Winston Churchill

Forsætisráðherra Bretlands (1874–1965)

Sir Winston Leonard Spencer-Churchill (30. nóvember 187424. janúar 1965) var breskur stjórnmálamaður. Hann var forsætisráðherra Bretlands á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar frá 1940 til 1945, og aftur frá 1951-1955. Hann er þekktastur sem leiðtogi Breta í heimsstyrjöldinni, en var auk þess herskólagenginn hermaður, rithöfundur, sagnfræðingur, blaðamaður og afkastamikill listmálari. Stjórnmálaferill hans var langur og hann er einn af þekktustu stjórnmálaleiðtogum Bretlands. Hann sat á Breska þinginu frá 1900 til 1964, sem fulltrúi fimm kjördæma, og lengst af fyrir Breska íhaldsflokkinn þar sem hann var formaður frá 1940 til 1955. Hann aðhylltist bæði frjálslyndisstefnu og heimsvaldastefnu. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1953.

Sir Winston Churchill
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
10. maí 1940 – 26. júlí 1945
ÞjóðhöfðingiGeorg 6.
ForveriNeville Chamberlain
EftirmaðurClement Attlee
Í embætti
26. október 1951 – 6. apríl 1955
ÞjóðhöfðingiGeorg 6.
Elísabet 2.
ForveriClement Attlee
EftirmaðurAnthony Eden
Persónulegar upplýsingar
Fæddur30. nóvember 1874
Woodstock, Oxfordshire, Englandi, Bretlandi
Látinn24. janúar 1965 (90 ára) Kensington, London, Englandi, Bretlandi
ÞjóðerniBreskur
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn (fyrir 1904; 1924–1964)
Frjálslyndi flokkurinn (1904–1924)
MakiClementine Hozier, síðar Churchill
BörnDiana, Randolph, Sarah, Marigold Frances, Mary
VerðlaunNóbelsverðlaunin í bókmenntum (1953)
Karlsverðlaunin (1955)

Hann er eini forsætisráðherra Bretlands sem fengið hefur Nóbelsverðlaunin auk þess að vera fyrstur til að vera gerður að heiðursborgara í Bandaríkjunum. Hann var af blönduðum breskum og bandarískum uppruna og fæddist inn í auðuga aðalsfjölskyldu í Oxfordskíri. Hann gekk í Breska herinn og gegndi herþjónustu á Breska Indlandi, í Mahdi-stríðinu í Súdan og í síðara Búastríðinu. Hann öðlaðist frægð sem stríðsfréttaritari og fyrir bækur sem fjölluðu um herleiðangra hans. Hann var fyrst kjörinn á þing fyrir Íhaldsflokkinn 1900 en gekk í Frjálslynda flokkinn fjórum árum síðar. Í frjálslyndri ríkisstjórn H. H. Asquith var hann bæði forseti Breska viðskiptaráðsins og innanríkisráðherra. Þar barðist hann fyrir velferðarumbótum. Í Fyrri heimsstyrjöld var hann flotamálaráðherra og hafði umsjón með Gallipoli-herförinni, en þegar hún fór út um þúfur var hann lækkaður í tign og skipaður kanslari hertogadæmisins Lancaster. Hann sagði af sér árið 1915 og gegndi um tíma herskyldu á vesturvígstöðvunum sem yfirmaður fótgönguliðssveitar. Árið 1917 varð hann aftur ráðherra í ríkisstjórn David Lloyd George og gegndi þar embættum hergagnamálaráðherra, stríðsmálaráðherra, flugmálaráðherra og nýlendumálaráðherra. Sem slíkur hafði hann umsjón með samningi Bretlands og Írlands og breskri utanríkisstefnu í Mið-Austurlöndum. Eftir tvö ár utan þings varð hann fjármálaráðherra í íhaldsstjórn Stanley Baldwin sem kom sterlingspundinu aftur á gullfót 1925, sem skapaði kreppuástand í bresku efnahagslífi.

