Þjóðhagsstofnun var ríkisstofnun sem var komið á fót árið 1974 og kom í stað hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins og tók við öllum verkefnum hennar. [1] Hún heyrði undir forsætisráðherra og „átti að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera ríkisstjórn og Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum“. Meðal verkefna hennar var að færa þjóðhagsreikninga, semja þjóðhagsspár og áætlanir og semja yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskapsins og horfur í þeim efnum. [2] Hún spáði því m.a. fyrir um hagvöxt og verðbólgu, gerði úttekt á stöðu atvinnuveganna o.s.frv. Annaðist auk þess hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð um efnahagsmál fyrir ríkisstjórnina og lét alþingismönnum og nefndum Alþingis í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál og einnig aðilum vinnumarkaðarins eftir því sem um samdist. Þjóðhagsstofnun var lögð niður árið 2002 í stjórnartíð Davíðs Oddsonar, sem þá var forsætisráðherra.

Þjóðhagsstofnun lögð niður

breyta

Árið 1988, þegar Þorsteinn Pálsson var forsætisráðherra, voru uppi hugmyndir um að leggja Þjóðhagsstofnun niður og láta Hagstofuna sjá um þann hluta starfseminnar sem sneri að upplýsingasöfnun. Þetta kom til eftir að Þorsteinn varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með Þórð Friðjónsson, forstjóra stonunarinnar. Mikill atgervisflótti hafði verið úr stofnunni, að sögn vegna óánægju með Þórð, en nýtt fólk hafði komið í staðinn en deildar meiningar voru um hæfni þess, helst vegna ónógrar þjálfunar. Auk þess var uppi orðrómur um það úr öðrum áttum að menn vissu aldrei hvort spár stofnunarinnar væru hlutlausar eða háðar vilja ríkisstjórnarinnar. Sagt var að þetta hafði drepið mikilvægi stofnunarinnar á dreif. Hugmyndin um að leggja niður Þjóðhagsstofnun [3] [4] eða sameina hana Hagstofunni voru þó ekki nýjar af nálinni. [5] Sama ár var unnið að úttekt á stöðu atvinnu- og efnahagsmálum í Byggðastofnun, Þjóðhagsstofnun og í Seðlabankanum til handa forsætisráðherra vegna efnahagsástandsins, og Þorsteinn Pálsson sagði í vitali við Alþýðublaðið að...

Þetta er nauðsynlegt til að meta þær breytingar sem eru að verða í þjóðarbúskapnum og menn verða að gera sér grein fyrir því að þær eru alvarlegar. Ef kaupmáttur útflutningsteknanna heldur áfram að hrapa og við drögum ekki saman eyðsluna þá myndast hér viðskiptahalli og erlend skuldasöfnun sem ekki verður unað við. [6]

Davíð Oddson var strax þeirrar skoðunar í kringum aldamótin 2000 að hagfræðingar Þjóðhagsstofnunar gengu of langt í svartsýni í spám sínum. [7] Árið 2001 hélt hann því fram að stofnunin áttaði sig ekki á því að verðbólguspár hennar væru ekki nákvæmnisvísindi, eins og hann orðaði það, en var þeim sammála að öðru leyti. [8] Í apríl árið 2002 lagði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fram frumvarp um að Þjóðhagsstofnun skyldi lögð niður. Við umræður frumvarpsins sagði Össur Skarphéðinsson, þáverandi formaður Samfylkingarinnar, að frumvarpið væri ekkert annað en hrein hefndaraðgerð vegna þess að Davíð Oddssyni hefði ekki hugnast þær spár sem Þjóðhagsstofnun hafði lagt fram, hefndaraðgerð sem kosta myndi íslenska ríkið á bilinu 50 til 100 miljónir króna. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri græna, sagði að engin efnahagsleg rök mæltu með frumvarpinu og Sverrir Hermannsson, þáverandi formaður Frjálslynda flokksins, sagði m.a. að með því að færa verkefni Þjóðhagsstofnunar til fjármálaráðuneytisins og Seðlabanka Íslands væri greinilega verið að færa þau nær valdhöfunum; ríkisvaldinu sjálfu. [9] Í sama mánuði skrifaði Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun, grein í Morgunblaðið og sagði að ef „stofnunin verði lögð niður verður ekki til sjálfstæð stofnun sem fjallar um efnahagsmál. Samkvæmt frumvarpi því sem lagt hefur verið fram í ríkisstjórn verður gerð efnahagsspáa færð til fjármálaráðuneytis og gæti því ekki talist óháð.“ [10] Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, sagði við umræður frumvarpsins að menn teldu sig ekki aðeins sjá „langtímasparnað, ekki bara hagræðingu til lengri tíma, heldur einnig betri nýtingu á starfsfólki, mannafla og öðru sem þarna tilheyrir og bætta verkaskiptingu. Það hefur t.d. alltaf verið mikið álitaefni hvort gerð þjóðhagsreikninganna ætti að vera hjá þessari stofnun eða hvort hún ætti að vera á Hagstofunni.“ Frumvarpið var samþykkt þann 29. apríl árið 2002. 33 þingmenn sögðu já, 22 nei, 8 voru fjarstaddir. [11]

Forstjórar Þjóðhagsstofnunarinnar

breyta

Eitt og annað

breyta
 • Árið 1987 flutti Þjóðhagsstofnun af Rauðarárstíg 25 í nýja Seðlabankahúsið, Kalkofnsvegi 1. [12]
 • Í tímaritinu Frjálsri verslun var spurt árið 1989 í kjölfar gjaldþrotahrinu einstaklinga og fyrirtækja: „Gegnst Þjóðhagsstofnun fyrir spám um framvindu efnahagsmála, sem eru byggðar á óskhyggju ráðamanna á hverjum tíma en ekki köldu, hagfræðilegu mati?“ [13] Sama ár er samt þjóðhagsspá stofnunarinnar mjög svört. [14]

Tilvísanir

breyta
 1. Þjóðhagsstofnun hættir starfsemi; grein í Morgunblaðinu 2002
 2. Þjóðhagsstofnun; hluti af grein í Frjálsri verslun 1974
 3. Eyjólfur Konráð á villigötum; grein í Alþýðublaðinu 1987
 4. Asi út af öngvu; grein í Morgunblaðinu 1987
 5. Hugmyndir um að leggja Þjóðhagsstofnun niður; grein í DV 1988
 6. Verðum að horfast í augu við gjörbreyttar aðstæður; grein í Alþýðublaðinu 1988
 7. Vinsælasta ráðið; grein í Morgunblaðinu 2000
 8. Fyrst og fremst verðbólguskot; grein í Morgunblaðinu 2001
 9. Stjórnarandstæðingar andvígir frumvarpinu; grein í Morgunblaðinu 2002
 10. Hvers vegna Þjóðhagsstofnun?; grein í Morgunblaðinu 2002
 11. Atkvæðagreiðslur; af Alþingi.is
 12. Tilkynning; birtist í Morgunblaðinu 1987
 13. Mistök á mistök ofan; grein í Frjálsri verslun 1989
 14. Meira atvinnuleysi - minnkandi kaupmáttur; grein í Alþýðublaðinu 1989

Tenglar

breyta