Lofsöngur

þjóðsöngur Íslands
(Endurbeint frá Ó, guð vors lands)

Lofsöngur er sálmur eftir Matthías Jochumsson við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar samið fyrir þjóðhátíð í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874. Lag og ljóð voru frumflutt af blönduðum kór við hátíðarguðsþjónustu sem hófst klukkan 10:30 í Dómkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 2. ágúst 1874 sem Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára og var konungur Danmerkur (og þar með konungur Íslands), Kristján IX, viðstaddur þá athöfn.

Lofsöngur
Árið 1974 lét Menntamálaráðuneytið koma fyrir minningartöflum að London Street 15 í Edinborg, sú fyrri er á íslensku og á henni stendur: „Íslenski þjóðsöngurinn, “Ó, Guð vors lands” lagið og hluti ljóðsins var saminn í þessu húsi árið 1874 af Sveinbirni Sveinbjörnssyni og Matthíasi Jochumssyni“ og á töflunni fyrir neðan hana er ritað á ensku: „The Icelandic national anthem “Ó, Guð vors lands” by the composer Sveinbjörn Sveinbjörnsson and the poet Matthías Jochumsson was written and composed in this house in 1874.“ Frumkvæðið að því að koma fyrir töflunum átti dr. Símon Jóhannes Ágústsson, sem ritaði ráðuneytinu um málið, en sendiráð Íslands í Lundúnum og aðalræðismaðurinn í Edinborg aðstoðuðu við framkvæmd þess. Tvennt er athugavert við textann á töflunum, í fyrsta lagi er á þeim báðum staðhæft að lag og ljóð hafi verið samið 1874 en í æviminningum Matthíasar kemur fram að það hafi verið veturinn 1873-1874, í öðru lagi er misræmi á milli þeirra eftir tungumálum, á íslensku útgáfunni er staðhæft að ljóðið hafi að hluta til verið samið í húsinu sem er rétt en á þeirri ensku er staðhæft að það hafi verið samið þar sem er rangt, en síðari versin voru samin í Lundúnum.
Víðmynd af minningartöflunum tveim við London Street 15.

Ljóðið öðlaðist í kjölfar þess vinsældir meðal almennings sem þjóðsöngur og var flutt sem slíkt við fullveldistökuna 1918, sú staða ljóðs og lags var svo fest í „lög um þjóðsöng Íslendinga“,[1] sem voru samþykkt á Alþingi 8. mars 1983 og tóku gildi 25. mars sama ár. Áður var vísan Eldgamla Ísafold eftir Bjarna Thorarensen við lagið God Save the Queen oft sungin sem einhvers konar þjóðsöngur, en það þótti ekki hæfa að notast við sama lag og aðrar þjóðir nota við þjóðsöng sinn.

Lofsöngurinn gengur oftast undir heitinu Ó, Guð vors lands, sem er fyrsta ljóðlína hans og er það meðal annars notað sem heiti ljóðsins í lögum um þjóðsönginn, en er þó skrifað þar án kommu á eftir ó-inu.

Gefinn var út konungsúrskurður þann 8. september 1873 þess efnis að opinber guðsþjónusta skyldi haldin í öllum kirkjum landsins í tilefni 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar sumarið 1874, og átti biskup Íslands samkvæmt honum að ákveða messudag og ræðutexta, Pétur Pétursson sem þá þjónaði sem biskup ákvað að messudagurinn skyldi vera 2. ágúst 1874 og að sálmurinn sem flytja skyldi væri 90. Davíðssálmur, 1.-4. og 12.-17. vers, og urðu þau vers innblástur Matthíasar Jochumssonar að Lofsöngnum:urðu þau vers innblástur Matthíasar Jochumssonar að lofsöngum[heimild vantar]

Drottinn, þú hefir verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"
Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.
Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.
Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða,
að þú aumkist yfir þjóna þína?
Metta oss að morgni með miskunn þinni,
að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.
Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss,
ára þeirra, er vér höfum illt reynt.
Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum
og dýrð þína börnum þeirra.
Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss,
styrk þú verk handa vorra.

