Íslensk kjötsúpa

Íslensk kjötsúpa eða bara kjötsúpa er matarmikil súpa úr lambakjöti og grænmeti. Algengast er að í súpunni séu kartöflur, gulrófur, gulrætur og hvítkál en aðrar grænmetistegundir eru einnig notaðar, svo sem laukur og blaðlaukur, og hún er bragðbætt með þurrkuðum súpujurtum og stundum kjötkrafti. Oft eru notuð grjón í súpuna, svo sem hrísgrjón, hafragrjón eða bygggrjón.

Kjötsúpa
Íslensk kjötsúpa getur einnig átt við hljómplötu og sjónvarpsþátt.

Fyrr á öldum var kindakjöt sem borðað var nýtt oftast soðið í súpu sem gjarna var bragðbætt með mjólkursýru. Þá var ekkert grænmeti í súpunni en oftast eitthvert kornmeti, framan af yfirleitt bygg en þegar hafragrjón og hrísgrjón fóru að flytjast til landsins voru þau einnig notuð. Sumstaðar var dálítið af súru skyri sett út í súpuna. Innfluttar súpujurtablöndur komu svo til sögunnar seint á 19. öld og um svipað leyti var farið að nota grænmeti í súpuna, einkum kartöflur og rófur.

Nýtt lamba- og kindakjöt var ekki eina kjötið sem notað var í súpu. Saltkjöt var oft notað og stundum nauta- og kálfakjöt, svo og hrossakjöt. Yfirleitt er notað kjöt af bóg, framhrygg eða bringu, sagað í fremur stóra bita (súpukjöt).

Kjötsúpa var oft sunnudags- eða veislumatur og stundum jólamatur en nú er hún fremur hversdagsmatur og jafnvel hægt að fá pakkasúpu frá Toro sem kallast Íslensk kjötsúpa. Mörgum finnst súpan vera gott dæmi um hefðbundna íslenska matargerð og þegar Íslendingar erlendis eiga að kynna íslenska matargerð fyrir útlendingum elda þeir oft kjötsúpu.

Svipaðar súpur eru þó þekktar víðar, einkum þar sem svipaðar grænmetistegundir eru ræktaðar og sauðfjárrækt er algeng, svo sem í Noregi og Skotlandi og má nefna súpuna Scotch broth sem dæmi.

HeimildirBreyta

  • Hallgerður Gísladóttir (1999). Íslensk matarhefð. Mál og menning.
  • „Lambakjot.is. Skoðað 19. febrúar 2011“.