Á „öræfaárunum“ á 4. áratugnum leiddi Churchill baráttuna fyrir því að byggja upp hernaðarmátt Bretlands að nýju til að svara vaxandi hernaðarhyggju Þýskalands undir stjórn nasista. Þegar Síðari heimsstyrjöld braust út var hann aftur skipaður flotamálaráðherra og varð forsætisráðherra eftir að Neville Chamberlain sagði af sér í maí 1940. Churchill hafði yfirumsjón með þátttöku Breta í baráttu bandamanna gegn sókn Öxulveldanna, sem lauk með sigri þeirra árið 1945. Eftir ósigur Íhaldsflokksins í kosningunum 1945 varð Churchill leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Í skugga Kalda stríðsins varaði hann við því að „járntjald“ væri að leggjast yfir Evrópu. Hann var talsmaður Evrópusamvinnu og náins samstarfs við Bandaríkin, auk þess að styðja viðgang Breska heimsveldisins. Hann tapaði kosningunum 1950 en sneri aftur til valda eftir kosningar 1951. Annað tímabil hans sem forsætisráðherra tóku utanríkismál og málefni heimsveldisins mestan tíma hans. Stjórn hans lagði áherslu á húsnæðismál innanlands og þróun kjarnorkuvopna. Churchill sagði af sér embætti forsætisráðherra 1955 vegna versnandi heilsu, þótt hann sæti áfram sem þingmaður til 1964. Útför hans 1965 var kostuð af ríkinu.

Churchill er almennt álitinn einn af mikilvægustu stjórnmálamönnum 20. aldar. Hans er einkum minnst fyrir leiðtogahlutverk sitt í Síðari heimsstyrjöld þar sem hann lék lykilhlutverk í að verja frjálslynt lýðræði í Evrópu gegn útbreiðslu fasisma. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir framgöngu sína í stríðinu, sérstaklega fyrir sprengjuárásina á Dresden 1945, en líka fyrir skoðanir sínar á heimsvaldastefnu Breta, kynþáttum og mannkynbótum.

Æviágrip breyta

Winston Churchill fæddist árið 1874, á miðju Viktoríutímabilinu, þegar breska heimsveldið var á hátindi valda sinna. Eftir grunnskólanám gekk hann í konunglega breska hernaðarháskólann í Sandhurst og útskrifaðist þaðan árið 1895 sem merkisberi í fjórðu Húsaraherdeildinni í Aldershot.[1] Hann gegndi herþjónustu með Húsaradeildinni í Indlandi og tók einnig þátt í hernaðarátökum á Kúbu, Egyptalandi og Súdan.

Þegar seinna Búastríðið braust út í Suður-Afríku árið 1899 var Churchill ráðinn hjá dagblöðunum Daily Mail og Morning Post til þess að skrifa fréttir af vettvangi átakanna. Churchill ferðaðist með skipi til Suður-Afríku og tók þátt í stríðinu en var handsamaður og færður í fangabúðir í Pretoríu. Með hjálp annarra stríðsfanga tókst Churchill hins vegar að sleppa úr haldi Búanna og flýja yfir landamærin til Portúgölsku Austur-Afríku, þar sem nú er Mósambík. Flótti Churchill úr haldi Búa vakti mikla athygli og gerði hann að stríðshetju í augum margra Breta.[2][3]

Churchill var kjörinn á þing árið 1900 fyrir Íhaldsflokkinn en sagði sig úr honum og gekk í Frjálslynda flokkinn árið 1904 vegna ágreinings við Íhaldsmenn um verslunarfrelsi. Churchill var ötull stuðningsmaður fríverslunar en forsvarsmenn Íhaldsflokksins á formannstíð Arthurs Balfour aðhylltust frekar þá stefnu að vernda breskan efnahag með tollamúrum. Sem meðlimur Frjálslynda flokksins gekk Churchill í ríkisstjórn í fyrsta sinn árið 1905 og varð aðstoðarnýlendumálaráðherra í ríkisstjórn Henry Campbell-Bannerman. Eftir að Campbell-Bannerman sagði af sér og H. H. Asquith gerðist forsætisráðherra varð Churchill viðskiptaráðherra í stjórn hans. Í því embætti kom Churchill að lagasetningu um fyrstu lágmarkslaun í sögu Bretlands. Hann aðstoðaði einnig David Lloyd George fjármálaráðherra við að setja hin svokölluðu „fjárlög lýðsins“, sem renndu stoðum undir ýmis ríkisrekin velferðarverkefni og fjármögnuðu þau m.a. með háum tekjuskatti. Þeir Lloyd George urðu nánir samstarfsmenn og voru stundum kallaðir „himnesku tvíburarnir“ í blaðaumfjöllun.[4]

Churchill var hlynntur arfbótastefnu og sem innanríkisráðherra í ríkisstjórn Asquith á árunum 1910-11 lagði hann til ýmis lög sem ættu að stemma stigu við „offjölgun stétta fávita og geðsjúklinga“ sem Churchill taldi „ógn við þjóð og kynþátt sem ómögulegt er að ýkja.“[5]

„Ég legg til að 100.000 úrkynjaðir Bretar verði gerðir ófrjóir með valdi og aðrir settir í vinnubúðir til þess að hægja á hrörnun breska kynþáttarins.“[6]

Tillögur Churchill urðu ekki að lögum í þeirri mynd sem hann mælti með heldur voru lög sett þar sem geðsjúkir voru lokaðir inni á hælum.

