Agnar Eldberg Kofoed-Hansen

(Endurbeint frá Agnar Kofoed-Hansen)

Agnar Kofoed-Hansen (3. ágúst 191523. desember 1982) var flugmaður, flugmálastjóri og lögreglustjóri. Hann fæddist í Reykjavík og lærði að fljúga í flugskóla danska sjóhersins. Eftir nám starfaði hann sem flugmaður í Danmörku og aflaði sér frekari réttinda Noregi og Þýskalandi. Hann var hvatamaður að stofnun Svifflugfélags Íslands 1936, Flugmálafélagsins 1936 og Flugfélags Akureyrar 1937.[1] Skipaður í embætti lögreglustjórans í Reykjavík 1939, þá 24 ára, af Hermanni Jónassyni dómsmálaráðherra.[2] Sendur sama ár í kynnisferð til lögreglunnar í Kaupmannahöfn og í Þýskalandi.[3][4] Varð þar fyrir miklum áhrifum af rannsóknum Þjóðverja á arfgengi glæpahneigðar.[5] Tók við embætti lögreglustjórans í Reykjavík 1940 og kom þar meðal annars á fót „eftirgrennslanadeild“ hjá Útlendingaeftirliti lögreglunnar.[6] Fór með embætti lögreglustjórans í Reykjavík fram til ársins 1947. Agnar var flugvallastjóri ríkisins árin 1947–1951. Hann varð flugmálastjóri 1951 og gegndi því starfi til dauðadags.

FerillBreyta

 • Flugliðsforingi frá Konunglega danska sjóliðsforingjaskólanum árið 1935.
 • Stofnandi og fyrsti formaður Flugmálafélags Íslands 1936. Markmið félagsins var að efla áhuga fyrir flugsamgöngum hér á landi og til annarra landa.
 • Stofnandi og fyrsti formaður Svifflugsfélags Íslands 1936.
 • Flugmálaráðunautur ríkisstjórnarinnar árin 1936–1945.
 • Aðalhvatamaður að stofnun Flugfélags Akureyrar 3. Júní 1937. Fyrsti flugmaður jafnframt framkvæmdastjóri þess til 1939. Nafni félagsins var breytt í Flugfélag Íslands árið 1940 og varð númer þrjú í röðinni með því nafni.
 • Lögreglustjóri í Reykjavík 1940–1947.
 • Flugvallastjóri ríkisins 1947–1951.
 • Formaður flugráðs 1947–1980.
 • Flugmálastjóri 1951–1982.
 • Varnarmálanefnd 1951–1954.
 • Fulltrúi ríkisstjórnar Íslands á flestum flugmálaráðstefnum sem sóttar voru af Íslands hálfu fram til ársins 1982.

Æviminningar teknar saman í samvinnu við Jóhannes Helga rithöfund og gefnar út í bókunum „Á brattann“ og „Lögreglustjóri á stríðsárum“.

Heiðursmerki og viðurkenningarBreyta

 • Noregur: St. Olavs orden Kommandør 1947;
 • Luxemburg: Stórriddari Eikarkrúnuorðunnar 1955.
 • Danmörk: Dannebrogordenen Kommandør 1956;
 • Svíþjóð: Kommendör av Kungl. Vasa orden 1957 og Kommendör av Kungl. Nordstjärnaorden 1975;
 • Finnland: Kommendör av klasse 1 Lejonsorden 1957;
 • Frakkland: Diplome Paul Tissander F.A.I. 1958;
 • Sviss: Légion d'Honneur, Chevalier 1962 og Commandeur 1966.
 • Ísland: Stórriddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu 1976;
 • Þýskaland: Grosses Verdienst Kreutz 1977;
 • Heiðursverðlaun ICAO, „The Edward Warner Award“ 1979.
 • Heiðursfélagi í Indian Society for Aeronautical Science.

FjölskyldaBreyta

Foreldrar: Emilía Kristbjörg Benediktsdóttir og Agner Francisco Kofoed-Hansen skógræktarstjóri í Reykjavík.

Maki: Björg Sigríður Anna Axelsdóttir Kofoed-Hansen, Dóttir Axels Kristjánssonar, stórkaupmanns og konsúls á Akureyri og Hólmfríðar Jónsdóttur.

Börn: Astrid Björg Kofoed-Hansen, Hólmfríður Sólveig Kofoed-Hansen, Emilía Kristín Kofoed-Hansen, Sophie Isabella Kofoed-Hansen, Björg Sigríður Anna Kofoed-Hansen og Agnar Kofoed-Hansen.

HeimildirBreyta

 • Flugmannatal, FÍA 1988.
 • „Frumherjar í íslenskri flugsögu: Agnar Kofoed-Hansen flugmálastjóri“. Flugsafn Íslands – Akureyri. Sótt 12. júní 2008.
 • Morgunblaðið 30. desember 1982: Minningargrein
 1. „Molar úr sögu flugs á Akureyri“. Dagur. 21. júní 1994. bls. 11.
 2. Hákon Bjarnason (30. desember 1982). „Agnar Kofoed Hansen flugmálastjóri - Minning“. Morgunblaðið. bls. 13. ... þegar styrjöldin hófst haustið 1939 ... var Agnar kvaddur til þess að vera lögreglustjóri í Reykjavík sakir þess að hann var eini Íslendingurinn, sem lokið hafði námi við liðsforingjaskóla og var því kunnugur þeim reglum og háttum sem gilda innan hers og flota.
 3. Þjóðviljinn (23. nóvember 1945). „Hermann Jónasson sendi Agnar Kofoed-Hansen til Þýzkalands til að læra aðferðir af nazistalögreglu Himmlers“. bls. 1, 8.
 4. Hrafn Jökulsson; Illugi Jökulsson (1988). Íslenskir nasistar. Tákn. bls. 210, 301. "Agnar var sérstakur gestur Heinrichs Himmlers, yfirmanns SS-sveitanna, meðan á Þýskalandsdvölinni stóð og hafði í fórum sínum meðmælabréf frá Werner Gerlach, hinum atorkusama ræðismanni Þjóðverja er hafði mikið álit á Agnari."
 5. Jóhannes Helgi (1979–1981). Agnar Kofoed-Hansen rekur minningar sínar. Almenna bókafélagið. „En það sem mest áhrif hafði á mig, mér liggur við að segja skelfileg, voru rannsóknir þeirra [Kriminalpolizei Amt] á ættgengi glæpahneigðar. Ég vissi auðvitað að hún gat lagst í ættir eins og aðrir kostir og gallar manna – en að hún gerði það í þeim mæli sem þarna voru færðar sönnur á, hafði mig ekki órað fyrir. [...] Þetta voru ísköld vísindi, sannindi sem komu nasisma ekkert við, höfðu reyndar verið stunduð frá því löngu áður en Hitler kom í heiminn. – Ég gleymi þessu aldrei. Ég hefði kosið að lifa í annarri trú. Ég aðhylltist á mínum róttæku unglingsárum kenningu Lysenkos, uppáhalds erfðafræðings Stalins, að uppeldi og umhverfi mótaði manninn og hefði jafnvel áhrif á genin, en kenningin hefur því miður verið afsönnuð fyrir löngu. [...] En þarna blöstu staðreyndirnar við mér, ættartrén, svart á hvítu – og brenndu sig óafmáanlega inn í mig.“
 6. Björn Bjarnason (24. september 2008). „Forvirkar rannsóknarheimildir“ (PDF). Dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 2009.

TenglarBreyta

   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.