Alexander 2. Rússakeisari
Alexander 2. (rússneska: Алекса́ндр II Никола́евич; umritað Aleksandr II Níkolajevítsj) (29. apríl 1818 – 13. mars 1881) var keisari Rússaveldis frá 2. mars 1855 þar til hann var ráðinn af dögum þann 13. mars 1881. Hann var jafnframt konungur Póllands og stórhertogi Finnlands.
| ||||
Alexander 2.
| ||||
Ríkisár | 2. mars 1855 – 13. mars 1881 | |||
Skírnarnafn | Aleksandr Nikolajevítsj Rómanov | |||
Fæddur | 29. apríl 1818 | |||
Kreml í Moskvu, Rússlandi | ||||
Dáinn | 13. mars 1881 (62 ára) | |||
Vetrarhöllinni, Sankti Pétursborg, Rússlandi | ||||
Gröf | Dómkirkja Péturs og Páls | |||
Undirskrift | ||||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Nikulás 1. Rússakeisari | |||
Móðir | Karlotta af Prússlandi | |||
Keisaraynja | María af Hesse (g. 1841; d. 1880) | |||
Börn | 10 skilgetin, þ. á m. Alexander 3. Rússakeisari |
Mikilvægasti verknaður Alexanders á valdatíð hans var aflétting bændaánauðarinnar árið 1861, en með henni áskotnaðist Alexander viðurnefnið „frelsunarkeisarinn“. Keisarinn stóð fyrir ýmsum umbótum, þar á meðal endurskipulagningu réttarkerfisins, skipun kjörinna héraðsdómara, afnámi líkamlegra refsinga,[1] aukinni héraðssjálfsstjórn, almennri herskyldu, skertum forréttindum aðalsstéttarinnar og aukinni háskólamenntun.
Í utanríkismálum seldi Alexander Bandaríkjunum Alaska árið 1867 af ótta við að þessi afskekkta nýlenda myndi enda í höndum Breta ef kæmi til stríðs við þá.[2] Alexander sóttist eftir friði og sleit bandalagi við Frakkland þegar Napóleon III féll frá völdum árið 1871. Árið 1872 gekk hann í „Þriggjakeisarabandalagið“ svokallaða ásamt Þýskalandi og Austurríki til þess að friðþægja Evrópu. Þrátt fyrir að reka friðsama utanríkisstefnu háði Alexander stutt stríð gegn Tyrkjaveldi árin 1877-78, þandi Rússaveldi enn frekar inn í Síberíu og Kákasus og lagði undir sig Túrkistan. Alexander sætti sig með semingi við niðurstöður Berlínarfundarins þótt hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með þær. Árið 1863 var gerð uppreisn í Póllandi sem Alexander kvað niður og brást við með því að nema úr gildi stjórnarskrá Póllands og lima það beint inn í Rússland. Alexander var enn að leggja til aukna þingvæðingu þegar hann var myrtur af meðlimum uppreisnarhreyfingarinnar Narodnaja Volja árið 1881.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Reformation by the Tsar Liberator“. InfoRefuge. InfoRefuge. Sótt 18. apríl 2016.
- ↑ Claus-M., Naske, (1987). Alaska, a history of the 49th state. Slotnick, Herman E., 1916-2002. (2.. útgáfa). Norman: University of Oklahoma Press. bls. 61. OCLC 44965514.
Fyrirrennari: Nikulás 1. |
|
Eftirmaður: Alexander 3. |