Fyrri heimsstyrjöldin breyta

Í byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar var Churchill flotamálaráðherra. Sem slíkur bar hann ábyrgð á Gallipoli-herförinni árið 1915, þar sem breski flotinn réðst á Dardanellasund í von um að geta hertekið Konstantínópel, höfuðborg Tyrkjaveldis.[7] Herförin var einn versti ósigur Breta og einn af fáum sigrum sem Tyrkir unnu í styrjöldinni. Um 302.000 breskir og franskir hermenn féllu í valinn. Orðstír Churchill beið slíkan hnekki að hann neyddist til að segja af sér sem flotamálaráðherra í maí árið 1915.[8]

Millistríðsárin breyta

Churchill varð árið 1921 nýlendumálaráðherra í ríkisstjórn Lloyd George. Í því embætti stýrði hann Kaíró-ráðstefnunni sama ár, þar sem nýjar línur voru dregnar að landamærum í Miðausturlöndum eftir hrun Tyrkjaveldis í heimsstyrjöldinni. Á ráðstefnunni var meðal annars fallist á stofnun konungsríkisins Jórdaníu og Churchill stærði sig síðar af því að hafa „einn sunnudagseftirmiðdag skapað Jórdaníu með einu pennastriki“. Sú flökkusaga hefur gengið af því að þegar Churchill hafi teiknað upp nýju landamærin hafi hann verið gripinn hikstakasti vegna ofáts fyrr um daginn. Penna hans hafi því skeikað og þríhyrningslaga misræmi myndast á landamærum Jórdaníu og Sádi-Arabíu. Vegna þessarar flökkusögu kalla Jórdaníumenn þessa skekkju á landamærunum stundum „hiksta Churchills“ eða „hnerra Winstons“.[9]

Árið 1924 gekk Churchill til liðs við Íhaldsflokkinn á ný og gerðist fjármálaráðherra í ríkisstjórn Stanley Baldwin. Sem fjármálaráðherra sá Churchill um að binda breska efnahaginn á ný við gullfót. Þessi verknaður leiddi til mikillar verðhjöðnunar, atvinnuleysis og loks til allsherjar verkfalls árið 1926.[10] Churchill leit síðar sjálfur á endurupptöku gullfótarins sem verstu mistök á öllum ferli sínum.[11]

Ríkisstjórn Íhaldsmanna tapaði þingkosningum árið 1929 og þegar Íhaldsmenn gengu í stjórnarsamstarf með Verkamannaflokknum undir forsæti Ramsay MacDonald árið 1931 var Churchill ekki boðið að sitja áfram sem fjármálaráðherra. Næstu árin var Churchill einangraður í stjórnmálum og einbeitti sér að mestu að ritstörfum, meðal annars á ævisögu forföður síns, John Churchill, hertoga af Marlborough.[12]

Eitt sem stuðlaði að pólitískri einangrun Churchill voru óvinsælar skoðanir hans varðandi sjálfstæðisbaráttu Indverja: Churchill var á móti friðsamlegri mótmælahreyfingu Mohandas Gandhi og sagði árið 1930 að „Gandhi-hyggjan og allt sem hún stendur fyrir ætti að vera bundin niður og kramin.“[13] Árið 1920 lýsti hann því yfir að réttast væri að „binda Gandhi niður höndum og fótum og kremja hann undir fótum fíls með landstjórann á bakinu.“[14][15][16]

Á millistríðsárunum hafði Churchill lengst af meiri áhyggjur af uppgangi kommúnismans en fasismans og leit á menn á borð við Franco[17] og Mussolini[18] sem gagnlega bandamenn gegn kommúnistastjórnum. Hann varð þó að endingu mjög gagnrýninn í garð Neville Chamberlain forsætisráðherra fyrir undanlátsstefnu hans gagnvart Adolf Hitler og skrifaði árið 1938 um München-sáttmálann að Bretum hefði staðið til boða val á milli „stríðs og skammar“. Chamberlain hefði valið skömmina og myndi ekki uppskera annað fyrir það en stríð með enn verri skilmálum eftir stutta frestun.[19][20][21]

Forsætisráðherra í seinni heimsstyrjöldinni breyta

 
Churchill með hjálm á höfði á meðan loftárásir dundu yfir London í orrustunni um Bretland árið 1940.

Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út árið 1939 varð Churchill flotamálaráðherra á ný líkt og í byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar. Chamberlain sagði af sér þann 10. maí 1940 eftir að Þjóðverjar hertóku Danmörku og Noreg og Churchill var skipaður forsætisráðherra í hans stað. Churchill hafnaði tillögum um friðarumræður við Þjóðverja og skapaði embætti varnarmálaráðherra, sem hann gegndi samhliða forsætisráðherraembættinu. Hann varð þar með einn valdamesti stríðsleiðtogi í sögu Bretlands. Churchill stofnaði þjóðstjórn með Verkamannaflokknum og gerði Clement Attlee að aðstoðarforsætisráðherra á meðan á stríðinu stóð.

Churchill flutti margar frægar ræður í byrjun stríðsins og sló Bretum eldmóð í brjóst með tilfinningahita sínum og orðheppni, sérstaklega þegar staðan var hvað svörtust eftir ósigur bandamanna í orrustunni um Frakkland.

„Við munum berjast í Frakklandi, við munum berjast á sænum og á hafinu, við munum berjast með auknu sjálfstrausti og síauknum styrk í lofti. Við munum verja eyjuna okkar hvað sem á dynur, við munum berjast á ströndunum, við munum berjast á flugvöllunum, við munum berjast á ökrunum og á götum úti, við munum berjast í hæðunum, við munum aldrei gefast upp.“[22]

Churchill átti í góðu sambandi við Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta og vinskapur þeirra kom því til leiðar að Bretar fengu miklar matar-, olíu- og hergagnabirgðir sendar yfir Atlantshafið frá Bandaríkjunum. Churchill var því mjög létt þegar Roosevelt vann endurkjör árið 1940. Þegar Japanir réðust á Perluhöfn og Bandaríkin gengu inn í heimsstyrjöldina voru fyrstu viðbrögð Churchill: „Við höfum unnið stríðið!“[23]

Þegar Hitler gerði árás á Sovétríkin sagði Churchill, sem hafði alla ævi verið svarinn andkommúnisti, að „ef Hitler gerði innrás í helvíti myndi ég að minnsta kosti segja nokkur hlýleg orð um djöfulinn í neðri málstofunni.“[24][25] Bretar fóru brátt að senda birgðir og skriðdreka til aðstoðar Sovétmönnum.[26]

 
Churchill (til hægri) ásamt Chiang Kai-shek og Franklin D. Roosevelt á ráðstefnu í Kaíró árið 1943.

Í janúar árið 1943 hittust Churchill, Roosevelt og Charles de Gaulle í Casablanca í Marokkó og komust að þeirri niðurstöðu að stefnt skyldi að skilyrðislausri uppgjöf Öxulveldanna. Churchill var þó ekki afdráttarlaus í afstöðu sinni um þetta og var nokkuð hissa þegar Roosevelt tilkynnti niðurstöðuna af fundinum.[27][28]

Deilt hefur verið um hlutverk Churchill í hungursneyðinni í Bengal árið 1943, þar sem um þrjár milljónir manna létust úr hungri, vannæringu og sjúkdómum. Japanir höfðu hertekið Búrma og þar með lokað á innflutning hrísgrjóna til Indlands og valdið hungursneyð í Bengal, þar sem 20% neyttra hrísgrjóna voru innflutt. Churchill hélt því fram að hungursneyðin væri Indverjum sjálfum að kenna því þeir „fjölguðu sér eins og kanínur“[29][30][31][32][30][33] og neitaði að sjá af nokkrum birgðum sem ætlaðar væru herrekstrinum til að hjálpa þeim. Þegar landstjóri Indlands sendi Churchill símskeyti til að biðja um matarbirgðir spurði Churchill á móti að ef staðan væri svona slæm, „hvers vegna [væri] Gandhi þá ekki dauður enn?“ [34]