Ljóðið var ort á Bretlandseyjum veturinn 1873-1874, fyrsta erindið á heimili Sveinbjörns Sveinbjörnssonar að London Street 15 í Edinborg árið 1873, þar sem Matthías dvaldi um hríð en annað og þriðja erindið í Lundúnum og segir Matthías svo frá yrkingu þess í sjálfsævisögu sinni, Sögukaflar af sjálfum mér, í kaflanum „Þriðja útförin mín“, undirkaflanum „Hjá kunningjum á Bretlandi“:

 
Ég bjó hjá Svb. Sveinbjörnsson tónskáldi, og vorum við skólabræður. Þá orti ég nokkur smákvæði, þar á meðal „Lýsti sól“, „Minni Ingólfs“ og þar bjó ég til byrjun lofsöngsins, „Ó, guð vors lands“. Sveinbjörn athugaði vandlega textann, en kvaðst ekki treysta sér til að búa til lag við; fór svo, að ég um veturinn sendi honum aftur og aftur eggjan og áskorun að reyna sig á sálminum. Og loks kom lagið um vorið og náði nauðlega heim um Þjóðhátíðina. Síðari versin tvö orti ég í Lundúnum, og hefur mér aldrei þótt mikið til þeirra koma.
 

Brynjólfur Tóbíasson segir í bók sinni, Þjóðhátíðin 1874, þannig frá fyrsta flutningi Lofsöngsins:

 
Söngurinn í kirkjunni undir stjórn Péturs Guðjohnsen organleikara þótti áhrifamikill. Sálmar sem Helgi Hálfdánarson, síðar lektor, hafði ort við þetta tækifæri, voru sungnir. Og nú var í fyrsta sinn sunginn sálmur sr. Matthíasar Jochumssonar, er síðar var þjóðsöngur vor: Ó guð vors lands, undir hinu fagra lagi Sveinbjarnar Sveinbjörnssonar, tónskálds. Hafði lofsöngur þessi djúp áhrif á marga þá, er hlýddu.[2]
 

Umræður um að skipta um þjóðsöng

breyta

Reglulega hefur sú hugmynd komið upp í þjóðfélagsumræðunni að skipta um þjóðsöng og hafa þá oft verið nefnd lögin Ísland er land þitt eftir Magnús Þór Sigmundsson við texta Margrétar Jónsdóttur og ljóð Eggerts Ólafssonar Ísland ögrum skorið við lag Sigvalda Kaldalóns og Öxar við ána, lag Helga Helgasonar við ljóð Steingríms Thorsteinssonar. Þjóðsöngurinn hefur einkum verið gagnrýndur fyrir að þykja torsunginn; að vera of langur, en iðulega þarf að auka spilunarhraða lagsins eða stytta það, oftast niður í fyrsta erindið, við alþjóðlega kappleiki og aðrar þjóðlegar samkomur; fyrir að vera torskilinn og að lokum fyrir að fjalla aðallega um Guð kristinna manna.

Árið 1996 (121. löggjafarþing, 35. mál) var lögð fram þingsályktunartillaga um „endurskoðun á lögum um þjóðsöng Íslendinga“ og m.a. lagt til að taka upp annan þjóðsöng ásamt lofsöngnum og hafa þá tvo þjóðsöngva (líkt og t.d. Nýja Sjáland hefur gert), tillagan var felld.

