Árni Einarsson Dalskeggur

Árni Einarsson Dalskeggur (d. 1434) var eyfirskur höfðingi á 15. öld sem er þekktastur fyrir það að hafa verið einn af foringjum liðsins sem fór að Jóni Gerrekssyni biskupi í Skálholti 1433 og drekkti honum í Brúará.

Árni var líklega fæddur um 1385. Hann var sonur Einars Bjarnasonar á Eyvindarstöðum í Sölvadal en móðir hans hét Vigdís. Hann bjó í Stóradal í Djúpadal í Eyjafirði og er oft aðeins kallaður Dalskeggur eða Árni Dalskeggur í heimildum og stundum sagður Magnússon eða Markússon en fullvíst er að hann var Einarsson.

Hann var einn helsti höfðingi Eyfirðinga og reið með Þorvarði Loftssyni á Möðruvöllum og Teiti Gunnlaugssyni í Bjarnanesi suður fjöll skömmu fyrir Þorláksmessu á sumri, 20. júlí 1433. Þá vissu þeir að biskup mundi vera heima því Þorláksmessa var mikill hátíðisdagur í Skálholti og margt fólk samankomið. Þeir komu að Skálholti að kvöldi 19. júlí og tjölduðu þar ásamt öðrum gestum en þegar messan stóð sem hæst daginn eftir gengu þeir í kirkju með fimmtíu vopnaða menn. Sagt er að Dalskeggur hafi gengið fremstur og sagt: Nú er mikið um dýrðir. Síðan tóku þeir biskup og drógu hann úr kirkjunni en drápu þá sveina hans sem í náðist. Biskup var svo settur í poka og honum drekkt í Brúará. Þeir virðast enga refsingu hafa fengið þótt þeir hefðu drepið sjálfan biskupinn og saurgað dómkirkjuna með blóði sveinanna.

Árni kemur við ýmis fornbréf en fátt er þó um hann vitað. Hann var líklega tvígiftur. Á meðal barna hans var Einar, faðir Eyjólfs Einarssonar lögmanns. Hann dó ári eftir Skálholtsförina.

Heimildir

breyta
  • „Jón Gerreksson og Kirkjubólsbrenna. Fálkinn, 4. tölublað 1957“.