Þorláksbiblía er önnur heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku, prentuð á Hólum í Hjaltadal og kennd við Þorlák Skúlason biskup þar. Á varðveittum eintökum má bæði sjá titilblöð með ártalinu 1637 og 1644, mun hið fyrra gert við upphaf prentunar og hið síðara þegar prentun bókarinnar var lokið.

Árið 1634 var hálf öld frá því að Guðbrandsbiblía kom út. Var þá orðinn skortur á biblíum, bæði í kirkjum og meðal efnamanna, sem vildu eignast eintak. Þorlákur Skúlason biskup á Hólum fór þá að undirbúa aðra útgáfu. Kristján 4. Danakonungur gaf út bréf 22. apríl 1635, þar sem allar sóknarkirkjur á Íslandi voru skyldaðar til að leggja fram einn ríkisdal til verksins, auk þess sem konungur lagði fram 200 ríkisdali og afgjald af jörðinni Núpufelli í Eyjafirði, til að greiða prenturum laun.

Við undirbúning útgáfunnar lagði Þorlákur Guðbrandsbiblíu til grundvallar, en sumstaðar var orðum umskipt eða greinum, eftir danskri Biblíu, og Biblíu Lúthers, „eftir því sem eg hefi meint fyrir Guði hentugast og réttast vera, svo sem gjör má sjá ef textarnir eru saman bornir“, segir Þorlákur. Þetta mun vera ástæða þess að Þorláksbiblía hefur þótt bera nokkur merki danskrar tungu.

Þorláksbiblía er vegleg bók, í sama broti og fyrirrennari hennar (folio), en þó er heldur minna lagt í útlit og frágang. T.d. eru aðeins fjórar myndir í bókinni, á móti 30 í Guðbrandsbiblíu. Upphafsstafir kafla og annað skraut er að mestu fengið úr Guðbrandsbiblíu. Eitt hafði Þorláksbiblía þó fram yfir: Þar er í fyrsta sinn notuð tölumerkt versaskipting, en í Guðbrandsbiblíu voru aðeins kaflarnir tölusettir.

Eins og fyrr er sagt mun prentun Þorláksbiblíu hafa tekið 7 ár, með nokkrum hléum, því að fleiri bækur voru prentaðar á Hólum á því tímabili. Óvíst er hvert upplag bókarinnar var, í ungum heimildum er það sagt 1.000 eintök, en líklegra er að það hafi verið svipað og upplag Guðbrandsbiblíu, um 500 eintök, því að Þorláksbiblía er nú talin fágætari.

Heimild

breyta
  • Sigurður Ægisson: Grein í Morgunblaðinu 3. september 2006.