Þorbjörg Sveinsdóttir

Þorbjörg Sveinsdóttir (18271903) var íslensk ljósmóðir og baráttukona fyrir kvenréttindum og rétti kvenna til menntunar. Hún var menntuð í ljósmóðurfræðum í Kaupmannahöfn og lét til sín taka í mörgum þjóðmálum svo sem háskólamálinu, Elliðaármálinu og stofnun Hins íslenska kvenfélags.

Þorbjörg var fædd að Sandfelli í Öræfum og var faðir hennar prestur á Sandfelli en síðar á Þykkvabæjarklaustri en síðar Mýrum í Álftaveri en þar ólst Þorbjörg upp til ársins 1853 en þá flutti hún með móður sinni norður í Skagafjörð. Þorbjörg var ein átta systkina. Einn bræðra hennar var Benedikt Sveinsson faðir Einars Benediktssonar. Árið 1855 fór Þorbjörg til Kaupmannahafnar og lærði ljósmóðurfræði og útskrifaðist 30. apríl 1856 og flutti þá til Íslands og starfaði um hríð í Skagafirði en flutti svo til Reykjavíkur. Hún starfaði í átta ár sem ljósmóðir í Reykjavík en var þá skipuð embættisljósmóðir í Reykjavík ásamt annarri konu og gengdi því starfi til 1902. Samfara því sá hún um kennslu nema í ljósmæðrafræðum og bjuggu nemarnir oft heima hjá Þorbjörgu og yfirleitt nokkrir samtímis. Þorbjörg var ógift og barnlaus en tók að sér systurdóttur sína Ólafíu Jóhannsdóttur þegar Ólafía var fimm ára. Móðir Þorbjargar bjó hjá henni til dánardags og feðgarnir Benedikt Sveinsson og Einar Benediktsson bjuggu hjá henni um tíma. Þorbjörg bjó í steinbæ á Skólavörðustíg 11.

Þorbjörg tók virkan þátt í þjóðmálaumræðu og var vel máli farin. Hún var fylgismaður Jóns Sigurðssonar. Hún barðist fyrir stofnun háskóla hér á landi en árið 1893 hafði Alþingi samþykkt lagafrumvarp Benedikts Sveinssonar um stofnun háskóla en konungur neitaði að staðfesta það. Þann 26. janúar 1894 voru að frumkvæði Þorbjargar stofnuð samtök kvenna sem höfðu að markmiði að knýja á um að háskóli yrði settur upp á Íslandi. Haldinn var fundur þar sem um 200 konur komu og stofnuð nefnd kvenna sem skyldi vinna að fjársöfnun fyrir háskóla. Þetta var upphaf Hins íslenska kvenfélags og fyrsta fjöldahreyfing kvenna á Íslandi. Árið 1897 tók Þorbjörg við formennsku félagsins og gengdi starfinu til dauðadags.

Þorbjörg stofnaði ásamt Ólafíu og fleiri konum Hvítabandið árið 1895 en það var kristilegt bindindisfélag að erlendri fyrirmynd sem vann að ýmsum velferðarmálum. Ólafía varð formaður og Þorbjörg meðstjórnandi.

Heimildir

breyta