fasteignum eða fjármagni.

Kauphöllin í New York árið 1963.

Sumir fræðimenn telja að rétt sé að nefna mörg hagkerfi sem kenna sig við kapítalisma, t.d. hin norrænu velferðarríki, blönduð hagkerfi vegna þess hversu stórt hlutverk ríkið leikur í efnahagnum og eignarhald þess sé annars eðlis en einkaeignarhald. Aðrir álíta að í þjóðfélagi þar sem hagkerfið er á annað borð kapítalískt, sé ríkiseign eða ríkisrekstur ekki annars eðlis í sjálfu sér, heldur önnur útfærsla á kapítalískum rekstri.

Saga kapítalismans breyta

Kapítalismi þróaðist upp úr viðskiptum kaupmanna og iðnaðarmanna í Vestur- og Mið-Evrópu á miðöldum, við það að efnaðir kaupmenn fóru að sniðganga iðngildi í borgum og fá í staðinn sveitafólk til að vinna vörur með t.d. vefnaði og spuna. Kaupmennirnir lögðu til verkfærin og hráefnin og sveitafólkið fékk peninga, sem það sá annars sjaldan, í skiptum fyrir vinnuafl sem var ódýrara en vinnuafl iðnaðarmannanna. Þessir framleiðsluhættir grófu undan iðngildunum, og með tímanum fóru efnamennirnir að safna verkfærum og hráefnum saman á einum stað, þangað sem verkamennirnir svo komu til að vinna við þau. Þannig náðist meiri hagkvæmni í framleiðslunni og stórir vinnustaðir urðu til. Mennirnir sem unnu á þessum verkstæðum voru aðfluttir sveitamenn, sem sóttu í atvinnu í borgunum. Brottflutningur þeirra frá sveitunum olli spennu í lénskerfinu, og gróf undan bændaánauð og kvaðavinnu sem það byggðist á. Þannig hrörnuðu efnahagslegar undirstöður lénskerfisins, og valdastaða aðalsins um leið, samhliða því sem ný stétt kapítalista, borgarastéttin, varð til og styrktist smám saman í sessi.

Iðnaðarkapítalismi breyta

Með iðnbyltingunni á 18. öld og fram á þá 19., urðu vatnaskil í sögu kapítalismans. Gufuknúnar vélar: spunavélar, vefstólar, vatnsdælur, myllur, eimreiðar, valsar, físibelgir, o.fl., juku framleiðni verkamanna til muna. Þessi nýja tækni gerði það kleift að hanna betri framleiðslutæki en áður höfðu þekkst. Efnaðir iðjuhöldar gátu frekar fjárfest í tækninýjungum, og þannig stuðlaði kapítalisminn að frekari þróun framleiðslutækja, og gerir enn.

Fjármálakapítalismi breyta

Við fjárfestingar sínar nutu kapítalistar góðs af bankakerfinu, sem var að taka á sig mynd um svipað leyti og iðnaðarkapítalisminn, en þar gátu þeir fengið fjármagn lánað til að koma sér upp framleiðslutækjum. Bankakerfið þróaðist yfir í að verða sjálfstæð grein af kapítalismanum, fjármálaauðvald (e. finance capital). Sérgrein þess er að taka hærri vexti af útlánum sem það veitir heldur en það gefur af innlánum sem það tekur við. Í bankakerfinu og á fjármálamörkuðum er meðal annars verslað með gjaldmiðla, verðbréf, afleiður og önnur flókin fjármálatæki, sem flest grundvallast á væntingar um framtíðargróða af fjárfestingum.

Einkenni og tilbrigði við þau breyta

Kapítalískt hagkerfi hefur nokkur sterk einkenni: Einkaeignarhald á framleiðslutækjum og auðlindum; markaðshagkerfi; arðrán; samþjöppun eigna og kreppu.

Einkaeign breyta

Einkaeign er langalgengasta form eignarhalds í kapítalisma. Þá á kapítalistinn framleiðslutæki og hráefni og ræður fólk til þess að vinna við framleiðslutækin og framleiða verðmæti úr hráefnum með vinnu sinni. Einkaeignin er gjarnan í formi fyrirtækja sem geta verið í eigu margra kapítalista. Tilbrigði við einkaeign geta m.a. verið ríkiskapítalismi, þar sem ríkið rekur fyrirtæki á sama hátt og einkaaðilar, eða samvinnurekstur, þar sem hópur fólks rekur fyrirtæki í sameiningu og vinnur við það sjálft, en hefur samskipti við önnur fyrirtæki á markaðsgrundvelli.

Segja má að einkaeignin nái jafnframt til launafólksins. Öfugt við eldra hagskipulag býr það hvorki við beint þrælahald, bændaánauð, vistarbandátthagafjötra, og á sig því sjálft. Á þessu eru til undantekningar, til dæmis þrælahald í Suðurríkjum Bandaríkjanna á öndverðri 19. öld og þrælkunarbúðir í Þriðja ríkinu.