Í júní árið 1944 gerðu Bandamenn innrás í Normandí og ráku Þjóðverja inn í Þýskaland á næsta ári. Í innrás bandamanna í Þýskaland í febrúar 1945 átti Churchill þátt í því að skipa sprengjuárásir á borgina Dresden, þar sem fjöldi þýskra flóttamanna og særðra hermanna hafði safnast saman.[35] Eftir sprengjuárásirnar á borgina velti Churchill því upp í leynilegu símskeyti hvort rétt væri að endurskoða þá stefnu að „varpa sprengjum á þýskar borgir til þess eins að auka skelfinguna, en með öðrum tylliástæðum“.[36] Loftárásirnar voru meðal umdeildustu aðgerða bandamanna í stríðinu þar sem Þýskaland var í raun þegar sigrað þegar þær voru gerðar og Dresden þótti ekki hernaðarlega mikilvæg borg.[37] Í árásunum var Dresden lögð í rúst og um það bil 25 þúsund manns[38], aðallega óbreyttir borgarar, voru drepnir. Í eldri heimildum er yfirleitt talað um 135.000 dauðsföll.[39]

Þann 7. maí þáðu Bandamenn skilyrðislausa uppgjöf Þjóðverja og þann 8. maí lýsti Churchill yfir endalokum stríðsins í Evrópu.

Þingkosningar voru haldnar í Bretlandi í júlí árið 1945 en þar vann Verkamannaflokkurinn stórsigur. Churchill sagði því af sér sem forsætisráðherra og Clement Attlee tók við embætti hans.

Í stjórnarandstöðu breyta

Churchill var leiðtogi bresku stjórnarandstöðunnar á sex ára ráðherratíð Attlee. Hann var áfram áhrifamikill í alþjóðastjórnmálum á þessum tíma og flutti meðal annars fræga ræðu um Sovétríkin í heimsókn til Bandaríkjanna þann 5. mars árið 1946 sem oft er talin marka upphaf kalda stríðsins:

„Frá Stettin í Eystrasalti til Tríeste við Adríahaf hefur Járntjald fallið yfir álfuna. Handan þeirrar línu standa allar höfuðborgir hinna fornu ríkja Mið- og Austur-Evrópu. Varsjá, Berlín, Prag, Vín, Búdapest, Belgrad, Búkarest og Sofía; allar þessar frægu borgir og íbúarnir í kringum þær eru nú á því sem ég verð að kalla áhrifasvæði Sovétmanna.“[40]

Forsætisráðherra á ný breyta

Churchill varð forsætisráðherra í annað sinn eftir að hafa unnið nauman sigur gegn Verkamönnum í kosningum árið 1951 (þrátt fyrir að flokkur hans hefði hlotið færri atkvæði). Ríkisstjórn Churchill beitti sér snemma fyrir byggingu fjölda nýrra íbúða til að kljást við húsnæðisvanda sem hafði hrjáð Bretland frá því á stríðsárunum.[41]

Annars einbeitti Churchill sér að mestu að utanríkismálum á annarri ráðherratíð sinni. Hann sendi breska hermenn til Kenýu til að kveða niður Mau Mau-uppreisnina[42] og til Malakkaskaga til að kveða niður svipaða uppreisn þar. Þessar hernaðardeilur komu flestum Bretum í skilning um að ekki yrði hægt að halda nýlenduyfirráðum um allan heim áfram til lengdar.[43] Churchill reyndi þó eftir mesta megni að halda í leifar breska heimsveldisins og sagðist ekki vilja „sitja við stjórn sundurbútunar.“[42] Ríkisstjórn Churchill átti einnig hlut að máli í valdaráni í Íran árið 1953.[44]

Churchill sagði af sér eftir að hafa fengið endurtekin heilablóðföll í apríl árið 1955 og settist í helgan stein. Anthony Eden tók við embætti forsætisráðherra.

Fjölskylduhagir breyta

Randolph Churchill faðir Winstons var einnig stjórnmálamaður og um tíma fjármálaráðherra. Hann var þriðji sonur sjöunda hertogans af Marlborough. Móðir hans, Jennie Jerome, var dóttir bandarísks auðkýfings að nafni Leonard Jerome. Winston var fæddur tveimur mánuðum fyrir tímann í Bleinheim-höll sem er ættaróðal Marlborough fjölskyldunnar. Churchill átti einn bróður, John Strange Spencer-Churchill.

