Vigdís Hauksdóttir

Vigdís Hauksdóttir (f. 20. mars 1965) er íslenskur lögfræðingur, fyrrverandi þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður fyrir Framsóknarflokkinn og fyrrverandi formaður fjárlaganefndar. Hún var einnig ritari þingflokks Framsóknarmanna og formaður Heimssýnar-hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Vigdís sat í miðstjórn Framsóknarflokksins um árabil og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn en eftir klofning flokksins með úrsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar úr honum gekk hún í Miðflokkinn og sat sem borgarstjórnarfulltrúi flokksins í Reykjavík frá 2018-2022.

Vigdís Hauksdóttir (VigH)

Fæðingardagur: 20. mars 1965 (1965-03-20) (59 ára)
Fæðingarstaður: Selfoss
8. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður
Flokkur: Merki Framsóknar Framsóknarflokkurinn
Nefndir: Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd
Þingsetutímabil
2009-2016 í Reykv. s. fyrir Framsfl.
= stjórnarsinni
Tenglar
Æviágrip á vef AlþingisVefsíða

Vigdís er af mörgum talin umdeildur stjórmálamaður. Hún hefur lýst sjálfri sér sem hægrisinnaðri[1] og er jafnvel sögð íhaldsöm. Vigdís er almennt mótfallin ríkisafskiptum og vill draga úr bótagreiðslum í íslenska velferðarkerfinu.[2] Hún er mótfallin aðild Íslands að ESB í samræmi við samþykktir Framsóknarflokksins og Miðflokksins. Vigdís hefur stutt lækkun framlags Íslendinga til þróunarsamvinnu.

Ævi breyta

Vigdís fæddist á Selfossi og er dóttir Hauks Gíslasonar, bónda á Stóru-Reykjum í Hraungerðishreppi, og Sigurbjargar Geirsdóttur. Vigdís starfaði í Blómavali 1984–1991 og var jafnframt fyrsti fagdeildarstjóri og kennari við blómaskreytingabraut Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi 1988–1991. Hún var eigandi Blómabúðar Reykjavíkur, Hótel Sögu, 1991–1995 og verslunarinnar Jóns Indíafara í Kringlunni 1995–1997.

Vigdís starfaði sem aðstoðarkennari í skattarétti við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst 2008 og sem lögfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands frá 2008 þar til hún bauð sig fram til Alþingis árið 2009.

Þingstörf breyta

Vigdís var kosin á þing í alþingiskosningunum árið 2009. Snemma á þingferli hennar kom það nokkrum sinnum fyrir að Vigdís mismælti sig eða fór rangt með málshætti. Fyrir vikið beindist nokkur athygli að henni. Meðal annars birti fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason myndband þar sem búið var að klippa saman nokkur slík atriði. Landsstjórn Landssambands framsóknarkvenna ályktaði af því tilefni að Egill legði Vigdísi í einelti sem væri sérlega slæmt þar sem hann væri starfsmaður Ríkisútvarpsins og ætti hann að láta af því og biðja Vigdísi afsökunar.[3] Í viðtali við blaðið Fréttatímann í byrjun árs 2013 sagði Vigdís að sér þætti stundum erfitt að lesa athugasemdir í sinn garð á opinberum vettvangi, sér í lagi þar sem barnsfaðir hennar dó um þetta leyti: „Fólk áttar sig ekki á því að á bak við hverja manneskju er heimilislíf og tilfinningar“ sagði hún.[4]

Þann 13. mars 2012 setti Vigdís skilaboð á Facebook-vef sínum af lokuðum vinnufundi Alþingis og taldi forseti þingsins að hún hefði þar með brotið þingsköp.[5] Vigdís mótmælti þessum úrskurði forseta þingsins þar sem hún taldi sig hvorki hafa vitnað beint í gest nefndarinnar né nefndarmann.[6]

Borgarfulltrúi breyta

Vigdís var oddviti Miðflokksins í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum árið 2018. Hún náði kjöri ein Miðflokksmanna og sat í borgarstjórn kjörtímabilið 2018-2022 en gaf ekki kost á sér til endurkjörs í kosningunum árið 2022.

Tilvitnanir breyta

  1. „Vigdís Hauksdóttir svarar“. DV. 25. janúar 2013. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. desember 2013. Sótt 14. desember 2020.
  2. „Vigdís Hauksdóttir á beinni línu“. DV. 26. júní 2013. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. desember 2013. Sótt 14. desember 2020.
  3. „Framsóknarkonur segja Egil leggja Vigdísi í einelti. Vilja að hann biðjist afsökunar“. 8. október 2011.
  4. María Lilja Þrastardóttir (11. janúar 2013). „Það á að knésetja mig“. Fréttatíminn.
  5. Bréf frá forseta Alþingis varðandi mál Vigdísar Hauksdóttur[óvirkur tengill]
  6. Vigdís svarar ásökunum um brot á þingsköpum eftir Facebook-færslu

Tengill breyta