Markaður breyta

Algengasta fyrirkomulag kapítalista til þess að skiptast á verðmætum — hráefnum, tækjum, unnum vörum eða vinnuafli — er að gera það á markaði. Á markaði reynir hver og einn að fá eins mikið og hann getur í skiptum fyrir eins lítið og hann getur, og þar gilda lögmál framboðs og eftirspurnar. Markaðsfyrirkomulag er þó ekki algilt; til dæmis þekktist hjá fasistum í Evrópu 20. aldar að grípa til kapítalísks hálf-ríkisrekins áætlunarbúskapar með korporatískum aðferðum.[heimild vantar]

Hagnaður breyta

Í kapítalísku hagkerfi lifa flestir á því að selja kapítalistum vinnu sína í formi tíma, erfiðis, orku og hugvits, en þiggja í staðinn laun fyrir. Kapítalistinn sækist eftir að fá meira í sinn hlut en hann lætur af hendi, þ.e. hagnað (arð) og því heldur hann eftir hluta af verðmætunum sem launamaðurinn býr til með vinnu sinni. Kapítalisti réttlætir slíkt fyrirkomulag með vísan til þess að hann á eða ræður yfir framleiðslutækjum og ber því fjárhagslega ábyrgð á þeim og tekur áhættu með því að reka þau. Í marxískum fræðum er talað um arðrán og að launafólk sé arðrænt þegar það gangi að þessum kostum, enda sé því nauðugur einn kostur í kapítalísku samfélagi.

Samþjöppun eigna breyta

Innan kapítalískra framleiðsluhátta gætir sterkrar tilhneigingar til þess að eignir safnist á fáar hendur. Annars vegar veldur því arðránið, sem er fjallað um að ofan, að menn græða peninga á því að eiga framleiðslutæki og ráða sér launafólk, og gróðanum geta þeir varið í ný framleiðslutæki eða önnur verðmæti. Hins vegar keppa kapítalistar hverjir við aðra í ódýrri framleiðslu: Hagkvæmari framleiðsluhættir keppa þá óhagkvæmari út af markaðnum með því að geta boðið lægra verð fyrir vörur og þjónustu. Þetta nefnast hlutfallsyfirburðir, eiginleikar sem breski hagfræðingurinn David Ricardo bar kennsl á í áhrifamikilli bók sem kom út 1817. Þegar tvö fyrirtæki keppa á sama markaði og annað nær forskoti sem hitt vinnur ekki upp, þá verður það gjarnan gjaldþrota sem verr gengur, eða þá að það sem betur gengur kaupir það. Í báðum tilfellum stækkar það fyrirtæki sem er rekið á hagkvæmari hátt markaðshlutdeild sína og eigendurnir hagnast.

Kreppa breyta

Kapítalísk hagkerfi ganga reglubundið í gegn um kreppur. Þær eru af ýmsu tagi, en meðal þeirra helstu eru fjármálakreppa og offramleiðslukreppa. Fjármálakreppur verða þegar hagnaður af fjárfestingum og verðbréfaviðskiptum minnkar, og ávöxtunartækifærum fækkar. Þá halda fjárfestar að sér höndum, eftirspurn eftir eignum minnkar vegna minnkandi gróðavonar, verðið fellur og fleiri fjárfestar draga fé sitt út af markaðnum. Offramleiðslukreppur verða þannig að framleiðslan mettar markaðinn og framboðið fer fram úr eftirspurninni. Til þess að reyna að halda sínum hlut óskertum reynir hvert fyrirtæki að framleiða sig út úr vandanum eða hagræða hjá sér til að bæta stöðu sína. Hagræðingin getur falist í einföldum uppsögnum eða fjárfestingu í betri framleiðslutækjum, sem minnka þörfina fyrir vinnuafl. Eftir því sem fleiri missa vinnuna, minnkar kaupmáttur neytenda til að kaupa vörur og þar með minnkar eftirspurnin, rekstur fyrirtækjanna verður erfiðari og sum verða gjaldþrota. Í hagkerfi þar sem hver er öðrum háður veldur þetta keðjuverkun sem leiðir til almennrar kreppu.

Gagnrýni á kapítalisma breyta

 

Margir hafa orðið til þess að gagnrýna kapítalisma. Þeirra frægastur er líklega Karl Marx, sem skilgreindi og greindi hann í grundvallarriti sínu Auðmagninu, og fleiri ritum. Auk einfaldrar greiningar, rakti hann marga þá meinbugi sem hann sá á hagkerfi kapítalismans og spáði því að það yrði á endanum sjálfu sér verst, hvað sem réttlæti og ranglæti liði. Hann áleit að innbyggðar mótsetningar mundu á endanum knésetja kerfið og að samkvæmt lögmálum sögunnar hlyti vinnandi fólk (öreigastéttin) að taka völdin í sínar hendur. Þrátt fyrir margar tilraunir hefur þetta hvergi heppnast fram til þessa.

Aðrir hafa einkum gagnrýnt kapítalismann fyrir ranglæti, misrétti og rányrkju. Sumir telja að hægt sé að setja lög og reglugerðir sem haldi óæskilegum hliðum kapítalismans í skefjum. Aðrir telja að lög og reglugerðir haldi ekki slæmu hliðunum heldur þeim góðu í skefjum. Þá eru þeir til sem telja að ekkert dugi annað en allsherjar afnám kapítalismans, og loks þeir sem telja að hægt sé að láta kraftinn í hagkerfi kapítalismans „draga áfram“ velferðarkerfi og aðra samneyslu og vera þannig öllu samfélaginu til blessunar.

Breski hagfræðingurinn John Maynard Keynes sagði að kapítalismi væri „sú ótrúlega trú að ótrúlegustu menn myndu gera ótrúlegustu hluti á stórkostlega betri hátt öllum til góða.“[heimild vantar]

Tengt efni breyta