Þann 8. nóvember 2004 (131. löggjafarþing, 279. mál) lögðu tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins úr Norðausturkjördæmi, Sigríður Ingvarsdóttir og Hilmar Gunnlaugsson fram þingsályktunartillögu þess efnis að kannað yrði hvort rétt væri að skipta um þjóðsöng, „með það fyrir augum að taka upp nýjan þjóðsöng sem væri auðveldari í flutningi og hentaði betur til almennrar notkunar, svo sem í skólum, á íþróttakappleikjum og við önnur svipuð tækifæri.“[3] Þau mæltu einkum með tveimur staðgenglum: ljóðinu Ísland ögrum skorið og laginu Ísland er land þitt. Fyrri umræða var haldin 16. nóvember 2004 og var ákveðið skv. atkvæðagreiðslu að halda henni áfram í síðari umræðu.[4]

Í könnun Gallup í mars 1994 var spurt tveggja spurninga: „Hvað heitir þjóðsöngurinn?“ og „Á að skipta um þjóðsöng?“

Við fyrri spurningunni svöruðu 60% „Ó guð vors lands“, 1,8% „Lofsöngur“, 6% nefndu aðra söngva, 32% aðspurðra kváðust ekki vita nafn þjóðsöngsins. Mikill munur var eftir aldri á því hvort aðspurðir vissu hver þjóðsöngurinn væri, eða um 30% 15-24 ára fólks og 90% 55-69 ára.

Við seinni spurningunni svöruðu 65% því að þeir vildu halda sig við núverandi þjóðsöng, tæplega 5% kusu Öxar við ána.[5]

Í annarri Gallupkönnun sem gerð var í nóvember 1996 í kjölfar umræðna á Alþingi um hvort skipta ætti um þjóðsöng, vildu 68% halda núverandi þjóðsöng og tæplega 32% vildu nýjan.[6] Stuðningur við þjóðsönginn jókst með hækkandi aldri en fór þó aldrei niður fyrir 50%. Athuga skal, að í hvorugri könnuninni gaf Gallup upp stærð úrtaks eða svarhlutfall.

Lagaleg staða

breyta

„Lög um þjóðsöng Íslendinga“, þar sem söngurinn er nefndur „Ó Guð vors lands“, voru samþykkt á Alþingi 8. mars 1983 og tóku gildi 25. mars sama ár. Þar er m.a. staðhæft að hann sé eign íslensku þjóðarinnar, að hann skuli ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu, að eigi sé heimilt að nota hann í viðskipta- eða auglýsingaskyni, að forsætisráðherra skuli skera úr um allan ágreining um rétta notkun hans og að forsætisráðuneytið fari með umráð yfir útgáfurétti hans. Forsetinn hefur svo vald til að setja nánari ákvæði um notkun hans með forsetaúrskurði ef þörf þykir.

Brot á lögunum vörðuðu upprunalega varðhaldi allt að 2 árum, en því var breytt með lögum nr. 82, 16. júní 1998. Eftir að þau tóku gildi varðaði brot á lögum um þjóðsöng Íslendinga fangelsisvist allt að 2 árum.

Ljóðið

breyta

Lofsöngurinn samanstendur af þremur erindum og er yfirleitt látið nægja að syngja það fyrsta við opinberar samkomur nema við innsetningarathöfn forseta Íslands.

1. erindi

breyta
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Íslands þúsund ár,
Íslands þúsund ár,
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

2. erindi

breyta
Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
Íslands þúsund ár
Íslands þúsund ár
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

3. erindi

breyta
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
Íslands þúsund ár
Íslands þúsund ár
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.

Sjá einnig

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „7/1983: Lög um þjóðsöng Íslendinga“. Alþingi.
  2. Morgunblaðið 1974
  3. „301/131 þáltill.: nýr þjóðsöngur“. Alþingi. Sótt 30. ágúst 2019.
  4. „Atkvæðagreiðsla“. Alþingi. Sótt 30. ágúst 2019.
  5. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. september 2007. Sótt 29. september 2007.
  6. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. september 2007. Sótt 29. september 2007.

Heimild

breyta
  • Sögukaflar af sjálfum mér eftir Matthías Jochumsson. 1959.

Tenglar

breyta

Greinar um lofsöngin