Anne Robert Jacques Turgot

(Endurbeint frá Anne-Robert-Jacques Turgot)

Anne Robert Jacques Turgot (10. maí 1727 – 18. mars 1781) er talinn vera einn af fremstu hagfræðingum Frakklands á 18.öld. Turgot var kenndur við búauðgisstefnuna, en Turgot og Francois Quesnay voru fyrstu og mikilvægustu fulltrúar búauðgisstefnunnar.

Anne Robert Jacques Turgot

Turgot hafði mikil áhrif á Adam Smith meðan hann dvaldist í Frakklandi og voru margar hugmyndir Smiths sóttar beint frá Turgot.[1] Turgot er þekktur fyrir að bera kennsl á verkaskiptinguna, setja fram kenningu um hvað ákvarðar verð á vörum og fyrir kenningar um uppruna hagvaxtar. Turgot er ennfremur talinn fyrstur til að koma auga á minnkandi jaðarframleiðni landbúnaðar.

Turgot fæddist í París og var yngsti sonur Michel Turgot sem var umsvifamikill kaupmaður, og "leiðtogi" kaupmana Parísar. Turgot fékk innblástur frá ýmsum hugmyndum samtímans, hann hafði áhuga á vísindum, frjálshyggju og félagslegri þróun.[2] Turgot lærði til prests og var nemandi í Sorbonne árið 1749. Hann þótti bera af sem námsmaður. Hann tók hins vegar ákvörðun um að starfa í opinberu lífi frekar en innan kirkjunnar.

Turgot var áberandi í samfélagi menntamanna Parísar á sjötta áratugnum, og tók árið 1752 sæti á Parísarþingi. Á meðan hann starfaði á þinginu þá skrifaði hann greinar í Encyclopedie, alfræðirit Denis Diderot. Hann hvatti til umburðarlyndis gagnvart mótmælendum í Frakklandi.

Áhugi hans á efnahagsmálum kann að hafa vaknað árið 1743 þegar hann fylgdi Jacques Claude Marie Vincent de Gournay viðskiptaráðherra ríkisins á ferð hans til að kanna aðstæður í héruðum Frakklands. Gournay, sem var fríverslunarsinni og annar fulltrúi búaðgisstefnunnar, er þekktur fyrir hugtakið "laisser faire, laisser passer," en það voru ráð hans um giftusæla efnahagsstjórn. Ríkið ætti ekki að skipta sér af mörkuðum.

Frá 1761 til 1774 var Turgot skattheimtumaður í Limoges þar sem hann sá um lagfæringu á vegum, bætti skattinnheimtu, lækkaði tolla og innleiddi ýmsar félagslegar umbætur fyrir fátæka.[1]

Framlög til hagfræði

breyta

Frá árunum 1761 til 1774 var afkastamesta tímabil Turgots og á þeim tíma kom hann meðal annars með ýmis framlög til hagfræðinnar sem snéru mest um framleiðslu og dreifingu auðs.[1] Turgot bar kennsl á verkaskiptinguna, hvernig verð á vörum voru ákvörðuð og mikilvægi hagvaxtar en allir þessir þættir komu fram í auðlegð þjóðanna sem Adam Smith gaf út árið 1776. Árið 1766 taldi Turgot að fjármagn væri nauðsynlegt fyrir hagvöxt og að fólk myndi ná að eiga fjármagn ef það myndi neyta minna en það framleiðir. Þetta er talið vera eitt allra mikilvægasta framlag hans til hagfræðinnar.[3] Árið 1767 skrifaði Turgot ritgerð sem tengdist stjórnmálahagfræði en hún fjallaði um skatta, sölu á korni, peninga og vexti. Turgot var einnig með þeim fyrstu sem gerði greinarmun á markaðsverði og náttúrulegu verði, hann útskýrði hvað afgangur þýddi ásamt því að útskýra tengslin á milli afgangs og vaxtar. Í tengslum við umfjöllunina hans um hvernig verð á vörum er ákvarðað þá svaraði hann því hvernig frjáls viðskipti hækka ekki meðalverð á korni í Frakklandi.[4] Hann taldi að verð á vörum myndi hækka í samráði við breytingar á framboði og eftirspurn vörunnar og að fólk myndi ekki kaupa minna af korni í frjálsum viðskiptum þar sem eftirspurnin myndi ekki breytast.

Þó Turgot sé talinn fylgja búauðgisstefnunni þá skildi hann sér frá þeim með því að fjalla um kenninguna um fjármagn. Það er kenning sem að klassísku hagfræðingarnir héldu áfram að fjalla um, enda kom Turgot og Quesnay með margar hugmyndir sem klassísku hagfræðingarnir þróuðu.[1]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „HET“. www.hetwebsite.net. Sótt 18. september 2022.
  2. „Anne-Robert-Jacques Turgot, baron de l'Aulne | French economist | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 18. september 2022.
  3. „Anne-Robert-Jacques Turgot“. Econlib (bandarísk enska). Sótt 4. október 2022.
  4. Steiner, Philippe, „Physiocracy and French Pre-classical Political Economy“, A Companion to the History of Economic Thought, Blackwell Publishing Ltd, bls. 61–77, doi:10.1002/9780470999059.ch5