Churchill hitti tilvonandi konu sína, Clementine Hoizer, í fyrsta sinn árið 1904 á dansleik í Crewe House. Þau hittust aftur árið 1908 í matarboði hjá Lafði St Helier. Churchill sat við hlið Clementine við borðhaldið. Hann bað Clementine í veislu í Bleinheim höll 10 ágúst 1908, þau gengu svo í hjónaband í St. Margrets, Westminister og voru þau gefin saman af biskupnum af St Asph. Árið 1909 fluttu hjónin að Eccleston Square 33. Fyrsta barnið Diana fæddist 11. júlí 1909, Randolph fæddist 28. maí 1911, þriðja barnið fæddist 7. október 1914, fjórða barnið Marigold fæddist 15. nóvember 1918, Mary fæddist svo 15. september 1922 síðar þann sama mánuð keypti Churchill Chartwell þar sem fjölskyldan bjó þar til Churchill lést 1965.

Ráðherraembætti breyta

Winston Churchill (1874-1965) gegndi ýmsum ráðherraembættum á langri og viðburðaríkri ævi. Hann var ungur kjörinn á breska þingið og ekki leið á löngu þar til að honum voru falin ábyrgðarstörf. Hér að neðan er listi yfir ráðherrastörf Churchills, ekki eru alltaf til íslensk hugtök yfir embættin en reynt að nálgast þau í þýðingunni:

  • Aðstoðarnýlendurmálaráðherra 1906-8 (Undersecretary of State for the Colonies)
  • Viðskiptaráðherra 1908-10 (President of the Board of Trade)
  • Innanríkisráðherra 1910-11 (Secretary of State for Home Affairs)
  • Flotamálaráðherra 1911-1915 (First Lord of the Admiralty)
  • Varnarmálaráðherra 1918-21 (Secretary of War and Air Minister)
  • Aðstoðarnýlenduráðherra 1921-22 (Undersecretary for the Colonies)
  • Fjármálaráðherra 1924-29 (Chancellor of the Exchequer)
  • Flotamálaráðherra 3. september 1939-10. maí 1940 (First Lord of the Admiralty)
  • Forsætisráðherra 10. maí 1940-45, 1951-55 (Prime Minister)[45]

