50 ára afmælismót Danska knattspyrnusambandsins

50 ára afmælismót Danska knattspyrnusambandsins var haldið árið 1939 í tilefni af hálfrar aldar afmæli Danmarks Boldspil Union. Að því tilefni var efnt til óopinbers Norðurlandamóts í knattspyrnu á Idrætsparken.

Úrslit mótsinsBreyta

Fjögur lið tóku þátt í mótinu: heimamenn Dana, Norðmenn, Svíar og Finnar. Keppt var með útsláttarfyrirkomulagi. Í fyrsta leik sigruðu Danir lið Finna 5:0. Norðmenn komu nokkuð á óvart með því að vinna Svía 1:0 í hinum undanúrslitaleiknum.

Í úrslitunum sigruðu Danir Norðmenn 6:3, eftir að staðan hafði verið 2:3 í hálfleik. Danir fögnuðu vel þessum óopinbera Norðurlandameistaratitli. Fyrir mótið höfðu þeir kallað sér til aðstoðar enskan þjálfara, Edward Magner, sem lagði höfuðáherslu á að bæta líkamlegan styrk leikmanna að hætti enskra atvinnumanna. [1] [2]

Þáttur Knattspyrnufélagsins FramBreyta

Danska knattspyrnusambandið bauð Knattspyrnufélaginu Fram að senda lið sitt til Danmerkur í tengslum við afmælismótið. Við setningarathöfnina voru leikmenn Framliðsins leiddir inn á völlinn og látnir stilla sér upp ásamt landsliðunum fjórum. Þeir voru kynntir til sögunnar sem „liðið frá Íslandi“ og látnir klæðast rauðum sokkum við Frambúninginn, væntanlega til að líkja eftir fánalitunum og ýja þannig að því að íslenska landsliðið (sem enn var ekki til) væru gestir á mótinu.

Í kjölfarið kepptu Framarar fjóra leiki gegn dönskum úrvalsliðum. Í þeim fyrsta var leikið við úrvalslið Sjálands utan Kaupmannahafnar og sigruðu heimamenn 4:3. Þessu næst unnu Framarar lið Borgundarhólms 4:2 í Rønne. Fram vann því næst lið Fjóns 1:0 í Óðinsvéum og loks Suður-Jóta með sex mörkum gegn einu í Tønder, þar sem Jón Magnússon skoraði fimm mörk.

Tilvísanir og heimildirBreyta

  1. „Vefsíða Danska knattspyrnusambandsins“.
  2. „Upplýsingasíða um danskar knattspyrnuleikskrár“.
  • Framblaðið. Knattspyrnufélagið Fram. 1943.