Þverá í Svarfaðardal

Þverá í Svarfaðardal er bújörð í miðjum dal að vestanverðu um 10 km frá Dalvík. Áin sem bærinn heitir eftir kemur úr Þverárdal/Bakkadal í djúpu hamragili, Steindyragili, og rennur síðan niður með túninu skammt utan bæjar og fellur í Svarfaðardalsá. Hún markar skilin milli Tjarnar- og Urðasókna. Utan árinnar er bærinn Steindyr. Bærinn er oft kallaður Þverá niður til aðgreiningar frá Þverá í Skíðadal eða Þverá fram eins og sagt er í byggðarlaginu.

Þverá í Svarfaðardal, Dalvíkurbyggð. Steindyr fjær

Á Þverá bjó Helgi Símonarson (1895-2001) bóndi, kennari og skólastjóri og mikill félagsmálafrömuður. Hann náði 105 ára aldri og var elstur Íslendinga á sinni tíð. Hann var maður þriggja alda, fæddist á 19. öld, lifði alla 20. öldina og lést á þeirri 21.