Síld
Síld (fræðiheiti: clupea harengus) einnig nefnd Atlantshafs síld er fisktegund sem finnst beggja vegna Norður-Atlantshafsins þar sem hún safnast í stórar torfur eða flekki. Af Atlantshafs síld eru tvær undirtegundir, sú sem lifir í úthafi Atlantshafs (C. h. harengus) og hin sem lifir í Eystrasalti (C. h. membras). Síld er algengasta fisktegund í heimi þegar taldar eru með Kyrrahafs-og Sílesíldin líka.
Síld | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Clupea harengus Linnaeus, 1758 |
Síldartorfur
breytaSama fjarlægð er milli allra fiska í torfu og þeir synda allir í sömu áttina. Sennilega berast boð á milli fiskanna í torfunni. Komi styggð að fiskunum getur torfan beygt til hægri eða vinstri á örskotstundu eða synt upp eða niður. Í síldartorfu eru oft 10 til 100 þúsund en í torfum geta líka verið margar milljónir fiska. Sennilegt er að torfan sé náttúruleg vörn gegn ásókn annarra sjávardýra. Afræningjar síldar í náttúrunni eru selir, hvalir, þorskar og aðrir stórir fiskar. Síldartorfur fara oft 50 km leið á hverjum degi í marga daga í röð. Auðvelt er fyrir veiðimenn að fylgjast með torfum með rafeinda- og bergmálstækni.
Heimkynni
breytaHeimkynni síldarinnar eru í Norður-Atlantshafi. Í Norðaustur-Atlantshafi finnst hún frá Barentshafi suður til Biskajaflóa, í Norðvestur-Atlantshafi er hún við Grænland og frá Labrador suður til Hatterashöfða í Norður-Karólínuríki Bandaríkjanna. Við Ísland er síld allt í kringum landið.
Síldin er uppsjávar- og miðsævisfiskur þótt hún hrygni við botn. Hún finnst frá yfirborði og niður á 20-250 metra dýpi, er ekki sérlega viðkvæm fyrir seltustigi sjávar og á það jafnvel til að flækjast upp í árósa.
Lýsing á síld
breytaSíld getur orðið 54 sm löng og 500 g þung.
Fæða
breytaAðalfæða síldar er ýmis konar sviflæg smákrabbadýr svo sem rauðáta en einnig ljósáta, loðna, sandsíli og lirfur þessara fiska. Síldin eltir rauðátuflekki. Þegar þörungar blómstra og smákrabbadýr eins og rauðáta hafa nóg æti þá er fæða fyrir síld nánast ótakmörkuð. Þess vegna getur síldin safnast saman í stóra flekki eða torfur og er mikil fjöldi einstaklinga á litlu svæði. Það dregur úr vexti þörunga á vetrarlagi og þar með versna lífsskilyrði þeirra dýra sem síld lifir á. Síldin hefur þá minna æti en bregst við því með að safna mikilli búkfitu og innyflamör á sumrin.
Stofnar á Íslandsmiðum
breytaAllt frá 1970 hafa síldveiðar Íslendinga nær eingöngu byggst á einum og sama síldarstofninum, íslensku sumargotssíldinni. Þessu var þó ekki þannig háttað fyrr á árum því að við Ísland hefur veiðst síld úr þremur síldarstofnum, það er að segja íslenskri sumargotssíld, íslenskri vorgotssíld og norsk-íslenska síldarstofninum. Tveir hinir fyrstnefndu hrygna við Ísland en hinn síðasttaldi við Noreg.
Íslenska sumargotssíldin
breytaÍ samanburði við marga aðra síldarstofna er íslenski sumargotsstofninn ekki stór. Á seinni hluta 6. áratugarins og fram um 1965 er talið að hrygningarstofninn hafi verið á bilinu 150 – 280 þúsund tonn. Um og upp úr 1960 var farið að veiða sumargotssíldina í hringnót árið um kring. Við það jókst aflinn úr 15 – 50 þúsund tonnum í 70 – 130 þúsund tonn. Á árunum 1968 – 1971 var svo mjög að stofninum sorfið að ársaflinn varð aldrei meiri en 10 – 15 þúsund tonn þrátt fyrir gífurlega sókn. Stofninn hrundi og 1972 voru veiðar bannaðar nema í rannsóknaskyni.
Með tilkomu veiðibannsins náði íslenska sumargotssíldin sér furðu fljótt á strik. Upphafið var árgangurinn frá 1971 og afkomendur hans frá 1974 og 1975, en kynþroskaaldur sumargotssíldarinnar lækkaði um 1 – 2 ár meðan stofninn var hvað minnstur. Hóflega hefur verið veitt úr íslenska sumargotsstofninum seinustu 25 árin, oftast 20 – 25% á ári en það er nálægt kjörsókn. Árangurinn hefur heldur ekki látið á sér standa. Stórir árgangar hafa verið algengir allt frá 1979 og hrygningarstofninn telst nú vera um hálf milljón tonna og aflinn um 100 þúsund tonn á ári. Umgengni um þennan fiskstofn seinasta aldarfjórðunginn er nú alls staðar talin skólabókardæmi um hagkvæma stjórn fiskveiða.
Íslenska vorgotssíldin
breytaLíkt og sumargotssíldin hrundi íslenski vorgotssíldarstofninn vegna ofveiði og ef til vill náttúruhamfara á 7. áratug 20. aldar. Á þeim er þó sá reginmunur að sumargotsstofninn náði smám saman fyrri stærð en íslensk vorgotssíld finnst nánast ekki lengur.
Norsk-íslenski síldarstofninn
breytaNorsk-íslenski síldarstofninn er langstærstur af þessum þremur og er raunar stærsti síldarstofn sem um getur. Hann hrygnir einkum við Noreg en einnig við Færeyjar og kom í ætisleit til Íslands á sumrin og fyllti þá firði og flóa. Þetta var hin fræga Norðurlandssíld. Hún þótti feitari og ljúffengari en önnur síld til söltunar og var alþekkt á mörkuðum sem Íslandssíld þótt hún væri reyndar af norskum uppruna.
Á hafísárunum (1965 – 1969) hraktist síldin frá Norðurlandi vegna sjávarkulda og átuleysis. Um það leyti hrundi norsk-íslenski síldarstofninn. Aflinn hafði þá skömmu áður farið í tvær milljónir tonna. Þar af veiddu Norðmenn um 500 þúsund tonn af ókynþroska smásíld. Ef miðað er við fjölda er smásíldarveiðin yfirgnæfandi og olli mestu um hrun stofnsins. Norsk-íslenska síldin var í mikilli lægð næstu 20 árin og hélt sig þá eingöngu við strendur Noregs. Eftir 1990 hefur stofninn loks braggast og náð fyrri stærð við lok tíunda áratugar tuttugustu aldarinnar. Þrátt fyrir þetta hefur hann ekki komið aftur á grunnmið norðanlands.
Ómögulegt er að spá fyrir um það hvenær þessi stærsti síldarstofn veraldar heimsækir okkur í líkum mæli og á árum áður en líklega er það háð því að stofninn haldist stór, vetursetustöðvarnar færist frá Noregsströndum til Austfjarða og góðæri ríki á Íslandsmiðum.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Atlantic herring“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. júlí 2006.
- „Lífríki sjávar - Síld (bæklingur frá Hafrannsóknarstofnun)“ (PDF). Sótt 30. júlí 2006.
Tenglar
breyta- Síld; grein í Morgunblaðinu 1980 Geymt 12 mars 2016 í Wayback Machine