Bollagötumálið

(Endurbeint frá Arfsmálið)

Bollagötumálið var deila með málaferlum, á árunum 1983-1984. Deilan snerist um íbúð á Bollagötu, arf eftir látinn mann, sem málið dregur nafn sitt af.

Á Þorláksmessu árið 1982 lést fullorðin ekkja í Reykjavík. Í dánarbúinu fannst erfðaskrá mannsins hennar, Sigurjóns Jónssonar iðnverkamanns, rituð 1961. Þau höfðu kynnst og hafið hjúskap 1962 en hann látist 1964. Hún sat svo í óskiptu búi þangað til hún dó sjálf. Í erfðaskránni ánafnaði maðurinn Sósíalistaflokknum íbúð sína á Bollagötu 12 í Reykjavík, með því skilyrði að þar yrði sett upp menningar- og fræðslusetur um marx-lenínisma. Ef flokkurinn væri ekki lengur til þegar búinu yrði skipt (sem var raunin), þá skyldi íbúðin renna til þeirrar stjórnmálahreyfingar sem væri lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Ef slík hreyfing fyndist ekki skyldi nefnd fulltrúa úr samstöðufélögum sósíalískra landa ráðstafa eigninni í samræmi við vinstri-róttæk sjónarmið. Til viðbótar erfðaskránni fundust nokkur mismunandi drög að breytingum á henni, en engum þeirra hafði verið þinglýst.

Þar sem vinstri-róttæka bylgjan á áttunda áratugnum var að mestu leyti yfirstaðin, gerðu aðeins ein samtök tilkall til arfsins -- Baráttusamtökin fyrir stofnun kommúnistaflokks (BSK). Vináttufélag Íslands og Víetnam (VÍV) fór í mál við BSK, ásamt Menningarfélagi Íslands og Kína (MÍK). Atli Gíslason sótti málið fyrir VÍV og MÍK, en Ragnar Aðalsteinsson varði það fyrir hönd BSK. Krafa VÍV og MÍK var að eini lögerfingi konunnar fengi íbúðina við Bollagötu, en til vara að VÍV og MÍK yrði falið að ráðstafa henni. Borgarfógeti tók málið fyrir snemma árs 1983 og úrskurðaðií febrúar 1984, eða um ári síðar. Kröfu BSK til arfsins var vísað frá, og lögerfingjanum dæmd íbúðin. Hann var föðurbróðir hinnar látnu konu, var 97 ára, og svo vildi til að hann lést í sömu viku og dómsuppkvaðningin var hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, svo íbúðin rann til dánarbús hans. Dómnum var ekki áfrýjað.

Heimild breyta