Óskar 2. Svíakonungur
Óskar 2. (Oscar Fredric, 21. janúar 1829 – 8. desember 1907) var konungur Svíþjóðar frá 1872 til dauðadags, konungur Noregs frá 1872 til 1905 og hertogi af Austur-Gautlandi.
Óskar var þriðji sonur Óskars 1. Svíakonungs og konu hans Jósefínu af Leuchtenberg. Hann var því ekki alinn upp til ríkiserfða, heldur gekk hann í sjóherinn og varð sjóliðsforingi og skrifaði bækur um sjóhernað, auk þess sem hann samdi ljóð og gaf út ljóðabók og fleiri rit. Hann stundaði einnig nám í stærðfræði við Uppsalaháskóla og var heiðursfélagi í sænsku vísindaakademíunni.
Þegar Óskar 1. dó 8. júlí 1859 og Karl 15., elsti sonur hans, tók við varð Óskar ríkisarfi því bróðir hans átti ekki son á lífi. Hann átti að vísu eina dóttur, Lovísu, en konur áttu ekki erfðarétt í Svíþjóð samkvæmt stjórnarskránni frá 1809. Næstelsti bróðir þeirra, Gústaf prins, hafði dáið barnlaus. Óskar átti sjálfur son og ríkiserfðirnar voru þvi tryggðar, svo að ekkert varð úr hugmyndum um að breyta stjórnarskránni og gera Lovísu arfgenga.
Óskar 2. tók því við ríkjum þegar bróðir hans lést 18. september 1872. Hann hafði mikinn áhuga á utanríkismálum og var mikill aðdáandi Otto von Bismarck Þýskalandskanslara. Hann reyndi að koma á bandalagi Skandinavíu, Þýskalands og Ítalíu og hugsanlega einnig Bretlands. Stærsti ósigur hans var sambandsslitin við Noreg 1905 en hann reyndi mikið til að viðhalda konungssambandinu, heimsótti Noreg árlega eða oft á ári og talaði norsku reiprennandi.
Fjölskylda
breytaÓskar giftist Soffíu af Nassau 6. júní 1857. Synir þeirra voru:
- Gústaf 5. (1858-1950), konungur Svíþjóðar.
- Oscar Bernadotte (1859-1953), sem þurfti að afsala sér konunglegum titlum og erfðatilkalli vegna hjónabands síns. Hann var faðir sænska diplómatans Folke Bernadotte.
- Karl prins (1861-1951), hertogi af Vestur-Gautlandi.
- Eugen prins (1865-1947), hertogi af Närke.
Heimildir
breyta
Fyrirrennari: Karl 15. |
|
Eftirmaður: Gústaf 5. |