Atlastaðir (Svarfaðardal)

Atlastaðir er næstinnsti bær í Svarfaðardal, 21 km frá Dalvík og er í um 220 m hæð yfir sjó. Upp af bænum er fjallið Skjöldur sem er 1027 m hátt, bratt og rismikið. Inn frá Atlastöðum rís hið formfagra Hnjótafjall (1130 m) fyrir botni Svarfaðardals. Á fyrri öldum voru Atlastaðir í þjóðbraut. Þaðan liggur leiðin yfir Heljardalsheiði. Skallárdalur gengur til vesturs inn frá Atlastöðum og tilheyrir jörðinni. Um hann liggur forn fjallvegur, Unadalsjökull til Skagafjarðar og annar fjallvegur, Hvarfdalsskarð, í Fljót. Skallá fellur um dalinn og sameinast Svarfaðardalsá hjá Atlastöðum.

Ekki er vitað hvenær búskapur hófst á Atlastöðum en það mun hafa verið snemma á öldum. Jörðin þótti góð til búskapar áður fyrr sakir góðra slægjulanda og framúrskarandi beitilands á Skallárdal og Hnjótum, sem tilheyra jörðinni. Á nútímavísu verður jörðin þó að teljast fremur harðbýl enda liggur hún hátt yfir sjó þar sem vorar seinna en í lágsveitum. Hefðbundinn búskapur lagðist þar af nálægt aldamótum 2000. Síðasti bóndi á Atlastöðum var Lena Gunnlaugsdóttir og Jóhann Friðrik Sigurbjörnsson. Um skeið voru eigendur Atlastaða hjónin sr. Guðrún Edda Gunnarsdóttir og Einar Sigurbjörnsson prófessor. Árið 2019 keypti ferðaþjónustufyrirtækið Fljótabakki jörðina með gögnum og gæðum.