Afgangsþingið var þing þeirra sem héldu stöðu sinni á Langa þinginu eftir hreinsanir Prides ofursta 6. desember 1648. Þingherinn í Ensku borgarastyrjöldinni undir stjórn Prides ofursta varnaði þá þingmönnum inngöngu og handtók fjölda þeirra. Tæplega helmingur þingmanna Enska þingsins sat eftir í afgangsþinginu. Þar var þá kominn meirihluti fyrir stofnun lýðveldis og síðar fyrir því að dæma Karl 1. til dauða fyrir landráð.

Hreinsun Prides ofursta

Árið 1653 rak Oliver Cromwell afgangsþingið úr þingsalnum og skipaði sjálfur nýtt þing, þing Barebones, byggt á tilnefningum frá safnaðarkirkjum hverrar sýslu.

Við lát Cromwells 1658 tók sonur hans, Richard Cromwell, við stöðu lávarðar Englands. Hann kallaði þriðja verndarþingið saman árið 1659 en tókst ekki að mynda ríkisstjórn og herinn setti hann því af eftir sjö mánuði í embætti. Þann 6. maí 1659 kallaði herinn því afgangsþingið saman aftur. Vegna átaka um skipan yfirmanna hersins tók herforinginn John Lambert sig til og útilokaði þingið frá Westminsterhöll 13. október. Yfirmaður heraflans í Skotlandi, George Monck, lýsti þá yfir stuðningi við þingið og hélt suður með her sinn. Lambert hélt til móts við hann en her hans leystist smám saman upp á leiðinni vegna liðhlaups og hann neyddist til að snúa aftur til London. Herforinginn Charles Fleetwood neyddist því til að láta kalla þingið saman aftur. Þingið skipaði þá Monck yfirmann hersins í Englandi og Skotlandi. Monck kallaði þá þingmenn Langa þingsins sem Pride hafði útilokað aftur í þingsalinn með því skilyrði að þingið samþykkti að leysa sjálft sig upp eftir almennar kosningar. Langa þingið var síðan leyst upp 16. mars 1660 eftir að hafa undirbúið löggjöf um endurreisn konungdæmis í Englandi.