Tilvísanir breyta

  1. Jón Þ. Þór (2014). Winston S. Churchill: Ævisaga. Sögufélag. bls. 24.
  2. Jón Þ. Þór (2014). Winston S. Churchill: Ævisaga. Sögufélag. bls. 42-48.
  3. „Ævintýrið í Afríku“. Æskan. 1. október 1965. Sótt 2. febrúar 2019.
  4. Jón Þ. Þór (2014). Winston S. Churchill: Ævisaga. Sögufélag. bls. 66.
  5. Martin Gilbert (31. maí 2009). „Churchill and Eugenics“. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. desember 2013. Sótt 21. mars 2018.
  6. Ummæli af deildarskýrslu innanríkisráðuneytisins árið 1910. Frumskjalið er í skjalasafni Asquith í Bodleian-bókasafninu í Oxford. Vitnað er til þess í bók Clive Ponting, "Churchill" (Sinclair Stevenson 1994).
  7. Callwell, C.E. (2005). Dardanelles, a study of the strategical and certain tactical aspects of the Dardanelles campaign. London, UK: Naval & Military Press Ltd.
  8. Jenkins, Roy. Churchill: A Biography (2001). Bls. 282–88.
  9. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Miðausturlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Mál og menning. bls. 74-76.
  10. „Budget Blunders: Mr Churchill and the Gold Standard (1925)“ (enska). BBC News. 9. mars 1999. Sótt 2. desember 2007.
  11. James, Robert Rhodes. Churchill: A Study in Failure, 1900–1939 (1970), bls. 206.
  12. Gilbert, Martin (2004). Winston Churchill: The Wilderness Years. London: Pimlico.
  13. Myers, Kevin (6. ágúst 2010). „Seventy years on and the soundtrack to the summer of 1940 is filling Britain's airwaves“. The Irish Independent. Sótt 7. nóvember 2010.
  14. Barczewsk, Stephanie, John Eglin, Stephen Heathorn, Michael Silvestri, and Michelle Tusan. Britain Since 1688: A Nation in the World, p. 301
  15. Toye, Richard. Churchill's Empire: The World That Made Him and the World He Made, p. 172.
  16. Ferriter, Diarmuid (4. mars 2017). „Inglorious Empire: what the British did to India“. The Irish Times.
  17. James, bls. 408.
  18. Taylor, A.J.P. Beaverbrook Hamish Hamilton 1972 bls. 375.
  19. Current Biography 1942, p. 155
  20. Gilbert, Martin. Winston S. Churchill: Prophet of Truth: 1923–1939. 1977: p. 972
  21. Langworth 2008, pp. 256–57
  22. „We Shall Fight on the Beaches“. Churchill Centre. 4. júní 1940. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. júní 2009. Sótt 20. desember 2007.
  23. Stokesbury, James L. (1980). A Short History of WWII. New York: William Morrow and Company, Inc. bls. 171.
  24. „The Churchill Papers: Biography“. University of Cambridge. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. janúar 2014. Sótt 9. ágúst 2009.
  25. „Heimsstyrjöldin II. í máli og myndum“. Nýr stormur. 9. febrúar 1968. Sótt 18. janúar 2019.
  26. Stokesbury, James L. (1980). A Short History of WWII. New York: William Morrow and Company, Inc. bls. 159.
  27. Chen, Peter C. (14. janúar 1943). „Casablanca Conference“. Sótt 11. október 2014.
  28. Middleton, Drew (24. janúar 1943). „Roosevelt, Churchill Map 1943 War Strategy At Ten-Day Conference Held In Casablanca; Giraud And De Gaulle, Present, Agree On Aims“. The New York Times.
  29. See Dyson and Maharatna (1991) for a review of the data and the various estimates made.
  30. 30,0 30,1 Gordon, Leonard A. (1. janúar 1983). „Review of Prosperity and Misery in Modern Bengal: The Famine of 1943–1944“. The American Historical Review. 88 (4): 1051. doi:10.2307/1874145. JSTOR 1874145.
  31. Mukerjee, Madhusree. „History News Network | Because the Past is the Present, and the Future too“. Hnn.us. Afrit af upprunalegu geymt þann 9 ágúst 2020. Sótt 29. júlí 2011.
  32. „Did Churchill cause the Bengal Famine of 1943, as has been claimed?“. Churchill Central. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. maí 2017.
  33. Tharoor, Shashi (mars 2017). „Inglorious Empire: What the British Did to India“. Hurst.
  34. Exit Wounds, Pankaj Mishra, The New Yorker, 13. ágúst 2007.
  35. Taylor, Frederick. Dresden: Tuesday, 13. febrúar 1945, New York: Harper Collins/London: Bloomsbury, bls. 262–64
  36. Patrick J. Buchanan, Where the Right Went Wrong (2004), St. Martin's Griffin, bls. 119
  37. „Hvaða tilgangi þjónaði loftárás Bandamanna á Dresden í seinni heimsstyrjöld (sem olli dauða fleira fólks en dó í Hiroshima)?“. Vísindavefurinn.
  38. Müller, Rolf-Dieter; Schönherr, Nicole; Widera, Thomas, eds. (2010), Die Zerstörung Dresdens: 13. bis 15. Februar 1945. Gutachten und Ergebnisse der Dresdner Historikerkommission zur Ermittlung der Opferzahlen, V&R Unipress, bls. 48,
  39. „135 þúsund drepnir í árásinni á Dresden“. Heimilistíminn. 13. apríl 1980. Sótt 18. janúar 2019.
  40. Churchill, Winston. „Sinews of Peace (Iron Curtain)“. Churchill Centre. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. júní 2009. Sótt 21. mars 2018.
  41. „The Housing Total Was 318,779“. Hartlepool Northern Daily Mail. 5. febrúar 1954. Sótt 21. mars 2018 – gegnum British Newspaper Archive.
  42. 42,0 42,1 Jenkins, bls. 843–61
  43. Ferguson, Niall (2000). Empire: How Britain Made the Modern World. London: Penguin Books Ltd.
  44. Kinzer, Stephen. All the Shah's Men. Hoboken, N.J.: John Wiley & Sons, Inc., 2008, bls. 3
  45. „Hvaða ráðherraembættum gegndi Sir Winston Churchill?“. Vísindavefurinn.


Fyrirrennari:
Neville Chamberlain
Forsætisráðherra Bretlands
(1940 – 1945)
Eftirmaður:
Clement Attlee
Fyrirrennari:
Clement Attlee
Forsætisráðherra Bretlands
(1951 – 1955)
Eftirmaður:
Anthony Eden


 
Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni