Ábyrgð: frumskuldbinding manneskju er sú að henni hefur verið gefið nafn og ætlast er til að hún gegni því. Manneskja er fædd og alin upp af öðrum sem gera tilkall til hennar. Hún er sonur, bróðir, frændi, vinur, nemandi o.s.frv. Smám saman lærist henni hver hún er. Hún lærir með því að taka á sig þær skuldbindingar sem aðrir ætlast til af henni. Hún lærir líka af þvi að taka eftir viðmóti og framkomu annarra gagnvart henni og því sem hún gerir sjálf. Hún hefur tekur á sig skuldbindingar löngu áður en hún kemst til vits og ára. Tilkall eða krafa annarra til manneskjunnar er því rót skuldbindinga hennar. Til að hún skilji hvað henni ber að gera, skyldur sínar, þarf hún að skilja kröfur annarra. Hún verður einnig að fallast á kröfur annarra. Það hefur hún gert löngu áður en spurningin um réttmæti og óréttmæti kemur upp í huga hennar og þar með áður en hin siðferðilega hlið málsins kemur í ljós. Hún tekur meðvitað á sig skyldur sínar að eigin frumkvæði. Hún skuldbindur sig með því að gefa loforð, gera saminga og taka að sér störf o.s.frv. Manneskjan getur staðið við skuldbindingar sínar á ólíka vegu.

Skyldur og skuldbindingar reyna á skilning fólks og hæfileika til að gera sér grein fyrir hverju það er bundið; fólk getur haft skyldur og skuldbindingar án þess að átta sig á því sem í þeim felst. Í öðru lagi binda þær okkur til tiltekinna athafna, við eigum að gera vissa hluti og aðra ekki, það er ámælisvert að gera ekki það sem skyldan býður að við höfum skuldbundið okkur til. Hverjum og einum ber að uppgötva skyldur sínar og taka á sig þær skuldbindingar sem staða hans eða hennar krefst.

HeimildirBreyta

  • Páll Skúlason (1990): 135-137.